29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

34. mál, Djúpvegur

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 35 er fsp. frá hv. 5. þm. Vestf. um það, hvenær megi vænta þess, að ákvörðun verði tekin um tengingu Djúpvegar við aðalþjóðvegakerfi landsins. Svar við þessari fsp. er fengið hjá vegamálastjóra, sem ég leyfi mér að lesa hér:

„Í maí 1976 gaf Vegagerð ríkisins út álitsgerð um tengingu Djúpvegar við Vestfjarðaveg í Austur-Barðastrandarsýslu. Í henni kemur fram, að hagkvæmasta lausnin sé annaðhvort um Þorgeirsdal eða nálægt núverandi vegi um Þorskafjarðarheiði. Á þessum leiðum hafa undanfarandi ár verið gerðar snjómælingar og er talin þörf á framhaldi á þeim, þar sem m.a. tveir síðustu vetur hafa verið óvenjulegir hvað snjóalög snertir, þ.e. hafa verið snjóléttir.

Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga, sem haldið var í Reykjanesi haustið 1976, var samþykkt sú niðurröðun verkefna í vegagerð, að tenging sveita við markaðsstaði innan Vestfjarða skyldi hafa forgang, en næst kæmi tenging byggðarlaganna við aðalvegakerfi landsins. Í samræmi við þessa samþykkt veittu þm. Vestfj. fé í vegáætlan 1977–1980. Ákvörðun um tengingu ætti því að vera hægt að taka áður en sú áætlun rennur út, svo að veita megi fé í hana á næstu vegáætlun.“