22.11.1977
Sameinað þing: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

314. mál, laun forstjóra ríkisfyrirtækja

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni. að bað er náttúrulega nauðsynlegt að svona upplýsingar liggi fyrir. Þjóðfélagið þarf að borga brúsann — borga þennan brúsa sem stofnað var til með Járnblendifélaginu. Það er að vísu rétt, að þetta er rekið í formi hlutafélags, en ríkið á a.m.k. 55% í því félagi, og það væri þá ekki óeðlilegt að við fengjum a.m.k. að vita hver 55% af launum þessa framkvæmdastjóra væru, þá mundum við vera sjálfbjarga með afganginn. En það væri kannske eftir annarri ráðdeild, sem tengd er þeirri hugmynd að reisa þarna járnblendiverksmiðju, að borga framkvæmdastjóranum hærri laun en hann þyrfti.

En þetta er nú ekki það sem kom mér til að standa upp, heldur hitt, að fyrirspyrjandi, hv. þm. Stefán Jónsson, var að spyrja um höfund þessarar vísu hjá áhugamönnum um réttritun og skáldskap. Ég hef að vísu ekki blandað mér í umr. um réttritun hér og reyndar ekki um skáldskap heldur, en ég hef það fyrir satt og ber fyrir mig ljóðafróðan vin minn norður á Blönduósi, sem heitir Jónas Tryggvason, að þessi vísa sé eftir Jón Þorláksson á Bægisá. Og það er hreint ekki ómerkilegt að leggja það á minnið, vegna þess að þessi kviðlingur er kannske sá sem hefur haft einna mest áhrif á þjóðfélagsmál nú á síðustu tímum.