22.11.1977
Sameinað þing: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

30. mál, skipulag orkumála

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Menn hafa nokkuð rætt hér um aðdraganda þessarar till., og þess hefur gætt að það væri allt að því siðleysi af hálfu þm. Framsfl. að flytja þessa till. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara að ræða um nauðsyn þess að hafa ákveðnar siðareglur í heiðri milli þm. og milli stjórnarflokka. Ég tek vissulega undir það, að nauðsynlegt er að svo sé, og má finna þess ótal dæmi, að það væri betur að ýmsar siðareglur, sem nauðsynlegar eru, væru meira í heiðri hafðar, en ég ætla ekki að ræða það frekar á þessu stigi málsins.

Ég bið menn um að minnast þess, að þegar núv. ríkisstj. var mynduð var á það lögð áhersla í málefnasamningi að orkumál fengju þar algeran forgang. Fljótlega eftir að núv. ríkisstj, var mynduð þótti okkur við hæfi að við reyndum að gera okkur ljósa grein fyrir því, að hvaða markmiðum við vildum stefna í skipulagi þessara mála. Menn settust niður og ræddu þessi mál og skiluðu tillögum í þeim efnum. Þær till. hefðu sjálfsagt mátt vera miklu ítarlegri, en þetta voru megintillögur um þau markmið sem flokkur okkar vildi að stefnt væri að. Þessar tillögur voru ræddar á miðstjórnarfundi okkar og samþykktar þar. Og ég vil taka það fram, að þessi mál hafa margoft verið rædd í þingflokki okkar, við ráðh. okkar, og það er svo með ýmsa af þm. Framsfl., að okkur hefur ekki þótt nægilega vel ganga að marka þessa stefnu. Og þá vil ég ekki vera að kenna einum né öðrum þar um, ég tek það skýrt fram, því að allir verða að gera sér grein fyrir því, að hér er um erfitt mál að ræða. Þess vegna þótti okkur við hæfi að það væri lögð áhersla á þessa stefnu með því að flytja þetta mál inn í Alþ., og ég get ekki séð að það ætti að spilla fyrir málum í þeirri vinnu, sem nú fer fram um skipulag orkumála, þótt þm. flokksins leggi áherslu á þennan hátt á það starf sem þar hefur verið unnið að mótun stefnu í orkumálum. Ég get ekki séð að þar sé á neinn hátt um síðleysi að ræða. Og þótt svo vilji til, að hv. þm. Steingrímur Hermannsson sé 1. flm. þessa máls, þá á það sér svo langan aðdraganda og eðlilegt þótti að hann væri 1. flm., vegna þess að hann stjórnaði þeirri vinnu sem fór fram um þetta mál innan flokksins. Þetta vil ég að menn hafi í huga áður en menn gerast mjög fullyrðingasamir um siðleysi og óhæf vinnubrögð.

Í sambandi við skipulag orkumála er ljóst, að eftir að þýðing orkumála fór vaxandi og fleiri raforkumannvirki voru byggð hér í landinu, þá kom æ betur í ljós þýðing þess að koma þar á ákveðnum markmiðum, að hverju skyldi stefnt og á hvern hátt menn skyldu ná þeim markmiðum. Fljótlega eftir að núv. ríkisstj. var mynduð hófst starf í þessum málum á þann hátt, að n, í hinum ýmsu landshlutum voru settar á fót til þess að marka stefnu í orkumálum fyrir hvern landshluta fyrir sig, og ég segi það sem mína skoðun, að ég tel að það hafi ekki verið rétt að vinna að málinu á þennan hátt. Ég er ekki að segja annað en að það sé oft auðvelt að vera vitur eftir á og menn sjái það kannske betur nú en áður að þessi stefna var ekki rétt, enda hefur komið í ljós að í hinum ýmsu landshlutum eru ólík sjónarmið, sem erfitt er að samræma, og þessi stefnumörkun hefur að nokkru leyti beðið skipbrot að mínum dómi, enda er nú gripið til þess, sem mér sýnist að hafi verið nauðsynlegt, að skipa sérfræðinganefnd sem eigi að fjalla um þessi mál á landsgrundvelli. Ég hefði talið eðlilegra að þetta starf hefði hafist þegar í upphafi og síðan hefðu hinir einstöku landshlutar sagt álit sitt á þeirri stefnu og boðað brtt. og óskað eftir breytingum þar á. Við vitum að það eru uppi ólík sjónarmið í landinu. Sumt af þeim sjónarmiðum byggist eflaust á vanþekkingu sem má lagfæra með auknu starfi á sviði þessara mála. En við komumst ekki fram hjá því, að þarna ríkja ólík sjónarmið og þessi sjónarmið getur orðið nokkuð erfitt að samræma, þótt ég telji að það sé á engan hátt útilokað, en það þarf að leggja mikla vinnu í það og starf þessarar n., sem nú hefur verið skipuð, er á margan hátt erfitt. Það má hins vegar vel vera, að það starf, sem hefur verið unnið í hinum ýmsu landshlutum, auðveldi henni nokkuð starf sitt.

