18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. og hæstv. heilbrrh, fyrir svör þeirra. Þau voru tvímælalaust jákvæð, og þeir lýstu því báðir yfir að framlag til byggingar sundlaugar við Grensásdeild Borgarspítalans væri í þeim þætti fjárlaga sem heitir: Til sjúkrahúsa og læknabústaða. Hæstv. heilbrrh. greindi frá því, að hann hefði sjálfur talið eðlilegast að þessi fjárveiting til Grensásdeildar Borgarspítalans yrði sérstakur fjárlagaliður, og það hefði ég talið einnig. En annaðhvort fjmrh. eða embættismenn hans kusu að fela þetta inni í ákaflega almennum lið sem heitir: til sjúkrahúsa og læknabústaða. Ég las þennan lið þegar ég var að skoða fjárl. í upphafi, og ég vil leyfa mér að lesa viðfangsefnin sem þar eru tilgreind.

„Bygging sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknamiðstöðva og læknabústaða, annarra en ríkissjúkrahúsa — Röntgentækni — Sjúkrahús St. Franciscusarreglunnar í Stykkishólmi, byggingarstyrkur. — Styrkur til heilsuverndarstöðva. — St. Jósefsspítali í Hafnarfirði, byggingarstyrkur. — Landakotsspítali, röntgentækni.“

Þegar ég las þetta gat ég ekki komið auga á að sundlaug við Grensásdeild gæti falist undir þessari upptalningu. En það stafar trúlega af því að mér hefur alltaf verið heldur illa við skriffinnsku og ég hef ekki lagt á mig að læra það sérstaka tungumál sem skriffinnar nota. En þetta skiptir raunar ekki máli. Það skiptir mestu máli að tveir hæstv. ráðh. hafa lýst yfir því, að þeir telji að þetta eigi að vera í fjárl. næsta árs. Hæstv. forsrh. sagði að þetta færi eftir ákvörðunum fjvn. Eins og ég rakti í upphafsræðu minni, þá liggur stefna fjvn. fyrir. Hún var ekki aðeins almenn vísun til ríkisstj., hún var rökstudd. Hún var rökstudd með því að fjvn. ætlaðist til að þetta yrði gert í sambandi við fjárlög þessa árs. Þetta var ekki almenn tilvísun til ríkisstj. Þetta var stefnuyfirlýsing. Og í fjvn. eiga sæti allir sömu menn og á síðasta þingi, fyrir utan Jón Árnason sem lést, þannig að vilji fjvn. er algerlega ljós. Mér fannst það alger óþarfi hjá hæstv. forsrh. að fara að reyna að vefja þetta mál inn í einhverja þoku. Það er alveg ljóst fyrst hæstv. ráðh. segja að þeir vilji að þessi fjárveiting sé inni í fjárl., og þar liggur fyrir afstaða hv. fjvn. og raunar afstaða Alþ. líka.

Ég vil fagna þessum yfirlýsingum ákaflega mikið, því að eins og allir ættu að vita er fötlun alvarlegasta mannamein hér á Íslandi og í öðrum þjóðfélögum sem hafa sæmilega heilbrigðisþjónustu. Ég las það í skýrslum frá finnsku öryrkjasamtökunum, að þau telja að hvorki meira né minna en 15% þjóðarinnar eigi við svo alvarlega fötlun að stríða að menn eigi erfitt með að ferðast með almenningsfarartækjum. Inní í þessari tölu er andlega fatlað fólk og einnig börn á aldrinum 0–3 ára. En 15% þýðir sjöundi hver maður, og ég vil minna félaga mína á Alþ. á það, að 15% kjósenda geta komið 9 mönnum inn á þing. Með þessu er ég ekki að halda því fram að við þm. hugsum einvörðungu um það, hvernig við eigum að krækja okkur í atkv. En þessi hópur er svona sterkur og hann á rétt á að fá að njóta hér miklu meira jafnréttis en hann nýtur í þjóðfélagi okkar.

