28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

Varamaður tekur þingsæti

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, eru ummæli hæstv. forsrh, á flokksráðsfundi Sjálfstfl., sem haldinn var nú um þessa helgi, varðandi svonefnd varnarmál. Þau ummæli, sem ég hér á við, eru tekin upp úr ræðu hæstv. forsrh. sem birt er í Morgunblaðinu í gær. Hæstv. forsrh. sagði orðrétt sem hér segir:

„Æskilegast væri að við hættum að deila um þessi einföldu grundvallaratriði og gætum heilshugar snúið okkur að hinu, sem ávallt á að vera íhugunar- og umhugsunarefni, hvort gera þurfi frekari ráðstafanir til varnar í landinu en nú er. Verði niðurstaðan sú, t.d. eftir slíkt mat, að byggja þurfi nýjan flugvöll, t.d. á Austurlandi eða annars staðar, og leggja vegi sem tengi flugvellina, verðum við að gera okkur grein fyrir því, að við verðum að sætta okkur við aukin umsvif varnarliðsins. Slíkur nýr flugvöllur, reistur í varnanna þágu, kallar á lið og herbúnað til þess að hann komi að gagni. Allar aðrar þjóðir hafa í raun og veru þurft að framkvæma slíkt mat og meta hve mikil umsvif og höft þær vilja leggja á daglegt líf sitt á friðartímum til þess að vera viðbúnir árás eða ófriði eða koma í veg fyrir ófrið.“

Það er ljóst að þessi ummæli hæstv. forsrh. eru í beinu framhaldi af umr. um talsverðan skoðanaágreining sem virðist vera innan Sjálfstfl. um það, hvort krefja skuli Bandaríkin um sérstakt gjald fyrir hernaðarlega aðstöðu, sem þau hafa hér á landi, eða ekki.

Hæstv. forsrh. hefur tekið það skýrt fram, að hann sé andvígur því að krefja Bandaríkjamenn um slíkt gjald fyrir þá aðstöðu sem þeir hafa hér nú. Hins vegar er ljóst af sérstakri skoðanakönnun, sem fram fór í sambandi við prófkjör Sjálfstfl. hér nýlega, að margir menn innan flokksins eru á annarri skoðun og krefjast þess, að farið verði fram á sérstakt gjald af hálfu Bandaríkjanna fyrir þá aðstöðu sem þau hafa hér á Keflavíkurflugveili. Ég skil þessi ummæli hæstv. forsrh. á þá lund, að þó að hann haldi sér við fyrri yfirlýsta afstöðu sína, þá telji hann að annað geti orðið upp á teningnum ef um frekari hernaðarlega framkvæmd hér yrði að ræða, eins og t.d. byggingu hernaðarflugvallar á Austurlandi eða annars staðar á landinu og síðan tengingu slíkra flugvalla, slíkra hernaðarlegra bækistöðva með nýjum vegum. Ég tel að það sé nauðsynlegt í tilefni af þessu að fá hér á hv. Alþ. frekari skýringar hæstv. forsrh. á því, hvað hann á í rauninni við með þessum ummælum.

Það verður að teljast mjög ótrúlegt, að hæstv. forsrh. tilnefni á þann hátt, sem hann gerir í þessu tilfelli, sérstakar framkvæmdir, hernaðarlegar framkvæmdir, eins og hugsanlegan hernaðarflugvöll á Austurlandi eða annars staðar á landinu, án tilefnis. Því spyr ég: Eru þessi ummæli hæstv. ráðh. til komin vegna þess, að þetta mál hafi verið til umr.? Hafa komið fram af hálfu hernaðaryfirvalda Bandaríkjanna einhver tilmæli eða einhverjar hugmyndir í þessa átt, að ef til vill þyrfti að koma upp hernaðarmannvirkjum, eins og t.d. hernaðarflugvelli, á Austurlandi eða annars staðar á landinu og þá sérstakri vegagerð milli þeirra valla?

Ég get ekki ímyndað mér að hæstv. forsrh. staðsetji slíkar hugsanlegar framkvæmdir á þann hátt sem hann gerði alveg að tilefnislausu eða að þetta sé aðeins hugmynd hans eins, að e.t.v. yrði þetta næsti áfangi. Ég óska því eftir skýringum varðandi þetta mikilvæga atriði af hans hálfu. Sé um það að ræða að erlendir hernaðaraðilar hafi komið fram með hugmyndir af þessu tagi, þá álít ég að það sé óhjákvæmilegt að Alþ. sé gerð grein fyrir slíkum hugmyndum og hvar undirbúningur af þessu tagi er á vegi staddur.

Ég vil líka fá að heyra það, hvort hæstv. forsrh. er sjálfur á þeirri skoðun, að framkvæmdir af þessu tagi geti yfirleitt komið til greina, hvort það er hans skoðun, að það sé rétt af okkar hálfu að taka upp einhverjar viðræður, beinar eða óbeinar, við Bandaríkjamenn um framkvæmdir af þessu tagi. Það er ekki ætlun mín að fara í neinar almennar umr. að þessu sinni, en ég tel að hér sé um slíkt stórmál að ræða að það sé ómögulegt annað en að Alþ. fari fram á það við hæstv. ráðh., að hann geri grein fyrir hvað hann er að fara í þessum efnum, hvað liggur á bak við ummæli hans, því að hinu get ég ekki trúað, að það, sem hann sagði í þessum efnum, sé hending ein, því að þá held ég að hann hefði hagað orðum sínum á allt annan veg.

Í von um það, að hæstv. ráðh. geri hér frekari grein fyrir þessum ummælum sínum, skal ég ekki ræða málið frekar að sinni.