24.11.1977
Sameinað þing: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

44. mál, fræðslustarfsemi um efnahagsmál í sjónvarpi

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 45 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um upplýsinga- og fræðslustarfsemi um efnahagsmál í sjónvarpi. Tillgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á menntmrh. að beita sér fyrir því, að sjónvarpið hefji svo fljótt sem verða má reglulega upplýsinga- og fræðsluþætti um efnahagsmál í umsjá viðskiptadeildar Háskólans og Þjóðhagsstofnunar.“

Það er áreiðanlega ekki ofmælt þegar ég segi, að margir ágætir landsmenn hafa mörg undanfarandi ár haft verulegar áhyggjur af þeim tröppugangi sem orðið hefur í þróun efnahagsmála hér á landi. Þar hefur það ítrekað gerst, að landsmenn hafa búið við vaxandi velsæld og þjóðartekjur hafa aukist verulega, síðan hefur komið bakslag, þjóðartekjur hafa skyndilega minnkað og lífskjörin versnað verulega. Ýmsar kenningar eru uppi um meginástæður fyrir þessari þróun og sýnist þar sitt hverjum, sem ekki er óeðlilegt. En um hitt held ég að flestir landmenn séu sammála, að nauðsynlegt sé að draga mjög úr þessari sveiflukenndu þróun efnahagsmála landsins. Ég hygg að margir, sem hafa lagt sig sérstaklega eftir því að komast til botns í þessum málum, séu þeirrar skoðunar, að öllu lengur verður ekki frestað að gripa til þeirra aðgerða, sem mundu duga verulega til að draga meira úr þessum sveiflum en þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið í þessum efnum hingað til. Ætla ég ekki að fara miklu meira út í það nú.

Um mitt þetta ár varð veruleg breyting á þróun efnahagsmála frá því sem verið hafði um sinn þar áður. Við höfðum fram að þeim tíma búið við verulega auknar þjóðartekjur og það var full atvinna í landinu. Okkur hafði tekist að minnka mjög verulega viðskiptahalla sem hafði á árunum 1974 og 1975 verið á milli 11 og 12% af þjóðartekjum. Ýmislegt á fyrri hluta yfirstandandi árs gaf vonir um að nokkurt framhald gæti orðið á þessari hagstæðu þróun efnahagsmála landsmanna. En því miður verður að segja hverja sögu eins og hún hefur gengið til. Nú síðari hluta þessa árs hefur verulega brugðið til hins verra um þessa þróun, og nú gætir nokkurrar svartsýni um framhaldið í þessum málum á næstu mánuðum og næstu árum.

Að mínu viti skiptir geysilega miklu um það, hvernig til tekst í næstu framtíð, hvernig staðið verður að þeim nýju vandamálum sem nú virðast vera að risa, og á ég þar ekki síst við hættuna á því, að verðbólga kunni að vaxa á ný, eftir að hún hefur farið minnkandi frá árinu 1974, og enn fremur að skuldasöfnun sú erlendis, sem hefur m.a. orðið til vegna þess að við versnandi aðstæður í þjóðarbúskapnum hefur verið gripið til þess ráðs, m.a. til þess að lífskjörin breyttust ekki mjög skyndilega til hins verra, að taka lán erlendis og lifa þannig að verulegu leyti á erlendum lántökum. En þeirri leið eru að sjálfsögðu takmörk sett eins og hverjum öðrum lántökum. Sennilega verða erlendar skuldir þjóðarbúsins til langs tíma í lok þessa árs eitthvað nálægt 130 milljörðum kr., og hygg ég að þær hafi ekki í annan tíma verið hærri miðað við þjóðarframleiðslu.

Það er með þetta í huga sem ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um upplýsinga- og fræðslustarfsemi um efnahagsmál í sjónvarpi. Það er staðreynd að enginn fjölmiðill í landinu er jafnáhrifaríkur um skoðanamyndun landsmanna og sjónvarpið. Sjónvarpið er nú svo að segja á hverju íslensku heimili, og ég hygg að það sé mikið horft á sjónvarpsdagskrá og hlustað á hana. M.a. sér þess stað í starfsemi stjórnmálaflokkanna að fundir stjórnmálaflokkanna almennt talað gerast nú æ fámennari vegna þess að fólkið vill gjarnan hlusta á stjórnmálaumr. í sjónvarpi.

