21.11.1977
Neðri deild: 16. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

78. mál, eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram frv. til l. um breyt. á l. nr. 63 frá 1971, um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum, sbr, lög nr. 33 frá 1976.

Ástæður þess, að ég legg fram þetta frv. til l., eru m.a. þær, að frá því að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstj. gerðu með sér samkomulag um auknar greiðslur ellilífeyris og umsjónarnefndar eftirlauna hafa komið í ljós ýmsir agnúar. Með þessu frv. er gerð tilraun til að leiðrétta hið versta í sambandi við samkomulagið, þ.e.a.s. atriði sem aðilum yfirsást að gera þegar umrætt samkomulag var gert.

Um 1. gr. þessa frv. er það að segja, að með þeirri breytingu, sem greinin gerir ráð fyrir, er leiðrétt það misrétti sem stafar af misjafnlega ströngum skilyrðum sem lífeyrissjóðirnir gera til örorkulífeyrisþega, þ.e. a.s. til aðildarskyldu.

Eins og nú er háttað fær maður, sem er í lífeyrissjóði sem krefst 10 ára réttindatíma fyrir veitingu örorkulífeyris, ekki örorkulífeyri, en annar, sem er í sjóði sem einungis krefst 5 ára réttindatíma, fær lífeyri úr þeim sjóði og frá umsjónarnefnd. En það var aldrei ætlun samningsaðila, að því er ég best veit, að mismuna mönnum þannig eftir aðild þeirra að lífeyrissjóðum. Samkv. þessari grein er gert ráð fyrir að báðir aðilar hafi 5–10 ára réttindi, og þar með er fyrrgreint misrétti leiðrétt.

Um 2. gr. er það að segja, en hún hljóðar orðrétt sem hér segir:

„Í 6. gr, laganna bætist við ný mgr., er verði 3. mgr., svo hljóðandi:

Fyrir 1970 skal ekki reikna meira en 1.1 stig fyrir hvert almanaksár.“

Með þessu er verið að fylla upp í eyður í lögunum og raunverulega staðfesta framkvæmd umsjónarnefndar.

Í 3, gr. segir svo:

„Við 9. gr. laganna bætist ný 2, mgr. er orðist svo:

Heimilt skal lífeyrissjóði að greiða viðbót við lífeyri samkvæmt lögum þessum sem svarar til lækkunar árlegra stiga í 1.1 stig fyrir 1970, sbr. 6. gr. 3. mgr., og lækkunar stiga vegna þess að réttindatími er ekki reiknaður nema frá 55 ára aldri eða frá 1955, sbr. 5. gr. 1. og 2. mgr., enda hafi lífeyrisþeginn greitt til lífeyrissjóðs umræddan tíma og þær greiðslur lagðar til grundvallar stigaútreikningi. Þessa viðbót skal draga frá greiðslum samkvæmt 7. og 8. gr.

Skýringin á þessu ákvæði í frv. er sú, að þar sem sérhver greiðsla úr lífeyrissjóði kemur til frádráttar lífeyrisgreiðslum frá umsjónarnefnd og þar sem þessar greiðslur hafa verið verðtryggðar, þá ákvarðar lífeyrir frá umsjónarnefnd í reynd samtals greiðslur til lífeyrisþega frá umsjónarnefnd og velflestum lífeyrissjóðum.

Það að miðað er við í hæsta lagi 1.1 stig fyrir 1970, og þau fá flestir, og það að réttindi eru einungis reiknuð frá 55 ára aldri eða árið 1955 gerir það að verkum, að ekki skiptir máli fyrir velflesta lífeyrisþega hvort þeir voru í lífeyrissjóði fyrir 1970 eða fyrir 55 ára aldur, Í þessu felst að mínu mati ákveðið ranglæti gagnvart þeim sem greiddu 10% af launum til lífeyrissjóða um árabil, þ.e.a.s. fyrir 1970. Njóta þeir þess í engu og þessum gömlu lífeyrissjóðum er raunverulega fyrirmunað að bæta þetta upp, þar sem sérhver greiðsla af þeirra hálfu kemur til frádráttar lífeyri frá umsjónarnefnd. Lagagrein þessi mundi gera lífeyrissjóðnum kleift að bæta þetta misrétti á eigin kostnað.

Þetta frv, miðast auðvitað fyrst og fremst við gömlu lífeyrissjóðina og að gera þeim kleift að framkvæma þær leiðréttingar sem ég hef frá greint og frv. gerir ráð fyrir. Ég vænti þess, að frv. fái góða afgreiðslu hér á hv. Alþ., og legg til að því verði vísað að lokinni umr. til heilbr: og trn.