17.11.1977
Sameinað þing: 19. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

74. mál, varnir gegn ágangi sjávar við sunnanverðan Faxaflóa

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 86 flytjum við 7 þm. úr Reykjaneskjördæmi till. til þál, um aðgerðir til varnar gegn ágangi sjávar við sunnanverðan Faxaflóa. Nafn hv. 1. þm. Reykn., hæstv. fjmrh., er ekki á till. af þeirri orsök að það er ekki venja að ráðh, eigi aðild að tillöguflutningi þm.

Þáltill. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj, að láta fara fram úttekt á ágangi sjávar á land á Suðurnesjum, Vatnsleysuströnd, Hvaleyrir við Hafnarfjörð, Álftanesi og Seltjarnarnesi og gera áætlun um varnarráðstafanir.“

Eins og kunnugt er hafa á þeim svæðum, sem tilgreind eru í þáltill., orðið veruleg spjöll á landi af ágangi sjávar. Sjórinn brýtur víða landið jafnt og þétt og í aftakaveðrum veldur hafrótið stórtjóni. Kostnaður við byggingu varanlegra varnargarða eða aðrar aðgerðir, sem duga til varnar landinu, er meiri en svo að einstökum sveitarfélögum hafi verið unnt að standa straum af honum. Þeir aðilar, sem fyrir þessum búsifjum hafa orðið, hafa sótt um stuðning til ríkisins til varnaraðgerða, og lítils háttar fjárveitingar hafa verið settar í fjárl. Þessar fjárveitingar til að koma til móts við sveitarfélögin hafa verið svo smávægilegar að þær hafa engum úrslitum ráðið um það, að sveitarfélögunum yrði kleift að vinna áfanga sem einhverju verulegu gætu breytt í þessu efni.

Oft er um það deilt, hvort ástæða sé til, að úr ríkissjóði séu veittar fjárhæðir til framkvæmda sem nauðsynlegar teljast einstökum sveitarfélögum, og hvert sé hlutverk ríkisins í því sambandi. Ég hygg þó að þegar um það er að ræða að vernda sjálft landið, dýrmætt land við eða í byggð, gegn því að verða hafinu að bráð, þá sé eðlilegra en í flestum öðrum tilvikum að fjármagni ríkisins sé beitt svo að úrslitum ráði um framkvæmd verksins. Í þeirri baráttu, sem hér er um að ræða, þarf að vinna með stórvirkum vinnuvélum, en til þessa hafa fjárframlög verið svo naum að þau hafa í flestum tilvikum ekki dugað til annars eða meira en að koma tækjunum á vettvang og því litlu áorkað í þá átt að til raunhæfra varna sé gripið.

Á næsta ári mun líklega verða varið um 2 þús. millj. kr. á fjári. til landgræðslu og ræktunar. Þeirri upphæð er varið til að bæta það land sem þjóðin á sameiginlega að bera ábyrgð á að viðhalda. En á sama tíma er ráðgert skv. fjárlagafrv. að innan við 2% af þeirri upphæð verði varið af ríkisfé til sjóvarnargarða í því skyni að verja land gegn ágangi sjávar. Á sama tíma og við verjum þó tveimur milljörðum króna til að bæta landið með ræktun og uppgræðslu brotnar niður og glatast dýrmætt land vegna þess að svo takmörkuðu fé er varið til varnaraðgerða. Þetta landbrot við sunnanverðan Faxaflóa mun halda áfram og mikið og dýrmætt land glatast ef ekki verður brugðið við með sérstökum aðgerðum ríkisvaldsins.

Fulltrúar Hafrannsóknastofnunar munu hafa kannað ástandið á þessum slóðum sums staðar a.m.k., en ljóst er að fyrsta skrefið til aðgerða er að fram fari ítarleg úttekt á ágangi sjávar á þessu svæði. Er því lagt til í þáltill.hæstv. ríkisstj. láti framkvæma þá úttekt, síðan verði á grundvelli hennar gerð sérstök kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um varnaraðgerðir á næstu árum af hálfu ríkisvaldsins og sveitarfélaga og/ eða landeigenda.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjvn.