29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það kom fram í máli hæstv. samgrh. að ýmislegt væri á döfinni hjá Skipaútgerð ríkisins. Það var mér raunar kunnugt um áður, og við hljótum að fagna því, að endurskipulagning og endurbætur á rekstri þessa fyrirtækis virðast vera nú á döfinni í alvöru.

Hæstv. ráðh, talaði um breytta leiðatilhögun og einnig um endurbætur á aðstöðu Skipaútgerðarinnar að því er snertir vöruskemmur. Þetta er allt gott og blessað og mjög nauðsynlegt. En ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum er ég heyrði hann lýsa því yfir, að skipakaup væru skammt á veg komin og óvíst um þau, þannig að ekki tæki því að gera þau að umræðuefni. En einmitt hugmyndir hins áhugasama nýja forstjóra Skipaútgerðarinnar um ný og mjög hagkvæm skip glæddu vonir okkar Vestfjarðaþm. um að mikil bót væri jafnvel á næsta leiti. En til þessa alls þarf að sjálfsögðu fjármuni og það töluvert mikla fjármuni og ekki við því að búast að það komi allt í einu. En að því er varðar einn liðinn í þessari endurskipulagningu Skipaútgerðarinnar, sem er í því fólginn að fækka höfnum, fækka viðkomustöðum og tengja sjóferðirnar landflutningum, þá hljótum við enn og aftur að staldra við þessa staðreynd, að landsamgöngum innan Vestfirðingafjórðungs er enn í dag ákaflega ábótavant. Hinir þröngu firðir með háum fjallgörðum á milli, sem teppast á vetrum vikum og mánuðum saman, gera þessa hugmynd kannske meira en litið hæpna sem forsendur fyrir þeim umbótum sem um er rætt. Þess vegna hljótum við auðvitað að leggja áherslu á að landsamgöngurnar hljóta að haldast í hendur við bættar samgöngur á sjó, ef sjósamgöngurnar í endurbættu formi eiga að ná tilgangi sínum.

Ég vil eindregið taka undir orð hv. 5, þm. Vesturl. að auðvitað hefðum við átt hingað til að leggja meiri áherslu á sjósamgöngur. Það er staðreynd, sem ekki verður móti mælt, að vegakerfi okkar er alls ekki við því búið að taka við öllum þeim miklu þungaflutningum, sem um þá fara og hafa í rauninni gert endurbætur á vegakerfinu ákaflega miklu erfiðari en ella og í sumum tilfellum vonlausar á meðan vegunum er ekki hlíft við þessum stóru og þungu vöruflutningabílum.

Ég tek undir það, sem sagt var í upphafi máls fyrirspyrjanda, að samgöngur við Vestfirði að vetrinum til eru hróplega lélegar. Það líða þrjár vikur oft á tíðum að vetrinum til, og vöruskortur og hvers konar vandræði, sem af því stafa, eru árvissir viðburður og það oft á hverjum vetri. Því eru miklar vonir við það bundnar, að þessar hugmyndir nm bættar sjósamgöngur á vegum Skipaútgerðarinnar komist sem allra fyrst til framkvæmda.