28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

Varamaður tekur þingsæti

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram, að í blöðum hefur hugmynd á borð við flugvallargerð á Austurlandi og á Norðausturlandi komið fram. Og ég hélt nú sannast best að segja að hv. 2. þm. Austurl. væri það vel lesinn í blaðagreinum á þessu sviði, að hann vissi að þetta væri ekki ný hugmynd, sem ég hefði komið fram með, sem hann væri að fjalla um. Það er t.d. ekki mjög langt síðan tveir ágætir menn skrifuðu grein, þeir Sigurður Líndal prófessor og Valdimar Kristinsson viðskiptafræðingur og ritstjóri Fjármálatíðinda, þar sem þeir komu fram með hugmynd af þessu tagi. Ég hef verið á fundum víða um landið, m.a. á Austurlandi og Norðausturlandi, þar sem slíkar vangaveltur hafa komið fram í ræðum manna, og ég vil taka fram, að það voru ekki flokksfundir sem þar var um að ræða. Þetta held ég að sé rétt að komi fram, enn fremur hitt, að ég er þeirrar skoðunar, að mat af því tagi, sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni á flokksráðsfundi sjálfstæðismanna, eigi auðvitað að eiga sér stað fyrir opnum tjöldum að því leyti til, að gögn málsins séu lögð fram, og að almenn umr. sé um þau.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. að öðru leyti.