22.11.1977
Sameinað þing: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

30. mál, skipulag orkumála

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég tel till. til þál. á þskj. 30 um skipulag orkumála mjög athyglisverða og vil þess vegna ræða hana nokkuð. Það eitt út af fyrir sig, að allir þm. Framsfl. utan ráðh. eru flytjendur að till., sýnir svo augljóslega, að ekki verður um villst, að innan stjórnarflokka ríkisstj. eru skiptar skoðanir eða öllu heldur mikill ágreiningur um stefnuna í orkumálum.

Það kom fram hjá talsmanni Alþb., hv. 5. þm. Norðurl. v., fyrrv. formanni flokksins, að þeir væru að mestu eða öllu leyti sammála um efni till., og mjög í sama farveg féllu orð 5. þm. Vestf. Ég tel að við þm. Alþfl. getum verið sammála um flest er till. gerir ráð fyrir, þótt við viljum fá nánari umr. um sumar hugmyndir er fram koma í till. Sé þetta rétt ályktað hjá mér, fullyrði ég eins og hv. þm. Ragnar Arnalds að till. á hér á Alþ. mjög öruggan meiri hl. og ég tel að möguleiki á samþykkt hennar sé fyrir hendi, þó með nokkrum nánari skýringum er fram kunna að koma í n. Þetta er einkar athyglisverð staðreynd. E.t.v. er nú svo komið vegna nálægðar komandi kosninga, að vinstri sinnaðir framsóknarmenn séu aftur að ná undirtökunum í þingflokknum og við megum eiga von á fleiri athyglisverðum félagslegum till. úr þeirri átt. Vel ef svo væri. En sé hér hins vegar aðeins um hreina sýndarmennsku að ræða, þá mun það einnig koma í ljós í tæka tíð, því að þessi till. verður ekki látin sofa endalaust í n. Hún er þess eðlis að reyna verður á það í atkvgr. sem fyrst hvert þingfylgið er, og ég vona, að formaður þessarar margumræddu raforkumálanefndar láti verða af því að skila áliti svo fljótt sem verða má, sbr. orð hans hér áðan.

Efni till. er það mikilvægt, að alls ekki verður komist hjá því að taka afstöðu til þess. Í till. er fjallað um eitt mesta hagsmunamál almennings og atvinnulífs á Íslandi, Þegar till. um slíkt stórmál er komin inn á Alþ., og það með stuðningi nær allra þm. úr öðrum stjórnarflokknum, er málið í sjálfu sér svo mikilvægt að fram hjá atkvgr. um það er ekki unnt að komast hér á Alþ. Því fyrr því betra að mínu mati og að ég tel margra annarra þm. einnig. Mun ég nú taka til umr. viss mjög mikilvæg atriði í tillögunni.

Fyrsta setningin er grundvallarstefnumörkun er allir félagshyggjumenn eiga að geta samþ. Hún er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar, að stefnt skuli að jöfnun orkukostnaðar um land allt.“

Öllum er vel kunnugt um hversu mjög orkuverð er misjafnt hér á landi og misræmið hefur farið vaxandi undanfarin ár. — Nái þessi setning og þessi stefnumörkun samþykki er brotið blað í skipan orkumála hér á landi, hvorki meira né minna. Þetta er grundvallaratriðið er ég vil undirstrika. Ég sakna þess þó í grg., að töflur um mismunandi orkuverð fylgja ekki með. Það hefði þó verið mjög eðlilegt að gera þm. grein fyrir því. Og ég saknaði þess í framsögu. Eða var kannske nokkur snöggsoðning á till.? Ekki tók ég eftir að frsm. og fyrsti flm. greindi frá því sérstaklega í framsögunni. Ég mundi fagna yfirliti um verðmismun sem fyrst frá hendi flm. Það er mjög mikilvægt að gera sér glögga grein fyrir hvernig söluverð á orku er hér á landi, bæði raforku og heitu vatni í heildsölu og smásölu.

Það er alþjóð vel kunnugt að við þm. Alþfl. höfum undanfarin ár barist fyrir því, að öll orka, sem hér verður unnin, skuli sameiginleg eign landsmanna, og rökrétt afleiðing af því er eðlilega að orkuverð verði sem jafnast um landið. Það eru mannréttindi er ég vil stuðla að. Ég bið hv. þm. að minnast þess, að ríkisvaldið er í ábyrgð fyrir öllum stórvirkjunum og verður því að teljast eðlilegt að landsmenn njóti svipaðs verðs á orku, einkum rafmagni. Ég vil minna á ákveðnar kröfur iðnaðarins um jafnt verð til atvinnulífsins og að menn sitji við sama borð í orkumálum.

