22.11.1977
Sameinað þing: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

30. mál, skipulag orkumála

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér hafa spunnist alllangar umr. um orkumál og skipulag þeirra út frá till. til þál. á þskj. 30 um skipulag orkumála. Um mál þessi má að sjálfsögðu margt ræða, svo mikilvæg sem þau eru fyrir hvern og einn íbúa landsins.

Síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Austf., vakti athygli á því, að orkumálin hefðu verið sett efst á blað í málefnasamningi þeirrar ríkisstj. sem nú situr, og er það rétt og satt. Hann gagnrýndi þó nokkuð það sem gerst hefði í þessum málaflokki að undanförnu. M.a. taldi hann að ekki hefði verið rétt, að því er mér skildist, að skipa þær héraðanefndir sem að undanförnu hafa unnið að þessum málum, að stefnumörkun hefði farið úrskeiðis og annað þar fram eftir götunum. Þar sem ég er formaður n. þeirrar, sem skipuð var á Vesturlandi til þess að athuga þessi mál, formaður raforkunefndar Vesturlands, tel ég rétt að segja um þetta örfá orð.

Slíkar nefndir munu hafa verið skipaðar í öllum byggðum landsins. Þær hafa starfað misjafnlega hratt, og er ekki að undra þar sem þessi mál eru öll í deiglunni. En ég tel út af fyrir sig að það hafi verið fyllilega rétt ákvörðun af hálfu hæstv. iðnrh. að skipa þessar n. til þess að kanna hugarheima manna í öllum byggðum landsins. Ég verð að viðurkenna, að á Vesturlandi höfum við ekki enn þá komist nógu langt í þessum málum. N. sú, sem þar starfar, var skipuð af iðnrn. í maí 1976. Það er nokkuð langur tími síðan og við verðum að sjálfsögðu að fara að skila af okkur störfum. Við höfum haldið marga fundi, og ég tel að við séum á réttri leið. Það hafa margar ályktanir verið gerðar í þessum efnum á Vesturlandi á undanförnum árum, af hálfu sýslunefnda, af hálfu sveitarstjórna og af hálfu Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, og segja má að þær hafi allar meira og minna horft í sömu átt, þ.e. að auka samvinnu í þessum málum á öllu Vesturlandi og auka áhrif heimamanna í þessum málum, þ.e.a.s. á aukna heimastjórn.

Við höfum nokkra sérstöðu á Vesturlandi að því leyti, að þar hefur myndarlegt orkufyrirtæki starfað allt frá árinu 1947, þ.e. Andakílsárvirkjun. Hún hefur reynst vel. Eigendur hennar eru Akraneskaupstaður og Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Við höfum talið eðlilegt að þetta fyrirtæki gæti fært út starfsemi sína þannig að framvegis stæðu þar að ekki aðeins tvær sýslur og einn kaupstaður, heldur fjórar sýslur og einn kaupstafur, hvernig sem uppbygging þess verður svo í einstökum atriðum. Ég tel að vilji til aukinnar samvinnu í þessum málum sé mikill á Vesturlandi. Þó höfum við ekki enn þá markað endanlega stefnu, en vonandi verður það innan skamms tíma.

Þó að við óskum eftir aukinni heimastjórn, þá er ekki þar með sagt að við viðurkennum ekki að af hálfu ríkisins verður að sjálfsögðu að vera ákveðin heildarstjórn þessara mála, enda hefur nú, eins og komið hefur fram, verið skipuð n. sem tekur til alls landsins og vinnur að heildarskipulagi á yfirstjórn orkumálanna. Ég tel að það fari mjög vel á því, að þessar nefndir starfi áfram og beri saman ráð sín, annars vegar heildarnefndin, sem tekur til alls landsins, og hins vegar þær n. sem kanna þessi mál í einstökum byggðarlögum.

Ég ætla ekki að fara að gagnrýna sérstaklega till. sem hér liggur fyrir á þskj. 30. Þó finnst mér að þar kenni nokkuð þeirrar áráttu að krefjast þess, að ríkissjóður eigi 50% eða raunverulega meiri hluta í öllum slíkum landshlutafyrirtækjum. Ég man eftir því, að einn nm, á Vesturlandi tók eitt sinn svo til orða, að ef heimastjórn ætti ekki að vera ríkari en svo. að hið opinbera gæti í raun og veru tekið ítaumana hvenær sem væri og ráðið lögum og lofum í þessum efnum, þá tæki því ekki að vera að stússa lengur í þessum nefndarstörfum. Og ég hygg að þar fari skoðanir okkar saman yfirleitt á Vesturlandi. Það eru þessi 50 eða 51% regla sem gægist fram í þessari þáltill. og fleiri till. sem komið hafa fram um þessi mál hér á hv. Alþingi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en aðeins að vænta þess, að hinar einstöku nefndir, sem að þessum málum vinna, hraði störfum og einnig sú n, sem nær yfir landið allt og vinnur að heildar skipan þessara mála. Ég held að mér sé óhætt að segja, að raforkunefnd Vesturlands muni halda áfram að vinna að þessu máli, og ná endanlegri samstöðu með hagsmuni allra íbúa Vesturlands fyrir augum og þjóðarheill í huga.