16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

25. mál, almannatryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Þau frv., sem hér eru til umr., eiga það öll sameiginlegt, þrjú að tölu, að vera til staðfestingar brbl. sem út voru gefin í sumar, um leið og gengið var frá kjarasamningi. Þau eru til staðfestingar á atriðum sem aðilar urðu þar sammála um.

Hv. síðasti ræðumaður, 6. landsk. þm., Guðmundur H. Garðarsson, ræddi hér nokkuð lífeyrissjóðsmálin almennt, þó verulega í tengslum við þau mál sem samið var um bæði í sumar og einnig á s.l. ári, 1976. Það, sem einkenndi það samkomulag, sem gert var í marsmánuði 1976, og einnig samkomulagið, sem gert var í júní í sumar, er aðallega tvennt: Í fyrsta lagi er sett fram stefna um endurskoðun eða endurskipulagningu lífeyriskerfisins. Er kveðið svo á í samkomulagi sem gert var bæði þessi ár, að markmið þessarar endurskipulagningar skuli vera að samfellt lífeyriskerfi taki til allra landsmanna, að lífeyrissjóðir og almannatryggingar tryggi öllum lífeyrisþegum viðunandi lífeyri er fylgi þróun kaupgjalds á hverjum tíma þ.e.a.s. verðtryggðan lífeyri. Og í þriðja lagi að auka jöfnuð meðal landsmanna sem lífeyris eiga að njóta. Þetta ern þau þrjú höfuðatriði, sem eru stefnumarkandi fyrir þá endurskoðun lífeyriskerfisins sem aðilar vinnumarkaðarins, eins og það nú heitir, urðu sammála um í þessum samningum, bæði árið 1976 og 1977. Eini munurinn er sá, að samkv. samkomulaginu 1976 átti þessari endurskoðun að vera lokið þannig að nýtt kerfi gæti tekið gildi í ársbyrjun 1978, en 1977 var löngu séð, að þetta er miklu meira verk en svo að það hefði verið mögulegt og nú var þessi frestur framlengdur til ársins 1980. Þetta var annað atriðið í þessum samningum, þ.e.a.s. stefnumörkun fyrir endurskipulagningu lífeyriskerfisins. En síðan var í öðru lagi bæði árin gert samkomulag til bráðabirgða um meðferð lífeyrismálanna þar til hið nýja lífeyriskerfi gæti tekið gildi, og um það fjalla einmitt þau frv. sem hér eru til umr. núna og hv. síðasti ræðumaður kom inn á. Ég ætla ekki að fara að rekja þessi efnisatriði, þau eru fyrst og fremst í því fólgin að verðtryggja lífeyrinn til þessa fólks og gera hann að öðru leyti betri og meiri með því að breyta þeim útreikningi sem liggur til grundvallar lífeyri hverju sinni.

Hv. 6 landsk gat um að það hefði verulega áunnist í þessum málum og sannarlega er það rótt. Batnað hefur til verulegra muna staða þeirra lífeyrisþega sem njóta þeirra trygginga sem hér um ræðir. Hins vegar skulum víð gera okkur ljóst að það nær engan veginn til allra landsmanna. og í mörg ár hefur verið um það rætt og það verið draumur margra að á kæmist lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Þetta er gamalt mál, var einmitt til umr. upp úr 1960. Þegar verkalýðsfélögin sömdu um lífeyrissjóði almennt vorið 1969, þá voru þau satt að segja orðin úrkula vonar um að löggjafarvaldið hefði frumkvæði um að koma þeim lífeyrissjóði á fyrir alla landsmenn sem lengi hafði verið rætt um. Þess vegna sömdu verkalýðsfélögin þá um eigin lífeyrissjóði. Nú er það hins vegar komið í ljós mjög berlega á þeim árum sem síðan eru liðin og flest hafa verið mikil verðbólguár, að sjóðsöfnun á þennan hátt getur verið mjög vafasöm á slíkum verðbólgutímum eins og verið hafa og rannar augljóst að lífeyrissjóðirnir geta ekki með þeim tekjum, sem þeir hafa, staðið undir lífeyrisgreiðslum þegar frá líður og lífeyrisgreiðslur eru komnar með fullum þunga á lífeyrissjóðina. Við höfum fyrir okkur dæmi um hvernig lífeyrissjóðir, sem starfað hafa áratugum saman, eru nú á vegi staddir. Þar er lífeyrissjóður opinberra starfsmanna gleggsta dæmið sem við höfum fyrir okkur í fjárl. núna. Ég man ekki hve mikið það er á annan milljarð sem ríkissjóður verður að greiða núna með þeim lífeyrissjóði til þess að hann geti staðið undir verðtryggðum lífeyrisgreiðslum eins og opinberir starfsmenn hafa.