Til þess að ná þessu mikilvæga markmiði segir svo orðrétt: „Í því skyni skal lögð áhersla á að tengja saman raforkukerfi einstakra landshluta.“ Síðan telur till. upp þrjú mikilvæg atriði í alllöngu máli, hvernig þetta skuli gert. Þar er sagt: „Eignarhluti ríkissjóðs skal aldrei vera minni en 50%.“ Þetta er mjög þýðingarmikið atriði og er táknrænt, að í framtíðinni skuli ríkið verða hinn stærri eignaraðili að öllum orkuveitum landsmanna. Það má segja að hér sé um byltingarkennd atriði að ræða, en félagshyggjumenn munu fallast á þetta sjónarmið.

Ég fæ ekki séð hvernig stjórnarflokkarnir geta lengur starfað saman ef um raunverulegan ágreining um þetta atriði er að ræða. Hér er svo stórt mál á ferðinni, eins og ég sagði áður. Framsóknarþm., er flytja þessa till., hljóta hér að vera með stefnu er gengur gersamlega þvert á stefnu hæstv. iðnrh. Eiga þeir lengur samleið? Ég fæ ekki séð að svo sé ef marka má orð beggja aðila. Það verður fróðlegt að heyra í umr. hér áfram hvað verður sagt um þetta atriði, að eignaraðildin verði í öllum tilfellum meira en helmingur.

Það kemur fram í grg., að ráðh. hefur skipað n., eins og greint var hér í umr. rétt áðan, til þess að gera till. um skipan orkumála. En starfi hennar er ekki lokið og flm. ganga út frá því að dragist að þessi n, skili áliti. Formaður n. talaði hér á undan mér og tímasetti ekki neitt frá n., en lagði þó áherslu á það, og það er mjög gott, að n. muni ekki sofa á málinu og muni vinna vel. Fyrir það vil ég þakka honum, og ég treysti því að till. frá n. um skipan þessara mála komi áður en langt um líður.

Það er nokkuð þungur áfellisdómur er þm. Framsfl. fella um stefnuna í orkumálum. Þeir segja orðrétt, „að ekki verði lengur beðið með að marka ákveðna stefnu um skipulag á yfirstjórn orkumála“. Þá höfum við það. Þolinmæði þeirra er á þrotum. Þeir una alls ekki lengur ringulreiðinni í yfirstjórn orkumála hér á landi. En hver hefur yfirstjórn orkumála hér á landi á sinni könnu? Er það ekki hæstv. iðnrh, eins og er. Og samstarfsþm. meta stjórn hans svo, að ekki megi lengur dragast að Alþ. sjálft taki málið í sinar hendur og móti stefnuna. Ekki verður harðari gagnrýni sett fram af stjórnarandstöðunni en kemur hér fram í orðum flm. Þeir gera sér nú loksins ljóst, að rökrétt og markvíss gagnrýni, einkum frá okkur þm. Alþfl., hefur verið á gildum rökum byggð, og þeir vilja reyna að bjarga skinni sínu, þótt seint sé, vegna komandi kosninga. Menn þekkja það frá fyrri tíma, að Framsóknarþm. ókyrrast oft er nálgast kosningar, og virðist enn um núv. þm.

Ég er algjörlega sammála því er segir í grg. orðrétt: „Eðlilegt virðist að stefna því í fyrsta áfanga, að gjaldskrá fyrir raforku í heildsölu verði ein og hin sama um land allt.“ Og síðar segir: „Það verður tvímælalaust best gert með því, að orkuframleiðslan og tengikerfi framleiðslustöðvanna séu á einni hendi. Sú stefna, sem hér er boðuð, hefur öruggan meiri hl. hér á hinu háa Alþ. og er mjög mikilvægt að það verði staðfest sem fyrst og stefnumótun mynduð samkv. því og áframhaldandi uppbygging orkuveranna og lagning á flutningslinum raforkunnar um landíð. Sé þetta gert í raunveruleikanum munum við ekki framvegis verða að búa við það ástand er kemur fram í eftirfarandi setningu í grg.: „Fjárfesting á sviði raforkumála án heildarskipulags hefur verið áberandi.“ Og áfram segir orðrétt: „Kjördæmasjónarmið hafa ráðið miklu, en hagkvæmni hinna ýmsu kosta ekki skoðuð á þjóðhagslegum grundvelli.“ Jafnframt segir: „Þetta hefur að sjálfsögðu reynst ákaflega kostnaðarsamt.“ Já, mikið var að menn gerðu sér grein fyrir þessu. Hér er það bókað með undirskrift nær allra þm. Framsfl, á Alþ. árið 1977, að framkvæmd raforkumála hefur verið í afar miklum ólestri og það svo að þeim loksins ofbýður og það jafnvel Kröflunefndarmanninum Ingvari Gíslasyni. Bragð er að þá barnið finnur, segir gamalt máltæki. Svo fór einnig fyrir öðrum Kröflunefndarmanni er talaði hér áður, Ragnari Arnalds, fyrrv. formanni Alþb. Hann sagðist viðurkenna að um framkvæmd Kröfluvirkjunar mætti deila. Tími er kominn til að viðurkenna það hér á hv. Alþ. Hann reyndi vart að verja framkvæmdina og orðaði mest þá einkennilegu staðreynd, að þrír aðilar hefðu séð um málið í heild, og undirstrikaði með því skipulagsleysið við Kröflumálið allt.

