23.11.1977
Efri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

90. mál, iðjuþjálfun

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir frv. þetta, sem hann leggur nú fyrir Alþ. Mér þótti hann gera ágæta grein fyrir eðli þessa frv. í framsöguræðu sinni og árétta það enn fremur er hann tók til máls öðru sinni.

Mér er persónulega kunnugt um þörfina fyrir iðjuþjálfa. Ég kann miklu betur við heitið á þessari grein heldur en heiti það sem fylgdi hinu fyrra frv. sem hæstv. ráðh, mælti fyrir áðan. Mér er kunnugt um þörfina fyrir iðjuþjálfa, og vegna athugasemda hv. síðasta ræðumanns, Jóns G. Sólness, vil ég vekja athygli á 7. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að iðjuþjálfa sé heimilt að hafa sér til aðstoðar fólk sem starfi á ábyrgð og undir handleiðslu hans. Þar ætla ég að sé gert ráð fyrir því, að hann hafi í sinni þjónustu einmitt þetta ágæta fólk sem hv. þm. Jón G. Sólnes ræddi um áðan, sem ekki hefur lagt fyrir sig nám í þessari sérstöku grein, en er búið hæfileikum til þess að veita svona aðstoð. Og ég sé ekki betur en að frv. sé einmitt til þess fallið að hvetja fólk með hæfileika á þessu sviði til þess að afla sér frekari menntunar svo það geti orðið að enn þá meiri hjálp fyrir þá sem á þurfa að halda í þessu skyni.

Í upptalningunni í grg. á 3. síðu þessa þskj. er gerð grein fyrir allyfirgripsmikilli þekkingu sem talin er til greina koma við iðjuþjálfun, og liggur í augum uppi, að þó ýmsum sé margt til lista lagt, þá þarf býsna yfirgripsmikla og alhliða þekkingu til þess að geta gengið í það starf sem iðjuþjálfanum er ætlað. Síst vil ég og situr síst á mér að andmæla því sem hv. þm. Jón G. Sólnes sagði um gildi alþýðuþekkingar, þeirrar þekkingar og þess starfssviðs vinnuliðs sem oft er tengt góðri brjóstgreind og því hugarfari sem með þarf til þess að geta orðið öðrum að liði sem bágt eiga. En ég er nú þeirrar skoðunar, að ekki muni það draga úr að opnuð sé sérstök leið fyrir það fólk, sem gætt er þessum góðu eiginleikum, til þess að auka þekkingu sína og gera sig enn þá hæfari til að geta látið gott af sér leiða. Ég sé ekkert á móti því, að slík tilsögn, slík kennsla fari fram við Háskóla Íslands. Ég fæ ekki betur séð en að vegur Háskólans muni vaxa við það og fæ ekki séð að það sé slæmt á nokkurn hátt.

Við neyðumst til þess í nútímasamfélagi að draga markalínur á milli þeirra, sem hafa aflað sér staðgóðrar viðurkenndrar þekkingar og hljóta þar með ákveðin réttindi, og svo hinna, sem hafa sýnt í verki sínu hæfileika til þess að afla sér þekkingar og hafa til að bera allmikla þekkingu e.t.v., en hafa ekki lagt á sig það starf sem til þess þarf að hljóta þessi réttindi. Hvar eigum við að draga mörkin á milli alþýðuþekkingarinnar og hinnar opinberu viðurkenningar sem veitir réttindi? Það er náttúrlega spurning. Ég er ekki að mæla með því að við förum, svo ég nefni dæmi, að stofna sérstaka deild við Háskóla Íslands í kukli eða göldrum, heldur vil ég að við þurfum stöku sinnum, þegar mönnum býður svo við að horfa, að sækja galdrakerlingar til annarra landa til þess að inna af höndum fyrir okkur ákveðin verk undir sérstökum kringumstæðum. (Gripið fram í.) Nú var það í þessu sérstaka tilfelli, sem ég er alveg efalaus um að hv. þm. Jón G. Sólnes veit að ég á við, þannig að galdrakerlingin, sem þeir félagar fengu norður að Kröflu í fyrrasumar, hafði samkv. yfirlýsingum þeirra sjálfra háskólamenntun í galdri að vestan, Ég á ekki við það, að við eigum að taka upp háskólamenntun í kukli, enda er ekki að því vikið í þessu frv, sem hér um ræðir. En ég sé bókstaflega ekkert á móti því, að tekin verði upp háskólakennsla í ýmsum þeim fjölbreytilegu fræðum sem með þarf til þess að veita fólki, sem vill leggja fyrir sig iðjuþjálfun, háskólapróf. Það er allt annars eðlis og kemur raunverulega ekki við þeim alþýðlegu þekkingargreinum sem hv. þm. Jón G. Sólnes virtist raunverulega vera að víkja að áðan.