28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

Varamaður tekur þingsæti

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér er aðeins um aths. að ræða af minni hálfu við ummæli hæstv. forsrh. Hann sagði að sér fyndist það næsta ólíklegt, að ég hefði ekki fylgst svo með því, sem skrifað hefði verið í blöð, að ég hefði ekki orðið var við að rætt hefði verið um flugvallarbyggingu á Norðausturlandi. Jú, það fer vitanlega ekki á milli mála. Ég þekki það mætavel og veit að það hefur verið rætt um að koma upp svonefndum varaflugvelli fyrir alþjóðlegt flug á Íslandi í mörg ár. Ég er því ekkert hissa á því, að hæstv. forsrh, kannist við að það hafi komið fram í umr. á fundum sem hann hefur mætt á varðandi þetta atriði. En hitt er alveg ljóst, að hæstv. forsrh. er fyrsti maður og ég held eini maður sem hefur komið beinlínis fram með þá hugmynd eða viðrað þann möguleika opinberlega, að gerður verði — ekki neinn varaflugvöllur á Austur- eða Norðausturlandi fyrir almennt millilandaflug — heldur hernaðarflugvöllur. Í þeim ummælum, sem ég vitnaði til og hæstv. forsrh. viðhafði á umræddum flokksráðsfundi Sjálfstfl., segir hann beinlínis orðrétt á þessa leið: „Slíkur nýr flugvöllur, reistur í varnanna þágu, kallar á lið og herbúnað til þess að hann komi að gagni.“ Mér er ekki kunnugt um að neinn ábyrgur aðili á Íslandi hafi komið fram með þessa hugmynd opinberlega fyrr. Ég veit ekki til þess, að nokkur aðili hafi rætt um það opinberlega, og ég trúi því ekki, að það hafi farið fram hjá mér og öllum öðrum, að landsmenn hafi rætt um það hér á almennum fundum að þeir væru að óska eftir að komið yrði upp slíku hernaðarmannvirki eins og flugvelli með tilheyrandi herbúnaði, byggðum í varnanna þágu, eins og hæstv. forsrh. ræddi um.

Ég tel að hæstv. forsrh. eigi ekki að gera neina tilraun til þess að skjóta sér undan ábyrgðinni af þessum orðum sem hann hefur þarna viðhaft. Hann hefur komið hér fram með þessa hugmynd eða rætt þennan möguleika fyrstur allra manna í tilefni af umræðum um þessi mál í hans flokki, og af því er um það spurt, hvað liggi hér á bak við.

Hæstv. forsrh. á ekki að gera tilraun til þess að skjóta sér undan ábyrgð sinni í þessum orðum með því að segja: Hafa ekki fleiri verið að tala nm stóran flugvöll á Norðausturlandi? — þar sem menn voru að ræða um allt annað mál og undir allt öðrum kringumstæðum sem áttu ekkert skylt við nein hernaðarmannvirki.

Ég vildi fyrst og fremst gera þessa aths. við það sem hæstv. forsrh. sagði. En auk þess vil ég svo bæta því við, að ég fagna ummælum hans um að hann sé á annarri skoðun en hæstv. iðnrh. varðandi vegagerð okkar Íslendinga. Ég fagna því líka, að hann skuli einnig vera á annarri skoðun varðandi stjórn og rekstur okkar almannavarna. Hann telur að þetta getum við Íslendingar gert sjálfir og þetta eigum við Íslendingar að gera sjálfir, og ég vona að hann láti ekki hrekja sig frá þessari skoðun þótt að honum sé sótt innan hans eigin flokks varðandi þessa afstöðu. Ég tek undir með honum, að það væri okkur ekki sæmandi. En það er okkur ekki heldur sæmandi að hafa hinn erlenda her í okkar landi, og þar skilur auðvitað á milli mín og hæstv. forsrh. um mat á því. En það gefur alveg auga leið um þessi ummæli hæstv. forsrh. varðandi gerð á nýjum herflugvelli, þar sem hann tilgreinir tiltekinn landshluta, að það mun verða tekið eftir þessum ummælum af fleiri en Íslendingum sjálfum. Það verður örugglega mikið umræðuefni meðal Íslendinga. En það er eins og hér hefur verið bent á, það munu fleiri taka eftir ummælum eins og þessum. Og ég vænti þess, að hæstv. forsrh. láti ekki heldur hrekja sig út í það, eftir að hann hefur tekið ákveðna afstöðu, m.a. í sjónvarpsviðtali, að hann sé á móti því að krefja Bandaríkin um sérstakt gjald fyrir aðstöðuna hér á landi, — að hann láti ekki hrekja sig út í það að hann geti þó verið með því að taka gjald ef þurfi að fara að byggja nýjan flugvöll og jafnvel að leggja veg þar á milli. Þessi mál eru af því tagi, að þarna er rétt að menn taki hreina og beina afstöðu og láti ekki hrekja sig úr einu horninu í annað. Það er von mín að það reynist rétt, að hér hafi verið næstum að segja um að ræða einhverja slysni af hálfu hæstv. forsrh. að minnast á þessi mál og þarna liggi ekkert á bak við. En ég get ekki neitað því, að enn hef ég ekki sannfærst um að þarna liggi ekkert meira á bak við. Ég á enn erfitt með að trúa því að menn nefni á þennan hátt jafnalvarlegt mál og þetta og staðsetji framkvæmdirnar í ákveðnum landshlutum af einhverri hendingu. Ég óttast, að þessar hugmyndir séu lifandi einhvers staðar á þeim stöðum, þar sem er hættulegt að þær komist inn, og af því vil ég gjarnan vara bæði hv. alþm. og þjóðina sem heild við þessum hugmyndum. Ég held að menn þurfi að gjalda þar varhug við strax í tíma.