Ég hef því látið mér detta í hug, að það kynni að vera til mikilla bóta og gæti orðið til nokkurrar hjálpar að vinna upp almenningsálit í landinu sem væri þess megnugt að veita aðhald og knýja fram stefnubreytingu í þróun efnahagsmála, eins og horfurnar eru nú, og því er þessi þáltill. flutt. Það er enginn efi á því, að ef m.a. tækist að sannfæra mikinn meiri hl. þjóðarinnar um að hann stórtapaði á verðbólguþróun, þá væri verulega mikill sigur unninn í því stríði sem ég tel að brenni hvað heitast á okkur nú um sinn, þ.e.a.s. að reyna að draga úr verðbólguvexti. Ég hef þá skoðun, að það sé ótrúlega stór hópur þjóðfélagsborgara sem trúir því að hann græði á verðbólguþróun eins og verið hefur hér á Íslandi. Og því miður verð ég að segja það, að ég held að það sé ótrúlega stór hópur þjóðfélagsborgara sem heldur að það sé hægt að búa í þjóðfélagi eins og okkar við verðbólgustig af gráðunni 30–40% ár eftir ár án þess að það leiði til meiri háttar áfalla og framleiðslustöðvunar í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar vegna þess að útflutningsatvinnugreinarnar verða ekki samkeppnishæfar á erlendum mörkuðum.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á mjög svo fróðlegri grein sem Ásmundur Stefánsson hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands ritar í síðasta hefti Hagmála, tímarits sem ég hygg að Félag viðskiptafræðinema gefi út. Því miður tók ég þetta tímarit með mér heim og hef það ekki við höndina, en það er afar fróðleg grein, sem bann ritar, þar sem hann kemur m.a. inn á þetta atriði sem ég var að nefna, hversu margir eru haldnir þeim misskilningi að þeir græði á verðbólguþróun. Hann talar um þann útbreidda misskilning, að sá, sem er að byggja íbúð, litla íbúð, telji að það sé sér í hag að verðbólgan vaxi jafnvel töluvert mikið, vegna þess að slík þróun greiði niður lán þau sem viðkomandi íbúðarbyggjandi hefur fengið. Hann rekur það með dæmum, ef dæmið er skoðað til enda, að slíkar hugleiðingar eru byggðar á miklum misskilningi. Hann tekur m.a. dæmi af því, að þessi húsbyggjandi kunni að vera aðili að lífeyrissjóði og hafi því fengið lán úr lífeyrissjóðnum að verulegu leyti vegna byggingarkostnaðarins. Og hann rekur það, hvernig lífeyrissjóðurinn verður ófærari um að greiða lífeyri á þeim tíma þegar m.a. þessi húsbyggjandi á rétt á að taka þaðan lífeyri, vegna þess að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðsins er brunnið upp meira eða minna í þeirri verðbólguþróun sem verið hefur.

Hann tekur líka dæmi um mann sem fái lán til húsbyggingar hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins og gleðjist yfir því, að verðbólgan hjálpi honum að greiða lánin upp, gleymi að dæmið liggi ekki allt á borðinu þó að þetta kunni að einhverju leyti að vera rétt, því að Húsnæðismálastofnun fái tekjur sínar einhvers staðar frá og m.a. með skattlagningu á borgara landsins, þannig að það þurfi þá að hækka þá skatta ef verðbólga vaxi og lán þurfi að hækka til íbúðarbygginga.

Fleiri athyglisverð dæmi nefnir Ásmundur Stefánsson í þessari grein sinni sem sýna mætavel, að það er á algjörum misskilningi byggt að langstærsti hluti þjóðarinnar geti grætt á svo mikilli verðbólgu sem hér hefur verið nú um nokkra áratugi.

Ef mögulegt væri að sýna mönnum óyggjandi fram á réttmæti þessara skoðana Ásmundar Stefánssonar og raunar fleiri, þá hygg ég að verðbólgubaráttan gengi betur en verið hefur undangengna áratugi og að þeir stjórnmálamenn og þeir stjórnmálaflokkar sem legðu sig sérstaklega fram um að berjast í anda þessarar stefnu, mundu skera betur upp við hverjar kosningar en reynslan hefur oft á tíðum sýnt.

Til þess að reyna ná þessum árangri, reyna að skapa þennan skilning er þessi till. flutt. Umræður í dagblöðunum, sem mörg hver eru ákveðin flokksmálgögn og flytja mál sitt með hliðsjón af hagsmunum þeirra flokka sem þau styðja, hafa oft á tíðum ekki verið mjög upplýsandi um réttar orsakir vandamálanna. Þar hefur e.t.v. gætt meira fullyrðinga og oft á tíðum sleggjudóma heldur en röksemdarfærslu um þessi mál. Þegar af þeirri ástæðu teldi ég heppilegt að flytja umr. að verulegu leyti þaðan og inn í sjónvarpið.

Ég legg til í tillgr. að þessir þættir, þessir föstu reglulegu þættir um efnahagsmál, verði í umsjá viðskiptadeildar Háskóla Íslands og Þjóðhagsstofnunar. Vitanlega gætu ýmsir fleiri aðilar komið þar til álita sem umsjónaraðilar slíkra þátta, en ég legg þetta samt til. Ég vil undirstrika að ég legg áherslu á það, að í þessum þáttum komi ekki einasta fram hagfræðingar eða viðskiptafræðingar eða menn sem hafa sérmenntað sig á sviði efnahagsvísinda, heldur komi ekki síður þar fram menn úr atvinnulífinu, bæði úr röðum atvinnurekenda og launþega, menn sem þekkja vandamál hins daglega lífs af eigin reynslu og geta sett fram skoðanir sínar byggðar á þessari reynslu.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa öllu fleiri orð í framsögu með þessari till. til þál. Ég legg til að eftir að umr. hefur verið frestað verði till. vísað til hv. allshn.