29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

88. mál, innheimta skemmtanaskatts

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég vil, fyrst þetta mál ber á góma, víkja annarri fyrirspurn til hæstv. ráðh.

Í lögum þeim um heilbrigðismál, sem samþ. voru í tíð fyrrv. ríkisstj. voru ákvæði um það, að hæstv. ráðh. skyldi láta gera áætlun um framkvæmdir á vegum heilbrigðismála, 10 ára áætlun sem síðan skyldi endurskoðuð með tveggja ára millibili í samræmi við þá reynslu sem fengist hefur. Þessi áætlun hefur ekki enn þá séð dagsins ljós. Í tíð fyrrv. ríkisstj. var ráðinn sérstakur starfsmaður í heilbrrn. til þess að vinna einmitt að þessari áætlunargerð. Þessi starfskraftur hætti störfum þar, en engu að síður var það skylda hæstv. ráðh. að sjá um að þetta verk væri unnið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvernig gangi framkvæmd þessa skýlausa lagaákvæðis. Það er ekki um heimild að ræða, eins og menn voru að tala um hér áðan. Það er um skyldu að ræða. Þetta hefur ekki verið framkvæmt enn. Ég tel þetta vera ákaflega mikið stórmál, vegna þess að okkur Íslendingum hættir mjög við því að framkvæma hluti í glundroða. Það var gert á sviði heilbrigðismála í mjög langan tíma, að settar voru smáupphæðir í heilbrigðisstofnanir út og suður, sem dugðu ekki til þess að fullgera nokkurn skapaðan hlut. Ef við viljum vinna skipulega að þessum málum, eins og nauðsynlegt er, verðum við að vera menn til þess að raða verkefnum. En því miður er aftur farið að falla í gamla framkvæmdahorfið.

Samkvæmt áformum fyrrv. ríkisstj. átti geðdeildin við Landsspítalann í Reykjavík að vera fullbúin á næsta ári — algjörlega fullbúin, en ég sé ekki annað en að það gerist á næsta áratug. Einnig áttu framkvæmdir við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að vera fullgerðar á næsta áratug, en ég sé ekki betur en að fjárveitingar stefni til þess að það verði ekki fyrr en á næstu öld. Þetta eru vinnubrögð sem eru herfileg. Þegar talað er um að það sé háð ástæðum í þjóðfélaginu að vera að binda peninga í félagslegum framkvæmdum, þá er það vissulega alveg rétt, að það er það vitlausasta sem hægt er að gera við peninga að festa þá í steinsteypu sem ekki kemur að notum. Það er ákaflega mikið stórmál að unnið sé skipulega að framkvæmd þessara merku laga og að verkefnum sé raðað og þau séu síðan fullgerð á sem allra skemmstum tíma.

Ég vil sem sé beina fyrirspurn til hæstv. ráðh. um það, hvernig þessi mál standi, hvað sé komið langt gerð þessarar áætlunar sem er skylda hæstv. ráðh. að láta semja.