28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

Varamaður tekur þingsæti

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal ekki svara fyrir hönd hæstv. iðnrh., en hann er fjarverandi vegna þátttöku í fundi iðnrh. Norðurlanda þessa dagana.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég tel það ekki ofverk eða ofætlun okkur Íslendingum til handa að standa undir og framkvæma varanlega vegagerð á Íslandi með eigin aflafé. Ég vil enn fremur taka það fram, að ég tel það ekki ofætlun fyrir okkur Íslendinga að standa undir kostnaði við almannavarnir. Við búum í landi þar sem hættur felast og við þurfum að hafa almannavarnir vegna þeirra náttúruhamfara sem hér geta á skollið. Kostnaði, sem viðbúnaður í þeim efnum leiðir af sér, verðum við að standa undir. Að svo miklu leyti sem almannavarnir eru nauðsynlegar umfram þessa ástæðu, þá getum við rætt um með hvaða hætti eigi undir þeim kostnaði að standa eða með hvaða hætti skuli að slíkum vörnum standa, En á þetta legg ég megináherslu, að við Íslendingar verðum sjálfir að standa undir þessum framkvæmdum, ákveða hverjar þær skuli verða.

Auðvitað kemur til greina á hverjum tíma breytt tolla- eða skattameðferð í sambandi við dvöl varnarliðsins á Íslandi. En ég vil taka það skýrt fram, að varnarliðið er hér á Íslandi á þeim grundvelli, að við Íslendingar berum ekki einn kostnað af veru þess hér á landi eða mannvirkjagerð. Hins vegar gerum við ekki þá staðreynd, að erlent varnarlið er hér og er nauðsynlegt vegna varna landsins, að tekjustofni í einu eða neinu formi fyrir ríkissjóð. Við fáum greitt fyrir þá þjónustu sem við innum af hendi fyrir varnarliðið. En umfram kostnað, sem við höfum af veru þess hér, er það ekki virðingu okkar samboðið að einu eða neinu leyti að taka við fjármunum úr þess hendi. Ef slíkt er gert í sambandi við tolla- eða skattameðferð einstaklinga í varnarliðinu eða erlendra starfsmanna varnarliðsins, þá er skylda okkar að greiða þá upphæð til baka til þeirrar þjóðar sem innt hefur greiðsluna af hendi.

Ég skil ekki þá taugaveiklun sem hér hefur bryddað á af hálfu hv. þm. Alþb. vegna ummæla minna. Finnst mér skjóta skökku við, þegar þeir annars vegar vilja hafa opnar umr. hér á Alþ. um allar aðgerðir á varnar- og öryggissviði, en átelja hins vegar, að dæmi sé nefnt um hugsanlegar framkvæmdir, sem gætu einhvern tíma komið til mála eða meta þurfi hvort komi til mála, — telja slíkt dæmi til þess fallið að opna dyrnar fyrir ásókn eða óskir erlendra þjóða gagnvart okkur.

Við Íslendingar eigum að vera menn til þess að gera okkur sjálfstæða grein fyrir því, hvað við teljum nauðsynlegt í þessum efnum, öryggis- og varnarviðbúnað okkar sjálfra vegna. Okkur er að vísu vandi á höndum vegna þess að okkur skortir sérfræðiþekkingu, þar sem við höfum ekki hernaðarsérfræðinga og við höfum ekki her og ekki þá þjálfun eða menntun sem tíðkast í þeim löndum sem halda skóla á þessu sviði og hafa sjálfstæðum her eða varnarliði. Engu að síður er það skoðun mín, að okkur beri fyrst og fremst að leggja sjálfstætt mat á umsvif varnarviðbúnaðar í landinu á hverjum tíma. Hitt kann svo vel að vera, að varnarbandalag það, sem við erum þátttakendur í, meti þetta frá sjónarmiði þess og frá sjónarmiði þeirra þjóða eða þess svæðis sem það bandalag tekur til. Við eigum ekki að taka allt saman sem góða og gilda vöru, sem þannig gæti komið fram af hálfu bandalagsins.

Ég ítreka og endurtek: Það hafa engin tilmæli eða óskir komið fram af hálfu Atlantshafsbandalagsins eða Bandaríkjanna um aukin umsvif eða aðgerðir varnarviðbúnaðar hér á Íslandi. En þótt einhvern tíma í framtíðinni kæmu fram slíkar óskir, ættum við Íslendingar að leggja algjörlega sjálfstætt mat á það, hvort við samþykkjum slíkar framkvæmdir, hvort við teljum þær nauðsynlegar okkar vegna, og það mat á auðvitað að framkvæma af ríkisstj. og Alþingi og þeim sem löglega kjörnum yfirvöldum, (Gripið fram í.) Fsp. hv. þm. svara ég játandi. Það var haft fullt samráð við alþm. (Gripið fram í.) Fullt samráð var haft við alþm. á þeim tíma og síðan voru málin rædd á Alþingi þegar það kom saman að hausti.