Til þess að ná þessum mikilvægu markmiðum, að landsmenn geti notið sama heildsöluverðs á raforku, er lagt til að orkuframleiðendur verði sameinaðir í eina veitu, landsveitu. Þessi landsveita skal selja raforkuna með sömu gjaldskrá til allra landshluta. Svo málum verði tryggilega fyrir komið leggja flm. til að ríkissjóður verði með a.m.k. 50% sem sinn eignarhluta. Landshlutaveitur geta orðið eignaraðilar eða stjórnunaraðilar að minni hl. Þetta segja flm. að muni tryggja betri tengsl milli orkuframleiðenda og notenda.

Nú eru í landinu 23 eða 24 rafveitur og getur það orðið mikið mál — það vil ég undirstrika eins og síðasti ræðumaður gerði — að koma þessum eignabreytingum í kring og stjórnun í þann farveg er till. gerir ráð fyrir. Engu að síður er óhjákvæmilegt að marka ákveðna stefnu í öllum orkuframkvæmdum, dreifingu og sölu, a.m.k. hvað varðar heildsölu að dreifistöð bæjarveitna eða sveitarrafmagnsveitna. Ég er sammála flm. um að hér hefur alvarlega skort á og raunar keyrt um þverbak hin síðari ár. Það er þó ósanngjarnt að kenna núv. hæstv. orkumálaráðh. um þessa þróun einhliða. Það á hann alls ekki skilið og of vel sloppið hjá Framsóknarþm. að skella skuldinni á hann. Þeir hafa verið í ríkisstj. síðan 1971 og eiga sannarlega sinn skammt af ringulreiðinni, eins og þeir lýsa henni sjálfri, er ríkt hefur í orkumálum undanfarin mörg ár. Hins vegar er það jákvætt að sjá að þeir eru að vitkast nokkuð og stefna nú í rétta átt í þessum málum. Vonandi er það ekki vegna kosninganna að vori komanda, heldur fylgi hér hugur máli. Því er mikilvægt að á það reyni sem fyrst.

Þótt till. heiti „um skipulag orkumála“ er sáralítið fjallað um vinnslu hitaorku og dreifingu hennar og sölu. Það er þó mikið hagsmunamál, og nútímatækni gerir það að verkum, að búast má við að miklu fleiri landsmenn muni eiga þess kost að njóta hitavatnsorkunnar en áður var og reiknað var með. Ég veit ekki hvers vegna þeir eru svo fáorðir um heita vatnið, nema það sé afsökun að styttra sé rannsóknum komið á jarðhitasvæðum okkar en á vatnsföllum.

Ég tel að vel hafi verið unnið undanfarin mörg ár að jarðvarmaveitum og ég vil þakka hæstv. núv. iðnrh. fyrir hans stóra þátt í því og einnig fyrrv, iðnrh. Ég vil þó undirstrika það, að alls ekki er sæmandi að ríkissjóður sé að innheimta aðflutningsgjöld af innflutningi efnis er fer í stofnlagnir hitaveitna. Hitalagnir eiga í þessu efni að njóta fullkomlega sömu tollfríðinda og raforkuverin, en þau eru undanþegin tollum við byggingu. Ég vænti þess að orkumálaráðh. og fjmrh. staðfesti þennan skilning, að þeir séu hlynntir þessum skilningi, nú í umr. um þessi mál, ella verður að telja að þeir séu móti því að orkuvinnsla á hitavarma njóti jafnréttis á við raforkuvinnsluna. Öll mismunun í þessum efnum er óeðlileg og á ekki rétt á sér.

