22.11.1977
Sameinað þing: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

314. mál, laun forstjóra ríkisfyrirtækja

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti Af upphafi ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. mátti skilja að batnandi manni er best að lifa. Ég vil, um leið og ég segi þetta, afsaka að svör við þessari fsp. hafa dregist lengur en ég hefði óskað, en hv. fyrirspyrjandi gat sér rétt til í því sem hann sagði hér áðan.

Áður en ég svara þessari fsp. langar mig aðeins til að leiðrétta það sem hann sagði áðan varðandi fsp. sem áður hefur verið rædd hér og henni svarað, varðandi bifreiðar þær sem ráð. hafa. Í lögum frá 1970 var gert ráð fyrir að sett yrði reglugerð um ríkisbifreiðar. Í þeirri reglugerð, sem sett var, er tekið fram að ráðh. getur hvort heldur er fengið bifreið í eign ríkisins til afota fyrir sig í sínu embætti eða sjálfur greitt verð bifreiðarinnar að undanskildum aðflutningsgjöldum og sölugjaldi og þá í leiðinni notað bifreiðina sem sina einkabifreið. Í fyrra tilfellinu yrði þá aðeins um að ræða notkun í sambandi við embættisrekstur viðkomandi.

Í þeirri fsp., sem hér er á dagskrá, er spurt um laun fjögurra forstjóra. Fjmrn. á aðild að samningum um föst laun tveggja þeirra forstjóra sem um er spurt: Sementsverksmiðju og Áburðarverksmiðju. Forstjórar þessara verksmiðja taka báðir laun samkv. launaflokki A 30, nóvemberlaun þeirra samkv. þeim launaflokki eru 299 713 kr. sem föst laun, Auk þess hafa þeir greiðslur fyrir yfirvinnu og fyrir vaktir, sem menn kannast kannske við undir nafninu bakvaktir eða helgarvaktir. Forstjóri Sementsverksmiðjunnar hefur yfirvinnu 45 1/3 úr klst. á mánuði og það er samkv. ákvörðun stjórnar. Hjá forstjóra Áburðarverksmiðjunnar eru það 28 klst., en hins vegar fær hann 81 708 kr. fyrir þær vaktir sem ég gat um áðan. Forstjóri Sementsverksmiðjunnar fær greiddan bifreiðakostnað samkv. þeirri gjaldskrá, sem véla- og bifreiðanefnd ríkisins ákvarðar, og fær greitt fyrir 12 þús. km akstur, forstjóri Áburðarverksmiðjunnar fyrir 10 þús, km akstur. Hlunnindi forstjóra þessara fyrirtækja eru engin að undanskildu því, að forstjóri Áburðarverksmiðju fær greitt fastagjald af síma.

Spurt er hvort þeir njóti launauppbóta í tengslum við afkomu fyrirtækjanna, framleiðslumagn og afurðasölu. Svarið við því er nei. Og aðrar greiðslur eru ekki til þeirra tveggja for stjóra sem ég hef hér vikið að.

Varðandi forstjóra Járnblendifélagsins og Kísiliðjunnar var gerð fsp. til iðnrn., en eins og hv. þm. er kunnugt heyra þessar stofnanir, þ.e.a.s. eignaraðild ríkisins að þeim, undir iðnrn. Þess vegna var spurst fyrir um það mál af hálfu fjmrn. til iðnrn. Svar við því barst og það hljóðar svo:

„Um laun forstjóra Íslenska járnblendifélagsins og Kísiliðjunnar: Rn. er ókunnugt um laun þessara forstjóra. Þeir eru ráðnir af stjórnum viðkomandi félaga, en hér er um hlutafélög að ræða þar sem verulegur eignarhluti er í eigu annarra en ríkisins, þótt það sé meirihlutaaðili. Stjórnir hlutafélaganna geta því einar upp lýst um laun forstjóra sinna.“

Ég vonast til þess að ég hafi með þessu veitt þau svör, sem hv. þm. hefur óskað eftir, eða gefið skýringu á því í annan stað.