28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

97. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, á sér nokkuð langa sögu þó það hafi ekki séð dagsins ljós fyrr en nú. Við setningu laga nr. 46 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, var gerð veruleg breyting á aðild starfsmannafélaga ríkisstarfsmanna að kjarasamningum við ríkisvaldið. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna fengu þá beina samningsaðild að aðalkjarasamningum, en aðildarfélög bandalaganna beggja um sérkjaraatriði sinna félagsmanna. Gert var ráð fyrir að fjmrh. úrskurðaði um kjör þeirra starfsmanna sem voru ekki innan vébanda bandalaganna tveggja. Við setningu kjarasamningalaganna 1973 lýstu allir ráðuneytisstjórar stjórnarráðsins yfir, að þeir væru utan vébanda Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, og byggðist sú afstaða á stöðu þeirra sem forsvarsaðila fyrir hönd ríkisvaldsins gagnvart stofnunum ríkisins og starfsmönnum. Jafnframt kom fram sú skoðun í þeirra hópi, að eðlilegast væri að Kjaradómur úrskurðaði um kjör þeirra, enda væri Kjaradómi falinn slíkur úrskurður um kjör hæstaréttardómara og ríkissaksóknara, auk þess sem Kjaradómur úrskurðar laun forseta Íslands og ráðherra.

Þegar ráðuneytisstjórar ræddu þessi mál við mig lýsti ég mig samþykkan afstöðu þeirra, og það varð að samkomulagi, að lagt yrði fyrir Alþ. frv. þess efnis sem hér liggur fyrir. Afstaða mín til málsins byggist á því, að ráðuneytisstjórarnir eru flestir að meira eða minna leyti í forsvari fyrir ríkið við gerð kjarasamninga, bæði við hina eiginlegu ríkisstarfsmenn og þá starfsmenn sem eru í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands. Það er því heppilegast að ákvarðanir um kjör þeirra sjálfra séu í höndum óháðs aðila og að hvorki þurfi þeir að reka kjaramál sin sjálfir né ráðh. að úrskurða um kjör nánustu samstarfsmanna sinna.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að um þetta frv., eins og önnur frv. sem flutt eru varðandi þessa löggjöf, er samkomulag milli ríkisstj. og þeirra sem við lögin eiga að búa. Ég vænti þess, að einnig sé hægt að ná samkomulagi um málið hér eins og þau hin fyrri. Málið hefur verið kynnt öllum þingflokkunum, og ég vænti að það geti fengið skjóta afgreiðslu á Alþingi til þess að ljúka megi þeim launaákvörðunum sem nú þarf að taka fyrir. Vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að unnt verði að ljúka málinu í þessari hv. þd. í dag.

Að þessu mæltu leyfi ég mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.