Sú verðtrygging, sem tekin hefur verið upp með þessum samningum tvennum sem ég hef áður minnst á, 1976 og 1977, getur því aðeins verið til bráðabirgða á meðan greiðslubyrði lífeyrissjóðanna er enn þá alveg í lágmarki. Það eru þeir sem standa undir þessari verðtryggingu. Mér skildist á hv. síðasta ræðumanni, Guðmundi H. Garðarssyni, að ríkisstj. bæri mestar þakkir fyrir það sem hefur verið gert í þessum lífeyrismálum. Vissulega hefur hún átt þarna hlut að máli, en peningarnir til verðtryggingarinnar hafa allir komið frá lífeyrissjóðunum sjálfum til þessara auknu trygginga.

Hv. ræðumaður, Guðmundur H. Garðarsson, minntist á frv. sitt, sem lagt var fram hér á s.l. ári, um Lífeyrissjóð Íslands. Ég er fyllilega sammála um að sú stefna, sem í því frv. felst, þ.e.a.s. það atriði frv. að hafa einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, er að mínu viti rétt. Þetta tók ég greinilega fram í umr, um það frv. í fyrra. Hins vegar tel ég að það sé mjög margt í því frv. sem þyrfti mikillar athugunar víð. Það er sem sagt í takt við samkomulagið um markmið endurskipulagningar lífeyriskerfisins sem ég áðan gat um og gert var í marsmánuði 1976. Þessi markmið hvor tveggja fara alveg saman, þar sem segir að samfellt lífeyriskerfi taki til allra landsmanna. Það er að vísu ekki sagt alveg berum orðum að það skuli vera einn lífeyrissjóður, lífeyrissjóður og almannatryggingar tryggi öllum lífeyrisþegum viðunandi lífeyri, verðtryggðan. Í þessum efnum er ekki um neinar andstæður að ræða, síður en svo. Þarna er stefnt að sama marki. Og það er alveg rétt sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson tók fram áðan, að sú samtrygging lífeyrissjóðanna, sem tekin var upp með samningunum 1976 til þess að standa undir verðtryggingunni, þar sem lífeyrissjóðirnir taka hver um sig að sér að greiða 4% af iðgjöldum hvers árs í þessa samtryggingu, þennan sameiginlega sjóð, það er einnig sannarlega í takt við það markmið sem sett var með samningunum 1976 um endurskipulagningu lífeyriskerfisins. Það gefur hins vegar auga leið að í þessari samtryggingu láta sumir sjóðir meira af hendi heldur en þeir fá til baka vegna þess hversu aldursskipting er ójöfn í lífeyrissjóðunum. Vil ég geta um dæmi þessa, sem er kannske ekki það dæmi sem sýnir mestan mismuninn, en þó mjög nærri því, að þær 22.3 millj. sem lífeyrissjóður Dagsbrúnar fékk úr þessu kerfi á s.l. ári nægðu ekki til að standa undir þeim verðtryggingum sem sá sjóður tók á sig. Ég man ekki nákvæmlega, ég held að það hafi verið eitthvað nálægt 12 millj. til viðbótar sem sjóðurinn varð að greiða umfram það, sem hann fékk úr þessum sameiginlega sjóði.

