23.11.1977
Efri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

91. mál, matvælarannsóknir ríkisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðh., að mjög er nauðsynlegt að skapa þessari stofnun lagagrundvöll eða lagaramma. Ég tek undir allt sem hann sagði um mikilvægi þessarar starfsemi. Það er rétt, sem kom fram, að eftirlit með matvælum hefur verið á eins konar hrakhólum hér hjá okkur, verið eins konar aðskotadýr hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og reyndar þar mjög takmarkað, takmarkað við gerlaathuganir fyrst og fremst. Skortur hefur verið á slíku eftirliti með efnagreiningum á fjölmörgum öðrum sviðum matvælaframleiðslunnar og hafa verið nefnd um það allt of mörg dæmi, t.d. í fjölmiðlum, þegar í ljós hefur komið að þeirri framleiðslu hefur verið ábótavant. Ég vek athygli á því, að sú stofnun, sem hér um ræðir, á fyrst og fremst að annast eftirlit með matvælum. Hún er Heilbrigðiseftirliti ríkisins til aðstoðar. Það segir, með leyfi forseta, í 3. gr.: Stofnunin skal „annast matvæla-, efna- og örverufræðilegar rannsóknir á hvers konar matvælum og neysluvörum vegna Heilbrigðiseftirlits ríkisins“. Og í grg. kemur mjög skýrt fram, að hér er um ýmiss konar eftirlit með matvælum að ræða.

Ég stend upp til þess að vekja athygli á því, að oft er nokkur misskilningur í sambandi við hugtakið „rannsóknir“. Hæstv. ráðh. notaði m.a. þá lýsingu á þessari stofnun, að hér væri um vísindalegar rannsóknir að ræða. Án þess að ég sé að gera á nokkurn máta lítið úr þessari mikilvægu starfsemi, þá hygg ég að þeir, sem rannsóknir stunda, skilji þetta á nokkurn annan máta. Þar er yfirleitt greint á milli rannsókna annars vegar og þjónustu, sem veitt er með efnagreiningum, hins vegar. Mjög mikill liður í starfsemi íslenskra rannsóknastofnana er slík þjónusta, og sú þjónusta er ákaflega mikilvæg við íslenska atvinnuvegi, en sú þjónusta skapar ekki nýja þekkingu, en það er yfirleitt skilgreiningin á rannsóknum og alveg sérstaklega ef rannsóknirnar eru nefndar vísindalegar.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að nýlega er hafið samstarf á milli Háskóla Íslands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um matvælarannsóknir og hefur verið veitt fjárveiting frá hinu háa Alþ. til þess að ráða sérfræðing í þessari grein. Þarna er ætlunin að leggja fyrst og fremst áherslu á rannsóknir og jafnvel vísindalegar rannsóknir, þ.e.a.s. nýsköpun á sviði matvælaframleiðslu, gera þar tilraunir með nýja framleiðslu úr íslenskum matvælahráefnum sem ekki eru nú á boðstólum, og eru bundnar miklar vonir við þá starfsemi. Þarna er ætlunin að forðast sem mest þjónustu eða efnagreiningar sem þátt í eftirliti, enda önnur stofnun, sem nefnd hefur verið Matvælarannsóknir ríkisins, til þess sett á fót.

Ég er m.ö.o. að vekja athygli á því, að e.t.v. gætir þarna nokkurs misskilnings á milli þessara tveggja mikilvægu stofnana. Reyndar er það, sem ég hef hér nefnt, ekki sjálfstæð stofnun, heldur eins konar samstarfsaðili á milli Háskólans og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og gert ráð fyrir að verði til húsa hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. E.t.v. má leiðrétta þetta með einhverju öðru nafni á þessari stofnun, t.d. Matvælaeftirlit ríkisins og Matvælaefnagreiningar ríkisins. Ég er ekki að gera neina slíka till., en ég taldi rétt að standa hér upp og vekja athygli á þessu máli og leggja áherslu á að það verði athugað af þeirri n. sem fær frv. til athugunar.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh., að þessu máli má gjarnan flýta í gegnum þingið. Það er mikilvægt mál, og sú starfsemi, sem hér er um að ræða — ég endurtek það, er ákaflega mikilvæg og þarf að fá góðan starfsgrundvöll.