29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

88. mál, innheimta skemmtanaskatts

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Þar kom fram, að að einhverju leyti gætti e.t.v. misskilnings hjá því fólki, sem hefur tekið að sér stjórn heilsugæslustöðva, eða því fólki, sem á að njóta góðs af þeim — nokkurs misskilnings varðandi stöðu rn. í þessum málum. Hitt kom líka fram, að hæstv. ráðh. hefur aðstöðu til þess að hafa þarna áhrif á, og ég vænti þess, að hann geri það og þá til góðs.

Það er rétt hjá hv. 10. þm. Reykv. að með heilsugæslustöðvunum er komin á rétt skipan mála. Menn mega ekki misskilja mig og telja að ég sé að gagnrýna þessa skipan. Það er líka rétt hjá hv. þm., að eflaust er margt af því, sem miður fer í rekstri heilsugæslustöðvanna, byrjunarörðugleikar. En það ætti þá ekki að saka að þeir örðugleikar væru ræddir og reynt að finna leiðir til að bæta þar úr. Og það var einmitt það sem vakti fyrir mér með þessari fyrirspurn, sem ég reyndar lagði fram að beiðni nokkurra forustumann í sveitarfélögum í Borgarfirði. Ég hitti þá fyrir skömmu á fundi þar sem þeir voru að ræða þessi mál.