Það er þannig hér á Íslandi, að við höfum orðið miklir eftirbátar annarra um að breyta þjóðfélaginu þannig að fatlað fólk geti athafnað sig á sama hátt og heilbrigt fólk. T.a.m. Svíar eru komnir miklu lengra á þessu sviði. Þar gengu í gildi í júlí í sumar sérstök lög sem kveða á um að allar nýjar opinberar byggingar, allir nýir vinnustaðir og öll íbúðarhús meira en tvær hæðir verði jafnaðgengileg fyrir alla þegna, hvort sem þeir eru heilbrigðir eða fatlaðir, og ef þurfi að gera meiri háttar breytingar á eldri húsakynnum, þá verði að haga breytingunum þannig, að tekið sé tillit til þess að svona stór hluti þjóðarinnar býr við fötlun.

Við vitum það öll, að endurhæfingarlækningar eiga sér stuttan aldur t veröldinni, en af þeim hefur náðst alveg feiknalegur árangur. Ég hef haft fyrir augunum ýmsa atburði sem ég vil líkja til kraftaverka. En meginatriðið verður það, að ákaflega stór hluti fatlaðra nær þeim styrk að þeir geta unnið í þjóðfélaginu á eðlilegan hátt, ef aðstaða er til þess að þeir komist á vinnustaði sina. En þeir vinnustaðir eru því miður fáir sem þannig eru. Hér uppi á áhorfendapöllum eru ýmsir vinir mínir af Grensásdeild Borgarspítalans, einnig sjúklingar, og mér þykir vænt um að þeir koma hingað í dag. En þeir sjá hér á Alþ. hvernig þessi vinnustaður er hannaður t.a.m. fyrir fatlaða. Ég vil staðhæfa það, að maður sem væri öllu meira fatlaður en ég gæti alls ekki unnið hér á þingi, t.a.m. maður sem væri bundinn við hjólastól. Og við skulum íhuga hvað í þessu felst. Einn mikilhæfasti stjórnmálamaður þessarar aldar, Bandaríkjaforsetinn Franklin D Roosevelt, veiktist á miðjum stjórnmálaferli sínum, fékk lömunarveiki og fatlaðist svo illa að hann gat ekki hreyft sig nema í hjólastól. Ef þessi maður hefði verið þm. á Alþingi Íslendinga hefði hann ekki getað haldið áfram störfum eftir að hann fatlaðist. Þetta er atriði sem ég held að við þm. allir eigum að hafa mjög sterklega í huga og að við eigum að einbeita okkur að hví að koma á jafnrétti á þessu sviði, svo að fatlað fólk geti stundað störf sin á eðlilegan hátt og umgengist aðra þjóðfélagsþegna á eðlilegan hátt án þess að verða fyrir mjög annarlegum torfærum sem eru í svo til öllum húsum á Íslandi, einnig opinberum húsum. sem byggð hafa verið nýlega. Ég vil minna á það, að við höfum hér í Reykjavík hús sem teiknað er af heimsfrægum arkitekt, finnska arkitektinum Alvar Alto. Norræna húsið. Ég geri ráð fyrir að flestir hafi komið þangað. Þar er ekki hægt að skilja eftir bíl nema býsna langt frá húsinu. Inn í húsið eru langar tröppur, að vísu þægilegar tröppur, en engin handrið, þannig að þeir, sem eiga við jafnvægisvandamál að etja, eiga erfitt með að komast inn í húsið. Og það er engin leið að komast inn í húsið á hjólastólum. Þetta er til marks um blindu sem hefur verið uppi ekki aðeins hér á Íslandi, heldur hvarvetna um heim, og verður að taka á. Og þessari till. minni um sundlaug við Grensásdeild Borgarspítalans er ekki aðeins ætlað að vera þeirri ágætu stofnun betur kleift að leysa viðfangefni sín, heldur vil ég með þessu reyna að stuðla að hví að brjóta ís. Endurhæfingardeildin á Landsspítalanum er ákaflega illa sett. Þar er svo þröngt að það er ekki hægt að stunda starfsemina á neinn eðlilegan hátt. Og við þurfum að setja okkur það mark á sem allra skemmstum tíma. að fatlað fólk njóti jafnréttis í þjóðfélaginu. Það er hægt að gera þetta og til þess þarf ekki ýkjamikinn tilkostnað ef það er hugsað fyrir fram.

Ég bið hæstv. forseta afsökunar á því að ég hef talað lengur en ég mátti.