22.11.1977
Sameinað þing: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

30. mál, skipulag orkumála

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Sú till., sem hér liggur fyrir á þskj. 30, fjallar um skipulag orkumála. Í sambandi við þessi mikilvægu mál vil ég fyrst taka það fram, að gildandi skipulag orkumála er u.þ.b. 10–12 ára gamalt. Orkulögin sjálf eru frá 1967, en tveimur árum áður voru sett lög um Landsvirkjun. Um það þarf ekki að ræða, að skipulagi orkumála, sem nú hefur verið í gildi í fullan áratug, er mjög ábótavant í mörgum greinum. Till. hafa verið uppi um endurbætur í ýmsum efnum. Efnislega hefur menn þar greint nokkuð á.

Samband ísl. rafveitna efndi árið 1972 til ráðstefnu um skipulag orkumála. Á þeirri ráðstefnu var mörkuð sú meginstefna, að orkuvinnslufyrirtæki skyldu vera sameign sveitarfélaga og ríkis og gert ráð fyrir skiptingu landsins í landshlutafyrirtæki. Jafnframt skyldi komið á fót samstarfsnefnd landshlutafyrirtækjanna varðandi orkuvinnslu og samrekstur. Þetta er yfirlýst stefna Sambands ísl. rafveitna.

Samband ísl. sveitarfélaga hélt fulltrúaráðsfund ári síðar til þess að ræða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Niðurstaða þess varð sú að orkuframleiðsla og meginflutningur raforku skyldu vera í höndum sameignarfyrirtækja ríkis og sveitarfélaga þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga fari með stjórnarumboð sveitarfélaganna eftir nánar ákveðnum reglum.

Með hliðsjón af þessum yfirlýstu stefnumálum þessara tveggja sambanda sem hér koma mjög við sögu, Sambands ísl. rafveitna og Sambands ísl. sveitarfélaga, var ákveðið nokkru eftir síðustu stjórnarskipti að setja nokkrar n., landshlutanefndir til þess að kanna viðhorf sveitarfélaganna til stofnunar sameignarfyrirtækja ríkis og sveitarfélaga um orkuvinnslu og orkudreifingu. Störf þessara n. eru misjafnlega langt á veg komin.

Ein n. skilaði áliti eftir skamman starfstíma, en hafði lagt í þetta mál mjög mikla vinnu með sérfræðingum. Það var orkunefnd Vestfjarða. Hún skilaði tillögum snemma árs 1976 og lagði til einróma að stofnað yrði Orkubú Vestfjarða, þar sem sveitarfélögin á Vestfjörðum ættu 60%, en ríkissjóður 40% í þessu fyrirtæki. Samstaða var einnig þar vestra meðal sveitarstjórnanna um þetta mál. Frv. var síðan lagt fyrir Alþ. og lögfest vorið 1976. Síðan fór fram margvíslegur undirbúningur undir stofnun Orkubúsins. Verja þurfti töluverðum tíma og fyrirhöfn til að kanna fjármálin og hverjar till. skyldi gera til lausnar þeim málum, einkum varðandi skuldaskiptingu milli Rafmagnsveitna ríkisins og hins væntanlega Orkubús. Sameignarsamningur var gerður og stofnfundur Orkubúsins haldinn í lok ágústmánaðar. Málið var síðar til meðforðar hjá ríkisstj., sérstaklega út af ýmsum fjárhagsatriðum, og hefur nú endanlega verið samþ. þar.

Hvort sem menn vilja fara þá leið, að eitt landsfyrirtæki hafi alla orkuvinnslu með höndum eða að landshlutasamtök fari með þan mál, þá þarf í báðum tilvitnum að hafa heildaryfirstjórn orkumálanna á vegum ríkisins. Spurningin er hvernig eigi að haga þeirri heildarstjórn. Til þess að kanna rækilega og gera till. um þetta mikilvæga mál var skipuð n. manna í janúar s.l. sem hafði það hlutverk að endurskoða orkulögin og gera till, um heildarskipulag og yfirstjórn orkumála. Í þessa n. voru skipaðir Þorvaldur Garðar Kristjánsson, form. orkuráðs, sem formaður þessarar n., en aðrir nm. eru: form. Sambands ísl. rafveitna, Aðalsteinn Guðjohnsen, framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnús Guðjónsson, formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, Helgi Bergs, Gísli Blöndal hagsýslustjóri, Jakob Björnsson orkumálastjóri, Páll Flygenring ráðuneytisstjóri og Steingrímur Hermannsson framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins og alþm. Þessi n. starfar að þessu verkefni: að gera till, um heildarskipulag og yfirstjórn orkumála. Hefur verið lögð á bað áhersla, að n. hagaði svo störfum að hún gæti á þessum vetri lagt till. fyrir iðnrn. og síðan ríkisstj. og Alþ. Ég vænti þess, að hv. alþm. geti verið sammála um að nauðsynlegt hafi verið að fela slíkri n. að kanna til hlítar þetta mikilvæga málefni og reyna, eftir því sem unnt væri, að sameina sjónarmiðin og skila grg, og tillögum.

Ég vænti þess, að hv. flm. þessarar till., en 1. flm, á einmitt sæti í þessari skipulagsnefnd orkumála, geti fallist á að þessi þáltill., sem að sjálfsögðu fer til n. hér, gangi ekki til fullnaðarafgreiðslu í þeirri þingnefnd fyrr en till. þessarar skipulagsnefndar orkumála liggja fyrir.