Síðan gerist það, eftir að n. í hinum einstöku landshlutum hafa skilað áliti, að þá er nál. frá einum landshluta, þ.e.a.s. frá Vestfjörðum, tekið upp og gert að lögum, eða það kemur fram í lögum um Orkubú Vestfjarða. Þar á sér náttúrlega stað ákveðin stefnumörkun í orkumálum, því að lagasetning af hálfu Alþ. hlýtur að vera á vissan hátt stefnumörkun, ef ekki þá veit ég a.m.k. ekki hvað stefnumörkun er. Í þessum lögum kemur fram, að tilgangur þessa fyrirtækis sé að virkja vatnsafl á Vestfjörðum, og það kemur einnig fram í þessum lögum, að fyrirtæki þetta skuli annast virkjunarrannsóknir í þessum landshluta. Það kemur sem sagt fram í þessum lögum, að þetta ákveðna fyrirtæki á að annast öll stig raforkumálanna í þessum ákveðna landshluta. Þegar þessi lög voru sett á sínum tíma, þá var ég þeirrar skoðunar, að það væri óeðlilegt að marka slíka stefnu sem þessa án þess að menn gerðu sér grein fyrir því, hvað skyldi á eftir koma. Við vissum að það voru ólík sjónarmið í mörgum hinna landshlutanna, og með þessari lagasetningu var á vissan hátt gengið fram hjá þeim sjónarmiðum, því að við hljótum að gera okkur grein fyrir því, að eitt getur ekki gilt í einum landsfjórðungi og annað í öðrum, ef við stefnum að ákveðnu heildarskipulagi. Þess vegna var ég mótfallinn þessari lagasetningu, af þeirri einföldu ástæðu að mér fannst lagasetningin ótímabær, þar sem stefnan í landinu í heild hafði ekki verið mörkuð. Og það er kannske aðalmálið að gera sér grein fyrir því, að hverju við stefnum, ekki aðeins í einum landshluta, heldur í öllu landinu.

Það er ljóst að uppi eru í þessum efnum tvær mögulegar stefnur, þó að út af fyrir sig sé hægt að hugsa sér þær með mörgum afbrigðum. 1 fyrsta lagi er sú stefna að stofna mörg fyrirtæki svipuð og Orkubú Vestfjarða sem hafi alla þætti orkumála á hendi í sérhverjum landshluta, eða hins vegar að stofna fyrirtæki sem hafi með höndum meginraforkuframleiðslu í landinn öllu og megindreifingu í landinu öllu. Sú þáltill., sem birtist á þskj. 30, gerir ráð fyrir þeirri meginstefnu og síðan sé mögulegt að stofna landshlutaveitur í hinum einstöku landsfjórðungum.

Ég er því algerlega sammála, sem kom fram í máli hv. 3. þm. Vestf., að aðalatriðið er að hafa ákveðin markmið í orkumálum og verða sammála um þau markmið. Þau markmið eru mörg, en að mínum dómi eru meginmarkmiðin þau að jafna raforkuverðið í landinu, og það er alveg rétt sem kom fram í hans máli, að það má hins vegar ekki verða til þess að óhagkvæmur raforkurekstur þrifist víða í landinu. Jöfnunin má ekki verða slík, að það geti jafnvel ýtt undir óhagkvæman raforkurekstur. En það sýnist mér að gæti t.d. verið samkv. lögum um Orkubú Vestfjarða, að það gæti orðið tilhneiging til þess að virkja þar vatnsafl þótt það væri ekki nægilega hagkvæmt á landsvísu. Það má vel vera að það sé hægt að komast hjá því, en aðalmarkmiðið að mínum dómi er jöfnun á raforkuverði.