Ég gat þess hér að framan að betur hefði mátt vanda til grg. með till. Merkilegt er að alls engin tala fylgir eða tafla um orkuframleiðslu, verðlag o.s.frv. Þess vegna verð ég að fara fram á það, að tillögumenn eða ráðh, orkumála láti taka saman hið bráðasta góðar upplýsingar um verðmismun á raforku og hitaorku í landinu, bæði á heildsöluverði og smásöluverði. Með því móti munu þm. eiga hægt um vík að sjá hversu mjög brýnt hagsmunamál er að efni þessarar till. nái fram sem fyrst.

Hv. 3. þm. Reykv., fyrrv. orkumálaráðh., hefur flutt langa till, um skipulag raforkumála. Þar eru ýmsar merkilegar og fróðlegar upplýsingar um orkuvinnslu rafmagns og dreifingu hennar á ýmsu verðlagi. Þar sem þessi till. mun síðar koma til umr. mun ég ekki fjalla um hana hér, en við Alþfl.-þm. erum í stórum dráttum fylgjandi efnislegri stefnu till. Þessi till, er beint framhald af till, frá ráðherratíð hv. þm. Á sínum tíma hefði till. átt að fá greiðan framgang, en sú varð þó ekki raunin á, svo athyglisvert sem það annars kann að virðast.

Við megum ekki láta hégómleg tilfinningamál ráða afstöðu um hver gerði þetta eða hitt í orkumálum þjóðarinnar, þegar ekki verður annað séð en að verulega stór meiri hl. er fylgjandi þeirri stefnumörkun er báðar umræddar till. boða. Nokkuð mismunandi afstaða um minni háttar þætti má ekki hindra jákvæðan framgang málsins í heild. Á þetta legg ég áherslu nú. Ég vil undirstrika að þetta á sérstaklega við um allar virkjunarframkvæmdir: vinnsluna, dreifingu og heildsöluverð orkunnar. Dm þessa þætti virðist breið og góð samstaða félagshyggjumanna hér á hinu háa Alþ. nú. Látum samstöðuna verða raunhæfa með góðri samstöðu um raunsæja till, í þessum efnum.

Sá þáttur till., er mun reynast erfiðastur í framkvæmd, er að fá sama raforkuverð í smásölu, eins og segir í till. Hér er mjög flókið mál á ferðinni, og ég verð að segja það, að frsm. gerði þessum þætti lítil skil í ræðu sinni og í till. er óljóslega fjallað um hvernig þetta megi takast. Samt sem áður getum við ályktað að stefna beri að sama verði innan ákveðins tíma í smásölu á raforku. Ég tel að yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar sé á því, að heppilegt sé að fá raforkuna í heildsölu á sama verði af bæjar eða hreppsveitum, síðan sé það sveitarstjórnar að sjá um dreifinguna og verður hún þá að verðleggjast samkvæmt aðstæðum á hverjum stað. Þess er alls ekki að vænta að sama verð geti orðið í smásölu á rafmagni í fljótu bragði, Til þess eru aðstæður rafveitna á landinu svo mjög frábrugðnar og kostnaður við lagnir misjafn. Til þess að geta jafnað þetta verð kynni því að þurfa að koma eins konar fastagjald eða jöfnunargjald á heildsöluna og það svo látið til að jafna út kostnað um landið. Ég vil þó undirstrika það, að hér verður að fara mjög gætilega í sakirnar, ella má búast við að aðhald heimamanna minnki, ef svo má segja, um allar framkvæmdir og kunni að slævast og reksturinn verði ekki eins hagkvæmur í héraði og annars væri unnt með árvekni og aðhaldi frá verðsamanburði. Ég tel sem sagt að algjör jöfnun í smásölu geti varla verið æskilegt markmið, vegna annarra áhrifa sem kunna að verða afleiðing af slíkri verðstefnu. Sama má reyndar segja um heita vatnið.

Herra forseti. Ég mun nú senn ljúka máli mínu. Ég vil þó sérstaklega minna á þessi orð í lok grg.: „Orkulindir landsmanna, bæði í fallvötnum og jarðvarma, eru einhver dýrmætasta eign þjóðarinnar. Mjög mikilvægt er að þessar orkulindir verði virkjaðar og notaðar af skynsemi og hagkvæmni. Því miður hefur þar skort mjög á.“ Þetta eru sannindi. Ég vænti þess, að mikill meiri hl. hv. þm. staðfesti þessi sannindi með stuðningi sínum við efni till.

Þá felst í því viðurkenning á þeirri grundvallarstefnu Alþfl.-manna, að öll orka er hér verður og er nú þegar unnin, er sameign allra landsmanna. Þess vegna er efni till. svo brýnt og á svo víðtækan stuðning.