29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

42. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 43 er fsp. frá hv. 9. landsk, þm. um ókeypis símaafnot aldraðs fólks og öryrkja. Þar er spurt um hvað liði störfum n. á vegum samgrn., fjmrn., heilbrrn., og menntmrn., er fjalla skyldi um ókeypis símaafnot aldraðs fólks og öryrkja með lágmarkstekjur og bifreiðakaup fatlaðra, og enn fremur hvenær megi vænta niðurstöðu af störfum n. Við þessari fsp. vil ég gefa svo hljóðandi svar:

Við umr. í Ed. um frv. til I. um Póst- og símamálastofnun s.l. vor sagði ég vegna brtt. um talstöðvar í bifreiðar fatlaðra, að það hefði orðið að samkomulagi á milli samgrh., fjmrh., heilbrrh. og menntmrh., en alla þessa ráðh. snerta þessi mál, að setja í það n. manna, sem færir eru til að fjalla um þessi mál, og sameina þetta þá í eitt og sama málið og finna leið til þess að greiða úr fyrir þessu fólki, sem sannarlega er þörf á að gera og gera það á einn og sama hátt, þ.e. að einn og sami aðilinn annist framkvæmdina. Þetta ítrekaði ég svo við umr. í hv. Nd. um þáltill. um símaafnot aldraðs fólks.

Þessi ummæli mín eru í samræmi við þá skoðun, sem ég hef áður lýst hér á hv. Alþ., að rangt sé að einstakar stofnanir, svo sem útvarp eða póstur og sími, taki á einn eða annan máta við hlutverki Tryggingastofnunar ríkisins, enda er það sannfæring mín, að fjárhæð sú, er þjóðin greiðir þeim er minna mega sín, hvort sem það er fyrir sakir elli eða sjúkdóma, skuli á hverjum tíma nægja fyrir þeim útgjöldum sem eðlileg teljast og almennt eru viðurkennd, án allra skuldbindinga um hvernig fénu sé varið.

Fleiri atriði tengjast þessu máli, svo sem bifreiðakaup fatlaðra, eins og raunar kemur fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

Með hliðsjón af þeim rökum, sem hér hafa komið fram, var ákveðið að heilbrrh. skipaði umrædda n. Hafa þegar verið tilnefndir fulltrúar viðkomandi rn., og eru þeir þessir sem störfin annast: Jón Ingimarsson skrifstofustjóri í heilbrrn., og er hann formaður n., Halldór Kristjánsson deildarstjóri í samgrn., Jón Böðvarsson deildarstjóri í fjárlaga- og hagsýslustofnun og Knútur Hallsson deildarstjóri í menntmrn. Um þetta mál er ekkert frekar að segja en það, að n. er að störfum, og ég get ekki svarað því á þessu stigi málsins hvenær hún lýkur þeim, en ég vonast til að hún hraði störfum sínum og finni þá lausn sameiginlega sem hér er um rætt.