18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það var aðeins í tilefni af réttmætum ábendingum hv. fyrirspyrjanda um erfiðleika fatlaðra að nota húsnæði ýmissa opinberra stofnana eða athafna sig í því. Ég vil láta koma fram upplýsingar um það, að á vegum menntmrh. Norðurlanda hefur að undanförnu verið fjallað töluvert um þessi mál að því er skólahúsnæði varðar. Ég segi: að undanförnu, en þá nær það raunar yfir þó nokkuð mörg ár. Hér er um samnorrænt samstarf að ræða. Mér fannst ástæða til að geta um þetta í tilefni af þessum réttmætu ábendingum hv. fyrirspyrjanda.

En get aðeins nefnt það hvað snertir aðgerðir hér heima, að í júlí 1974 sendi menntmrn. út orðsendingu til hönnuða skólahúsnæðis um að gæta vel að þessu atriði, og það var þá gert í framhaldi af nýlega höldnum fundi menntmrh. Norðurlanda. Þessi orðsending var síðan áréttuð með bréfi til Arkitektafélags Íslands í mars 1975. Það hefur verið fjallað um þessi mál á norrænni skólabyggingaráðstefnu sem íslenska menntmrn. átti fulltrúa á, og það stendur til að gefa út, áður en langt um liður, ábendingar eða leiðbeiningar til þeirra arkitekta sem fjalla um málefni skólanna fyrst og fremst.

Ég vil, fyrst ég er staðinn upp til að gefa þessar upplýsingar sem mér finnst skipta máli í sambandi við þessar umr., sem eins og oft vill verða hafa farið svolítið inn á almennt svið og ekki alveg þröngskorðast við fsp., geta þess, að það hefur t.d. komið fram eftirtektarvert atriði, að nú er í frv. til byggingarlaga ákvæði um þetta efni, frv. sem vonandi verður að lögum þar sem það er nú endurflutt sem stjórnarfrv. Ég vil jafnframt aðeins minna á það, að í lögum grunnskóla eru ákvæði um að allir skuli eiga kost á skólagöngu við sitt hæfi, einnig þeir sem hamlaðir eru á einhvern hátt, og að í sérkennslureglugerð, sem nýlega var gefin út, eru ákvæði sem eiga að greiða fyrir því að þessu marki verði náð fyrir alla hamlaða, hvort sem það er vegna hreyfihömlunar, eins og sagt er í skólaákvæðinu, eða á annan hátt. Og það má einnig minna á það til þess að sýna að það er hreyfing á þessu sviði, einnig af hálfu fjárveitingavaldsins, að nú er í smíðum við Hlíðaskólann í Reykjavík húsnæði sem sérstaklega er ætlað þeirri deild hreyfihamlaðra sem þar hefur starfað að undanförnu.