18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umr., en af því að ég hef nokkuð verið nefndur í sambandi við meðferð þessa máls, þá þykir mér rétt að segja aðeins örfá orð. En ég mun hafa þau fá.

Þegar fjvn. skilaði afgreiðslu á þeirri till. sem hér hefur verið rædd, þá leit ég svo á að málið væri í höfn, að fjvn. mundi ekki senda svo ákveðinn rökstuðning til ríkisstj. öðruvísi en að þar fylgdi hugur máli. Þess vegna lét ég þau orð falla, sem vitnað hefur verið til, í þingræðu í fyrra.

Mér er enn fremur kunnugt um það og get vitnað það, að hv. þm. Jóhann Hafstein, fyrrv. forsrh., beitti sér fyrir því í samtölum við flokksmenn sína að þessu máli yrði haldið við og fjárveiting til þess ætluð á næstu fjárlögum. Og ég trúi ekki öðru en að svo verði, enda finnst mér þær yfirlýsingar, sem hér hafa verið gefnar, staðfesta það, þannig að ekki þurfi til frekari umr. að koma.

Ég harma það mjög ef sú staðreynd, að flm. þáltill. hafa gegnt ráðherraembættum, á að verða til þess að þm. telji sér síður unnt að samþykkja hana heldur en ella væri. Þá væri sannarlega illa farið. Og ég trúi því ekki að óreyndu að sá sé vilji þm.

Við, sem flytjum till., höfum átt þess kost að njóta umönnunar og meðferðar á þeirri deild sem hér hefur verið talað um. Við þekkjum þess vegna nokkuð til aðstæðna á þessum stað, og það er í ljósi þeirrar reynslu, sem við erum sannfærðir um, að hér þurfi úrbóta við. Það er vegna þessara staðreynda sem við fluttum till. Hún er ekki flutt fyrir okkur. Vonandi þurfum við ekki að leita á náðir þessarar stofnunar framar. Hún er flutt vegna þeirra sem eru þar nú og eiga eftir að koma þangað. Og ég mótmæli því, að það sé hallað á nokkra stofnun þó að byrjað sé á deildinni við Grensás. Einhvers staðar verður að byrja, eins og hv. þm. Jóhann Hafstein komst réttilega að orði, og það er ekki hægt að gera allt í senn. En sú framkvæmd, sem hér er til umræðu og verður framkvæmd á næsta ári, er byrjun á því mikla verki sem óunnið er í þessu efni.