29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

42. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil undirstrika það, að ég tel, að það eigi að framfylgja þessari samþykkt sem allra fyrst, og skil ekki af hverju þetta tekur svona langan tíma. Einnig vildi ég óska þess, að Alþ. fengi að vita um hve marga síma væri hér að ræða. Skiptir það svo miklu máli í hinu mikla fjármálabákni ríkisins, að við getum ekki ráðið við það núna við afgreiðslu fjárlaga?

Það kom einnig fram í máli hæstv. ráðh., að þetta væri nokkuð flókið, og jafnvel að Tryggingastofnunin ætti að leggja nægilega mikla fjarmuni til þessa fólks. En hvað um margt af þessu fólki sem er komið yfir sjötugt? Hefur ekki ríkisvaldið látið eigur þess brenna upp í verðbólgunni án þess að spornað hafi verið nægilega við? Sumt af þessu fólki hefur átt nokkurn sparieyri undanfarin ár, en hann er allur horfinn. Og við treystumst ekki einu sinni til þess að veita því eðlilegan lífeyri.

Ég vil fá hér á borðið sem allra fyrst hugsanlega tölu þessara síma, svo Alþ. geti mótað afstöðu sina nú við afgreiðslu fjárlaga. Annað er ekki sæmandi. Og það er óverjandi að láta þetta dragast ár frá ári. Ég vil leggja mikla áherslu á það.