18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls í þessum umr„ taldi að þegar hefði verið sagt það sem þurfti að segja um þetta mál, eftir að hv. þm. Magnús Kjartansson og hv. þm. Jóhann Hafstein höfðu talað og svör ráðh. lágu fyrir.

Það er ekkert einsdæmi að þm. tali stundum í málum til þess eins að tala. Ræða hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur kom mér til þess að standa hér upp af svipuðum ástæðum og hæstv. utanrrh. hafði sem forsendu fyrir orðum sínum hér áðan, að till. kynni að hafa goldið þess með einhverjum hætti að við, sem vorum flm. hennar, höfum átt þess kost að vera um tíma á þessu ágæta sjúkrahúsi sem hér er um að ræða og á að fá þessa auknu þjónustumöguleika. Við slíkum málflutningi tek ég ekki fremur en þeim rökum, að það hafi verið einhverjir aðrir staðir sem hefði átt að byrja byggingu sundlaugar á. Þm.. hvort sem það er hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir eða aðrir, verða að hafa skoðun og kjark til þess að byrja einhvers staðar, ekki skýla sér á bak við það, að það séu 10 eða 20 staðir aðrir sem þurfa á þessari aðstöðu að halda. Þarna var of nánum kunnugleik okkar flm. flutt till. sem ekki var um villst að við höfum fullkomna og nána snertingu við og þekkingu á hvaða mál við vorum að flytja og fylgja. (Gripið fram í.) Við höfum sannarlega þekkt Landsspítalann einnig, og það kemur e.t.v. úr hörðustu átt að einn af forstjórum Framkvæmdastofnunar skuli gera slíka athugasemd, því að eftir málflutningi hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur ætti að loka þeirri stofnun af því að hún gæti aldrei byrjað á neinu verkefni vegna þess að það væru aðrir staðir sem þyrftu á aðstoð að halda líka. Það er tilgangslaus málflutningur að ætla endalaust að skýla sér á bak við slíkt, bara af því að aðrir staðir séu í sama vanda, sem ég efast ekkert um að Landsspítalinn er og fleiri sjúkrahús.

Ósanngjarnt er að láta till. gjalda þess, að fjórir fyrrv. sjúklingar af þessum ágæta spítala eru flm. till. Þetta er gjörsamlega út í hött og eins og ég áðan sagði — einungis talað til þess að tala, en ekki til þess að segja neitt um skoðun sína á sjálfu málinu.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að skírskota til ræðu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar þegar málið var rætt hér í fyrra og þessara orða minna nú hér, sem skýra ótvíræða afstöðu Alþfl. til þessa máls. Ég vona að þingið beri gæfu til þess að taka skýra og hreina afstöðu til þessa máls, ef ekki verður hægt að fá það skýrt fram við fjárlagaumr. hver fjárupphæð verður ætluð til sundlaugarbyggingar við Grensásdeildina.

Ég vil leiðrétta örlítinn misskilning eða missögn nánast sem fram hefur komið í þessum umr., nú þegar með réttu er talað um að reynt hafi verið að notast við sundlaug að endurhæfingarstöðinni að Háaleitisbraut 13, en ekki 17, — að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík, en ekki 17. En sá hængur var við byggingu þeirrar sundlaugar, að samkvæmt stefnumiðun þess félags, sem endurhæfingarstöðina rekur, var hún fyrst og fremst hugsuð til þjónustu við lömuð ungbörn og þess vegna ekki sérstaklega hugsuð fyrir fullorðið fólk, þó að notast hafi verið við hana og með mjög góðum árangri og samstarfi og vilja stjórnar félagsins, sem stöðina rekur, og yfirlæknanna á Grensásdeildinni. Og ég vona sannarlega að sú sundlaug verði notuð svo sem kostur er meðan á byggingu þeirrar sundlaugar stendur sem hér er um að ræða og þangað til hún kemst í notkun. Það ber að nota þá staði, sem við þegar höfum, til hins ítrasta. En það er jafnlítilmótlegt að skýla sér á bak við það, að þarna megi ekki byrja framkvæmdir af því að einhverjir aðrir staðir séu líka í þörf. Þörfin er víða til og ber vissulega að viðurkenna. En það er ekki og má ekki verða endalaust skjól þeim sem vilja draga úr framkvæmdum þessa verkefnis.