21.11.1977
Neðri deild: 16. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

78. mál, eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar verkalýðsfélögin sömdu um lífeyrissjóði á vordögum 1969 var hér í landi nokkuð bágborið atvinnuástand og mörg fyrirtæki voru þá farin að tíðka að segja mönnum upp störfum við sjötugsaldur. Það voru æðimörg fyrirtæki sem þetta gerðu á þessum tíma, Ég vil taka fram að það hefur breyst síðan. En þegar þessum mönnum var sagt upp blasti við hvert öryggi þeirra var sem aldraðra starfsmanna, þ.e.a.s. þeir höfðu að engu að hverfa nema mjög litlum greiðslum úr almannatryggingum á þeim árum.

Það var þess vegna sem verkalýðsfélögin sömdu um það við atvinnurekendur og ríkisvaldið, ríkisstj., að um leið og lífeyrissjóðirnir voru settir á stofn var tryggður framgangur sérstökum lögum um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum. Ákvæði þeirra voru um það í stuttu máli, að þeir, sem ekki hefðu haft lífeyrissjóðaréttindi fyrir 1970, skyldu fá greiðslu sem svaraði 15 ára réttindum í lífeyrissjóði, sams konar réttindum og ættu að vera í þeim lífeyrissjóðum sem verið var að stofna. Síðan hafa þessi lög verið í gildi. Þau hafa breyst lítillega á þessu tímabili, en höfuðgrundvöllur þessara laga var að bæta aðstöðu þeirra, sem ekki höfðu haft aðstöðu til að vera í lífeyrissjóði, með því að greiða þeim sem svaraði allt að 15 ára réttindatíma í lífeyrissjóði.

Þetta er höfuðatriði laganna um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum.

Greiðslur samkv. þessum lögum hafa að 3/4 hlutum komið úr Atvinnuleysistryggingasjóði og að 1/3 hluta úr ríkissjóði. Á þessum greiðslum hafa hins vegar orðið miklar breytingar, en það eru greiðslur sem lífeyrissjóðirnir sjálfir hafa tekið á sig, þ.e.a.s. að verðbæta þessar greiðslur.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér grundvallarbreytingu á þessum lögum, þ.e.a.s. 3. gr. frv. Ég ætla ekki að svo komnu að gera 1. og 2. gr. að umræðuefni, 1, gr, hefur einnig verulega breytingu í för með sér, en þar er um að ræða fyrst og fremst mismun á reglugerðarákvæðum sjóðanna, þannig að þetta ætti að mínu viti miklu frekar að vera á þeim vettvangi að sjóðirnir samræmdu reglugerðir sínar.

3. gr. fjallar um að breyta þeim ákvæðum sem eru í 9. gr. laga nr. 63 1976, að það skuli draga frá þeim greiðslum, sem maður ætti annars völ á, greiðslur úr lífeyrissjóðum, úr ríkissjóði og eftirlaunagreiðslur sem menn hafa haft og átt rétt til. Þetta er grundvallarbreyting á þessum lögum. Ég er út af fyrir sig ekki að andmæla þessu. En ég vil að þessar breytingar fái nákvæma athugun. Ég hef t.d. sterka trú á því, að erfitt yrði í framkvæmd það sem hér segir. Því tel ég að þetta frv. verði að athuga vandlega í n. og senda það til umsagnar þeim aðilum, sem áttu hlut að máli við þá samninga sem að baki liggja þessum lögum, og alveg sérstaklega að það yrði sent til umsagnar umsjónarnefnd með eftirlaunum aldraðra í stéttarfélögunum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að málið fái rækilega umfjöllun, þannig að það sé alveg ljóst hvað hér er verið að gera. Ef allir eru sammála um að gera þessa grundvallarbreytingu, þá er ekkert um það að segja. En ég vil minna á að svona var staðið að málum og lögin kveða mjög skýrt á um þessi atriði.