29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

34. mál, Djúpvegur

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 35 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um það, hvenær megi vænta þess að ákvörðun verði tekin um tengingu Djúpvegar við aðalþjóðvegakerfi landsins.

Nokkuð langur tími er liðinn síðan hafist var handa um vegagerð við Ísafjarðardjúp með það fyrir augum að tengja Vestfirðina við aðalakvegakerfi landsins. Það má segja að nú í nokkurn tíma hafi verið með hörmungum hægt að fara þessa leið, en enn liggur ekki fyrir, það ég best veit, hvaða leið kunni að verða farin til þess að tengja varanlega Ísafjarðardjúp við aðalakvegakerfið. Undanfarin ár hafa átt sér stað snjómælingar á heiðarvegum á Vestfjörðum. Mér skilst að Vegagerðin sé nú tilbúin að leggja fram tillögu um vegarstæði fyrir varanlega tengingu Djúpvegar við þjóðvegakerfið, og þessi fsp. er fram borin með það fyrir augum, að það fáist helst úr því skorið eða vitneskja um það, hvenær þess sé að vænta að ákvörðun um þessa framkvæmd verði tekin. Vestfirðinga er farið að lengja eftir því, að í þessar framkvæmdir verði ráðist, því að sannleikurinn er sá, að það er aðeins um klukkutíma akstur sem gerir það að verkum að Vestfjarðakjálkinn er úr tengslum við aðalakvegakerfið þetta frá 7–9 mánuði á ári. Það liggur því ljóst fyrir og er ekki nema eðlilegt að á það sé knúið, að farið verði að taka ákvörðun um vegarstæði varðandi varanlega tengingu. Fsp. mín er því fram borin með það í huga, að væntanlega liggi nú fyrir allar þær upplýsingar sem þarf til þess að hægt sé að taka ákvörðun um tengingu Djúpvegar við aðalakvegakerfið.