Í öðru lagi er það eitt aðalmarkmiðið að stjórnun þessara mála, orkumálanna, sé þannig fyrir komið að það leiði til hagkvæmasta mögulegs rekstrar. Það er einnig mjög mikilvægt markmið, að ódýrustu mögulegir virkjunarkostir séu nýttir, þótt nauðsynlegt sé að taka tillit til vissra lágmarks öryggissjónarmiða.

Þetta eru kannske þau aðalmarkmið, sem allir stefna að og aðalspurningin er: Hvernig verður þessum markmiðum best borgið? Með því að stofna mörg fyrirtæki, sem hafi með höndum alla meginraforkuframleiðsluna í viðkomandi landshluta og dreifingu, geta menn út af fyrir sig náð jöfnuði í raforkuverði með því að verðjafna á milli hinna einstöku fyrirtækja, þannig að það er hægt að ná því markmiði með þeim kosti. Stjórnun, sem leiðir til hagkvæmasts rekstrar, er sjálfsagt einnig hægt að ná því markmiði. En hins vegar finnst mér að menn geri of mikið úr því, að það sé hreinlega ekki hægt að stjórna stóru fyrirtæki vel. Það er eins og margir hafi bitið það í sig, að það sé ekki hægt að reka stórt raforkufyrirtæki hér í landinu, vegna þess að það nái yfir svo marga landshluta. En stóru fyrirtæki má einnig skipta niður í einingar, sem hlíta ákveðinni heildarstjórn, þannig að það væri ekki einasta leiðin til þess að dreifa valdi að stofna mörg fyrirtæki. Það er líka hægt að dreifa valdinu innan fyrirtækisins, alveg á sama hátt og hægt er að dreifa valdi innan ákveðins þjóðfélags í stað þess að skipta viðkomandi þjóðfélagi í margar einingar, þannig að hér eru margar leiðir. Og ég er þess fullvíss, að það er hægt að reka stórt raforkufyrirtæki í landinu sem hefur með höndum meginframleiðslu og dreifingu á mjög heilbrigðan og hagkvæman hátt.

Síðan er kannske það mikilvægasta frá heildarsjónarmiði að ódýrustu virkjunarkostir séu fyrst og fremst nýttir. Eftir því sem meginraforkuframleiðsla og meginraforkudreifing er sem mest hjá einum aðila, þá tel ég fullvíst að það séu meiri möguleikar til þess að ódýrustu og hagkvæmustu virkjunarkostir í landinu séu nýttir. Ég held að það verði ávallt tilhneiging til þess hjá sérhverju orkubúi, ef landinu verður skipt í mörg orkubú, að vera sem mest sjálfu sér nægt í sambandi við framleiðslu raforku. Og þetta er út af fyrir sig eðlilegt, að menn vilji á margan hátt vera sem mest sjálfum sér nægir. En það má hins vegar ekki ganga svo langt að raforkuverðið fari upp úr öllu valdi af þessum sökum.

Ég vil hins vegar ítreka það, að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, að hér er ekki um auðvelt mál að ræða. Það er út af fyrir sig ekki auðvelt mál að koma á einu fyrirtæki sem annist alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku á milli landshluta. En það þarf að láta reyna á hvort það sé hægt, og ég veit ekki til þess að það hafi verið látið reyna á það í fullri alvöru, því að ég býst við að ef menn stæðu frammi fyrir því, að að þessu skyldi stefnt, að ná sama orkuverði um land allt, þá þýddi það að verðjöfnunargjald yrði að hækka mjög verulega, og ég býst við að þeir aðilar, sem annast meginraforkuframleiðsluna í landinu í dag, mundu fremur vilja stefna að því að sameinast um raforkumál heldur en að auka þátt verðjöfnunargjaldsins, þannig að ég býst við því, að þessum markmiðum mætti ná.

Ég vildi sem sagt aðeins leggja á það áherslu, að mér sýnist að stefnumörkun í orkumálum hafi að mínum dómi farið úrskeiðis, vegna þess — og um það getur Alþ. út af fyrir sig og menn hér sakast við sjálfa sig í þeim efnum — að í lögum um Orkubú Vestfjarða felst ákveðin stefnumörkun sem að mínum dómi er ekki miðuð við heildarhagsmuni alls landsins í raforkumálum.