Það, sem felst í þeim frv. sem hér liggja fyrir, er aðallega fernt:

Það er verðtrygging lífeyrissjóðanna sem lífeyrissjóðirnir sjálfir standa einvörðungu undir. Í öðru lagi er það lagfæring á frítekjumörkunum svonefndu, þ.e.a.s. mörkum á þeim tekjum sem menn mega hafa án þess að tekjutrygging almannatrygginga skerðist. Þetta var hækkað, eins og menn sjá í frv., fyrir einstakling úr 120 þús. í 180 þús. og fyrir hjón úr 168 þús. í 252 þús. Það, sem segja má að framlag ríkisstj. eða ríkissjóðs í þessum efnum varðandi verðtrygginguna sé, er þessi hækkun á frítekjumörkunum, sem út af fyrir sig er ekki nein bein útlát fyrir ríkissjóð, heldur gerir það að verkum að lífeyrissjóðirnir spara kostnað við tekjutrygginguna ekki eins mikið og orðið hefði ef frítekjumörkin hefðu ekki verið hækkuð.

Í þriðja lagi er svo það, að tekið er upp það ákvæði sem búið er að vera í almannatryggingalögum í mörg ár, þ.e. að fólk, sem búið hefur í óvígðri sambúð árum saman, njóti sömu réttinda og um gift fólk væri að ræða. Nú er það svo að þetta kemur enn ekki að gagni nema nokkrum hluta þeirra sem njóta lífeyris úr lífeyrissjóðum eða frá umsjónarnefnd eftirlauna til aldraðra í stéttarfélögum, vegna þess að reglugerðir lífeyrissjóðanna heimila þetta ekki. Allir lífeyrissjóðir innan Sambands almennra lífeyrissjóða, SAL, Alþýðusambandssjóðirnir, sem stofnaðir voru 1970, hafa breytt reglugerðum sínum í samræmi við þetta. Hins vegar eru svo mjög stórir lífeyrissjóðir sem hafa ekki gert þetta enn þá og eru því miður mjög sár dæmi um það, að þetta fólk nýtur ekki þess sem verið er hér að breyta með lögum. Ég vil nefna hér aðeins tvo stóra lífeyrissjóði. Það eru lífeyrissjóður Sambands ísl. samvinnufélaga og Lífeyrissjóður verslunarmanna. Að svo komnu hafa þessir sjóðir ekki breytt reglugerðum sínum. Vonandi verður það gert mjög fljótlega.

Í síðasta lagi, fjórða lagi. felst svo í þessum frv. ákvæði um hina svokölluðu heimilisuppbót, 10 þús. kr. á mánuði fyrir þá sem búa einir og sér. Hæstv. ráðh. fór hér nokkrum orðum um þetta mál og vandkvæði á framkvæmd sem ég ætla út af fyrir sig ekki að draga úr. En ég tel að þetta ákvæði — og það er augljóst að hér er um að ræða fjármagn sem einvörðungu kemur á almannatryggingarnar eða ríkissjóð, — að þetta ákvæði sé einhver mesta viðurkenningin að vísu ekki upphæðirnar, en viðurkenningin á þörf þessa til einhleyps fólks sem býr eitt sér og er komið á þennan aldur, þetta sé eitthvert mesta réttlætismál og viðurkenning sem gerð hefur verið æðilengi í tryggingamálum. Satt að segja hefur mér löngum fundist einhver dekksti bletturinn á almannatryggingunum einmitt það, hversu þessu einhleypa fólki er ætlaður lítill hlutur.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál núna, en mæli að sjálfsögðu með að þessi frv. fái greiðan gang gegnum þingið, en vildi aðeins ræða almennt um málin, úr því að hér hófust umr. á annað borð.