29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

34. mál, Djúpvegur

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svar hans, þó að ég hins vegar harmi það eins og það var hér sett fram.

Ég vil í fyrsta lagi taka undir það, sem kom fram hjá hv. 9, landsk. þm„ að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að tenging Vestfjarðakjálkans við aðalþjóðvegakerfi landsins eigi að vera innan hringvegarins, og mér vitanlega hefur ekki verið um annað talað en svo ætti að vera. Samkv. þessu svari hæstv. ráðh, sýnist mér það liggja fyrir, að það er í fyrsta lagi 1980 sem vænta má þess að ákvörðun verði tekin um tengingu Djúpvegar, þ.e.a.s. 3 ár enn, hafi ég skilið rétt. Ég harma það, ef á að láta Vestfirðinga bíða í 3 ár enn eftir því, að ákvörðun verði tekin um hvaða leið skuli farin við tengingu Djúpvegar við aðalþjóðvegakerfið.

Hæstv. ráðh. las hér upp svar frá Vegagerðinni, þar sem vitnað er til samþykktar Fjórðungsþings Vestfirðinga í Reykjanesi haustið 1976, og rétt er það, að samþykktin var á þá leið eins og hér var gert ráð fyrir og túlkað í svari Vegagerðarinnar. En ég vil láta það koma skýrt fram, að ég var andvígur þeirri samþykkt. Ég taldi að með slíkri samþykkt væri verið að gefa stjórnvöldum og þeim aðilum í landinu, sem ákvörðun ættu að taka í þessum efnum, það upp, að heimaaðilar væru í sjálfu sér ekki að knýja á um þessa lokatengingu.

Nú hefur þessu verið breytt á Fjórðungsþingi Vestfirðinga á þessu hausti. Þá var gerð önnur samþykkt sem fór á annan veg heldur en sú sem gerð var haustið 1976.

Sé svo, að þessi samþykkt Fjórðungsþings Vestfirðinga hafi á þennan hátt átt hlut að því, að ákvarðanatöku um tengingu Djúpvegar hafi verið skolið á frest, þá harma ég það. En ég vil að það komi skýrt fram, að þeirri samþykkt var ég andvígur og taldi að þar væri rangt að farið.

Ég vil aðeins ítreka það, að eftir því sem ég best veit eftir upplýsingum frá Vegagerðinni, þá er hún nú tilbúin að leggja fram till. um hvaða leið verði valin til þess að tengja Vestfirði við aðalþjóðvegakerfi landsins. Sé þetta rétt, sem ég hef ekki ástæðu til þess að rengja og vil a.m.k. hafa sem rétt þangað til annað kemur fram, þá er það einungis að menn eru að skjóta sér undan því að taka ákvörðunina og ætla að gera það næstu þrjú árin. Það verður því ekki fyrr en 1980 sem Vestfirðingar mega vænta þess að ákvörðun verði tekin í þessu efni, og það harma ég sérstaklega.

Það þarf ekki að ítreka það hér, það hefur komið fram í opinberum plöggum, síðast frá Framkvæmdastofnun ríkisins, að Vestfirðir eru einangraðasti landshlutinn eins og málum er ná háttað, hvernig sem á samgönguhliðina er litið. Það er því að mínu viti ekki forsvaranlegt að draga það í 3 ár til viðbótar að ákvörðun verði tekin um það, hvaða leið skuli farin til þess að tengja Vestfirði við aðalþjóðvegakerfið. Ég vænti þess að þessi ákvörðun verði endurskoðuð, og það mætti raunar vænta þess, að það væri hægt að taka ákvörðun í þessu efni við endurskoðun vegáætlunar annaðhvort nú fyrir jólaleyfi, eins og ráðgert var, eða strax í upphafi þess að þing komi saman eftir jólaleyfi.