29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

42. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðh. kom með þá lagaskýringu áðan, að heimild sé heimild og lög séu lög, og virtist vera að leggja dýpri skilning í lagasetningu á Alþ. með þessu móti. Þetta er mál sem ég hef rætt við einn þann mann sem ég veit löglærðastan í þessu landi. Hann segir mér að orðalag, sem tíðkast hér á Alþ., sé sumt arfur frá því að Alþ. var með dönskum einvaldskonungi og menn töluðu mjög kurteisislega við fulltrúa þessa einvaldskonungs. En hann segir mér einnig, að ef vilji Alþingis komi fram á ótvíræðan hátt, þá skipti þetta orðalag engu máli, það sé skylda ráðh. að framkvæma vilja Alþingis, hvernig sem hann sé orðaður. Það er einmitt rangtúlkun eins og hæstv. ráðh. reyndi að hafa hér uppi sem veldur því, að orðafar í þingsölunum hér á Alþ. er farið að breytast, í staðinn fyrir heimild er farið að skylda ráðh. til að gera eitt og annað. En þetta er ekki í samræmi við túlkun löglærðustu manna á starfsreglum Alþingis og á stjórnarskrárákvæðum, að ráðh. hafi nokkra heimild til þess að gera upp á milli ákvarðana Alþingis eftir orðalagi þeirra.

Hæstv. símamálaráðh, ber skylda til að framkvæma einróma vilja Alþingis í þessu máli. Á meðan hann gerir það ekki er hann að brjóta í bága við þann eiðstaf sem hann undirritaði þegar hann tók að sér ráðherrastörf.