22.11.1977
Sameinað þing: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

314. mál, laun forstjóra ríkisfyrirtækja

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér í þau skáldskaparmál sem hér hafa verið flutt. En ég vil hins vegar taka mjög alvarlega undir þau ummæli, sem komið hafa fram hjá nokkrum þm. hér á undan, að það er með öllu óviðunandi og ekki þolandi, að hér á Alþ. sé ekki hægt að fá um það upplýsingar, hvaða laun forstjóri fær greidd í fyrirtæki þar sem íslenska ríkið er eigandi að meiri hl. fyrirtækisins.

Hér er ekki síst verið að ræða um laun forstjóra járnblendiverksmiðjunnar, og ég vil minna á að það má vissulega búast við í sambandi við einmitt þetta fyrirtæki, að það þurfi áður en langt um líður að fá upplýsingar um ýmsa fleiri þætti í rekstri þess. Ef á að neita að gefa upplýsingar um þennan þátt, þá má trúlega eiga von á að því verði einnig neitað þegar að öðrum þáttum kemur. Hér er um að ræða fyrirtæki sem talið er, miðað við verð á kísiljárni eins og það er nú, að á verði árlegur halli ekki langt undir 1000 millj. ísl. kr., sem getur orðið ærinn baggi á okkar ríkisbúskap. Og það er reiknað með þessum halla þrátt fyrir að það orkuverð, sem samið hefur verið um, miðað við framleitt tonn af kísiljárni, sé ekki nema rétt um 20% af því verði sem þarf að greiða fyrir orkuna til þess að framleiða eitt tonn af þessari sömu vöru austur í Japan. Hér á að borga fyrir orkuna rétt um 20% af því verði sem borgað er austur í Japan, samkvæmt upplýsingum sem fram komu í tímaritinu Metal Bulletin nú fyrir stuttu. Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að það sýnir að hér mun þurfa að spyrja um ærið margt áður en lýkur. Og ég vil alveg sérstaklega beina því til fjmrh., hvort hann geti ekki bent þm. á einhverja þinglega leið til að fá þessar upplýsingar um laun forstjóranna fram. Ef ekki dugar að bera hér fram venjulega fyrirspurn, þá hlýtur einhver önnur leið að vera fær. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að skýra okkur frá því, hvaða leið hann telur að eigi að fara, því ég trúi ekki að ráðh. ætli að láta það liggja frammi fyrir þjóðinni að þessar upplýsingar sé hvergi að fá. Ég vil ráðleggja honum að hugsa málið vandlega áður en hann lætur það verða niðurstöðuna af þessum fundi.