22.11.1977
Sameinað þing: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

314. mál, laun forstjóra ríkisfyrirtækja

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég veitti því athygli að hæstv. fjmrh, svaraði þér greiðlega þeim upplýsingum, sem beðið hafði verið um varðandi launakjör tveggja forstjóra, þ.e.a.s. Sementsverksmiðju og Áburðarverksmiðju. Hins vegar kom ekkert svar varðandi aðrar tvær verksmiðjur sem ríkið á meirihlutaaðild að, þ.e.a.s. járnblendiverksmiðjuna og kísilgúrverksmiðjuna.

Ég tel að það sé ekki hægt að una við það, þegar fsp. eins og þessi er borin fram á Alþ., að þá skuli ekki fást svar um svo einfaldan hlut eins og launakjör forstjóra í ríkisfyrirtækjum eða fyrirtækjum, sem ríkið á meirihluta aðild að. Það kann vel að vera að það hefði verið rétt að beina þessari fsp. til hæstv. iðnrh. En hitt sýnist mér alveg fráleitt, að iðnrn. geti svarað því, að því sé ókunnugt um þetta og það geti ekki svarað neinu. Auðvitað ber þessum ráðuneytum að afla upplýsinga um þetta atriði varðandi þessa fsp. eins og aðrar og gefa Alþ. þær upplýsingar sem um er beðið. Alþm. hafa hér aðeins að hæstv. ráðh. að snúa sér, en ekki að stjórnum þessara fyrirtækja sem auðveldlega gætu neitað um allar upplýsingar. Þetta veit ég að báðir þeir hæstv. ráðh., sem hér eiga hlut að máli, gera sér grein fyrir. Því fer ég fram á að hæstv. iðnrh., þá í félagi við hæstv. fjmrh., afli upplýsinga um þessi atriði, þ.e.a.s. launakjör forstjóra Járnblendifélagsins og kísilgúrverksmiðjunnar, og komi þeim til alþm., þó eitthvað verði síðar, því það verður ekki unað við það að halda upplýsingum fyrir Alþ. varðandi atriði eins og þetta.