29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur flutt svo hljóðandi fyrirspurn:

„Hvaða áætlanir eða hugmyndir eru uppi hjá forráðamönnum Skipaútgerðar ríkisins um að bæta sjósamgöngur við Vestfirði?“

Þessi fyrirspurn hv. þm. hefur verið send til umsagnar forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, og leyfi ég mér — með leyfi hæstv. forseta, — að skýra hér frá frásögn hans.

Hjá stjórn og forstjóra Skipaútgerðar ríkisins hafa verið til athugunar hugmyndir um verulegar breytingar á rekstri fyrirtækisins. Er þar um að ræða annars vegar breytingar í átt til bættrar þjónustu án verulegrar fjárfestingar og hins vegar áætlun um fjárfestingu sem mundi gjörbreyta aðstöðu fyrirtækisins og stórbæta þjónustu þess við landsmenn og um leið valda mikilli hagræðingu í rekstri þess.

Bætt þjónusta án mikillar fjárfestingar er fyrri hlutinn. Nýtt leiðakerfi hefur verið í undirbúningi og var fyrirhugað að koma því á á þessu ári. En það hefur tafist vegna vinnudeilna og ónógs tækjabúnaðar útgerðarinnar. Hið nýja leiðakerfi felur í sér vikulegar ferðir skipanna Heklu og Esju, þannig að annað þeirra yrði í vikulegum hringferðum vestur um frá Reykjavík með viðkomu á tiltölulega fáum höfnum. Hitt skipið yrði í svokölluðum pendúl-ferðum, aðra vikuna til Patreksfjarðar, Þingeyrar, Ísafjarðar og Akureyrar og síðan til baka sömu leið, en hina vikuna austur um til Seyðisfjarðar eða Borgarfjarðar og til baka. Þær hafnir, sem ekki yrðu viðkomur á, yrðu tengdar hinum með flutningakerfi á landi. Þá er í undirbúningi samræming á ferðaáætlunum flóabátanna við áætlun Skipaútgerðar ríkisins til þess að bæta strandferðaþjónustuna enn frekar. Hið nýja leiðakerfi felur í sér fjölgun ferða frá Reykjavik til Vestfjarða, Norðurlands og Austfjarða í eina til tvær í viku í stað einnar ferðar á 11–14 daga fresti.“

Vegna hins lélega húsnæðis Skipaútgerðar ríkisins til vöruafgreiðslu hér í Reykjavík hefur ekki verið unnt að taka á móti vörum frá viðskiptavinum hvenær sem er. Það er ljóst að hin fyrirhugaða nýja vöruskemma útgerðarinnar í Reykjavík verður ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi seinni part næsta árs, og þá að því tilskildu að fé verði veitt til hennar á því ári. Til þess að bæta eitthvað þjónustu útgerðarinnar fram að þeim tíma, að hið nýja hús verði tekið í notkun hefur verið ákveðið að taka á leigu hluta af húsi SÍS við Geirsgötu í Reykjavik. Verður þá væntanlega unnt að auglýsa vörumóttöku hvenær sem er. Þá er einnig í athugun að taka upp þá þjónustu að sækja og senda vöru til viðskiptavina og einföldun afgreiðsluhátta með því að sameina hina nýju þætti flutningskostnaðar, þ.e. út- og uppskipun, vörugjald og flutningsgjald, í eitt flutningsgjald sem innihéldi alla þessa þætti.“

Þetta er aðalþátturinn sem hefur verið unnið að til þess að bæta úr því sem hv. 8. landsk. þm. spurði um. Þau atriði önnur, sem drepið var á hér í formálanum, eru miklu stærri í sniðum, en það eru hugmyndir um fjárfestingar og ný skipakaup. Það mál tel ég svo skammt á veg komið og óvíst um hvernig með verður farið, að ég sé ekki ástæðu til að fara út í það. Hins vegar vonast ég til að það húsnæði, sem hefur verið tekið á leigu, geri það að verkum að út í þetta nýja leiðakerfi verði farið nú þegar eða í síðasta lagi um áramót. Ég hef lagt á það mikla áherslu á þessu ári að fylgja eftir áhuga forstjórans í því að breyta þessu leiðakerfi í þá átt, sem hv. 8. landsk. þm. lýsti sem sínu áhugakerfi, og þá um leið að taka landsamgöngur á milli hinna einstöku staða í þágu þessa kerfis svo það geti gengið með eðlilegum hætti.