18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég kem hér upp einungis til þess að biðja þingbróður minn, hv. 4. landsk., Eggert G. Þorsteinsson, afsökunar ef hann hefur tekið það sem aðdróttun í hans garð að persónuleg reynsla hans þarna hafi af ásettu ráði átt að fleyta þessu máli áfram. Ég meinti það alls ekki, og ég held að hann hafi af ásettu ráði misskilið orð mín. En hitt er svo annað mál, að ef alþm. eiga ekki að sinna málum öðrum en þeim sem þeir þekkja af persónulegri reynslu, þá er ég hrædd um að störfum okkar hér á Alþ. yrði skrýtilega háttað. Og það sem ég vakti athygli á, var einungis þetta, að hefði þessi þáltill. verið samþ. þegar hún var borin upp, þá hefði það verið með algjörlega afbrigðilegum og óþinglegum hætti. Það er þetta sem vakti fyrir mér og fleirum, sem töldu ekki rétt, hversu brýnt og gott sem málefnið var, að veita því svo greinilegan forgang umfram öll hin stóru góðu málin sem við erum að burðast við af veikum mætti að leysa.

Ég átti að hafa talað hér til að tala. Kannske er það rétt í sumum tilfellum um okkur þm. En ég vil benda á að hv. fyrirspyrjandi hefði getað fengið þau svör, sem þingbróðir hans, Jóhann Hafstein, hafði fengið, með því að spyrja viðkomandi menn sem um þetta vissu, fjmrh. og heilbrrh., hvað þessu máli liði. (Gripið fram í.) Þá hefði fyrirspurn hans í rauninni verið óþörf. (Gripið fram í: Þetta er ekki einkamál mitt.)