24.11.1977
Sameinað þing: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

30. mál, skipulag orkumála

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta er þriðji dagurinn sem fram fara umr. um þessa þáltill., svo að það má nærri geta að margt merkilegt og skynsamlegt sé búið að segja. Og ég vil segja það sem mína skoðun, að mér hafa fundist þessar umr. hinar athyglisverðustu. Ég er sammála því, sem fram hefur komið hjá einstökum ræðumönnum, í sumum efnum, þó að ég sé andvígur öðru. En ég hef ekki hugsað mér að fara að ræða þetta mál efnislega nú. Ég hef talað áður í þessum umr. og lagði þá áherslu á að við ættum að vera sammála nm meginmarkmið í orkumálum. Og ég held að við séum sammála um meginmarkmiðin. En vandamálið er að koma sér niður á það skipulag sem best stuðlar að því að ná þessum markmiðum.

Ég sagði áðan, að ég ætlaði ekki að fara að ræða einstök atriði sem fram hafa komið í málflutningi manna hér, en vil þó aðeins gera eina undantekningu.

Það hefur borið hér á góma, að það væru nokkuð óeðlileg vinnubrögð hjá hæstv. iðnrh. og ríkisstj. að láta skipulag orkumálanna og meðferð þeirra mála bera þannig að nú, að skipa fyrst n. í hinum einstöku landshlutum til þess að vinna að þessum málum, en skipa síðar n. sem á að gera till. um heildarskipun orkumála og endurskoða orkulögin í heild.

Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. En ég bið menn að hafa í huga að eitt af því, sem við erum allir sammála um, er að það eigi að taka tillit til félagslegra sjónarmiða í þessum efnum á þann veg að kveðja til fólkið í hinum dreifðu byggðum með það fyrir augum að gera hlut landshlutanna stærri í framkvæmd orkumálanna en hefur verið. Ef við erum sammála um þetta, þá hygg ég að við nánari athugun getum við verið sammála um að það sé eðlilegt að spyrja þetta fólk ráða og vita nokkuð um álit þess og áhugamál í þessum efnum áður en gengið er frá heildarskipulaginu. Menn segja kannske að það sé mismunandi, eins og hér hefur komið fram í umr., hvað fólkið vilji, það geti verið einn vilji í einum landshluta, en annar í öðrum. Þetta er rétt. En hvað meinum við með því að fá fólkinu meira áhrifavald í þessum efnum? Það er í raun og veru fyrst og fremst talað um að sveitarfélögin komi inn í á þann hátt, að þau séu aðilar í einhverja formi að orkuvinnslu- eða orkudreifingarfyrirtækjum í samvinnu víð ríkið. Ef við meinum þetta, þá verðum við að hafa sveitarfélögin með í ráðum. Það er ekki hægt að framkvæma neitt í þessa átt nema með vilja sveitarfélaganna. Annað er að mínu viti óraunhæft. En það er rétt, það getur verið mismunandi hvað sveitarfélögin vilja. Því hef ég litið svo á, að ef við meinum eitthvað með landshlutafyrirtækjum, þá verðum við að vera viðbúnir því að landshlutafyrirtæki þurfi ekki að vera eins upp byggð í öllum landshlutum, það verði að fara eftir aðstæðum í hverjum landshluta fyrir sig og vilja sveitarfélaganna og fólksins þar. Það er þess vegna þýðingarmikið að vita sem gleggst um vilja og viðhorf manna um allt land í þessum efnum áður en við göngum frá heildarskipulaginu. Mér sýnist því að ekki hafi verið rangt að farið í þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð.

Hv. 1. flm. þessarar till., 2. þm. Vestf., vék mjög lofsamlega að því, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, og sagði, að í flestum atvikum sæi ég raunar kosti á skipulagi því sem þessi till. gerir ráð fyrir. Ég er þakklátur hv. 2. þm. Vestf. fyrir þessi ummæli, því að ég veit að þau mótast af því, að hann vill hlut minn sem mestan í þessum málum. En ég hygg einnig að þeir aðrir, sem vilja hlut minn mikinn í þessum málum og eru á öndverðum meiði við hv. 2. þm. Vestf., muni geta sagt eitthvað álíka um ræðu mína, að í flestum atriðum sæi ég raunar kosti á því sem þeir lögðu til og var andstætt þessari till. Sannleikurinn er sá, að ég leitaðist við að ræða þessi mál á málefnalegum grundvelli. Mér finnst að það verði að hlusta á allar hugmyndir, sem fram koma, vega þær og meta af hinni mestu kostgæfni. Vegna þess að ég legg mikla áherslu á þetta hef ég e.t.v. gert mig sekan um yfirsjón að endurflytja ekki hér á Alþ. ásamt rúmlega 10 sjálfstæðisþm. till. um skipulag orkumála sem við fluttum síðast fyrir þremur árum og gekk í veigamiklum atriðum í berhögg við þessa till. En ég hef ekki gert það, því að ég hlýt að hafa þessa till. í huga við störf mín í skipulagsnefnd orkumála sem á að gera heildartillögur. Þar þurfum við að hafa allar hugmyndir til athugunar, hvaða n sem þær koma, og ég fullyrði að það hafa komið mjög athyglisverðar hugmyndir frá öllum stjórnmálaflokkunum í þessum efnum. En málið er margþætt og margslungið.

Á fyrsta fundi skipulagsnefndar orkumála, sem mjög hefur verið til umr. hér við þessar umr., sagði ég í upphafi fundar eitthvað á þessa leið:

Við erum hér saman komnir til þess að vinna að mjög mikilvægu máli. Það er mjög erfitt viðfangs. Við þurfum að grandskoða það á mjög breiðum grundvelli. Við megum ekki varpa fyrir fram fyrir borð neinum hugmyndum sem fram koma. Við skulum athuga þær, grandskoða. Við skulum halda svo á starfi okkar varðandi hvert atriði, þar sem ágreiningur kann að vera í upphafi eða skoðanir okkar fyrir fram hafa verið andstæður, að við afgreiðum það á þann veg að við látum sannfærast eða sannfærum hverjir aðra. Ef okkur tekst ekki að vinna í þessum anda í þessari n., þá óttast ég að litill sem enginn árangur verði af starfi nefndarinnar.

Þetta voru mín fyrstu orð í n. þessari, og mér finnst þessar umr. hafa gefið tilefni til þess að rifja þau hér upp.