29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mun verða að beita röddinni öllu meira en ég hef gert í dag, fyrst svo er undan því kvartað að það heyrist ekki til mín hér innan þó ekki stærri salar en þessi er. Hitt verð ég að segja út af því, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að fátt er ánægjulegra en þegar manns er saknað. Það er að vísu rétt, að ég er meira fjarverandi en almennt hefur verið af minni hálfu yfirleitt í minni þm.-tíð. En það er misskilningur hjá hv. 5. þm. Vesturl. að ég hafi sinnt kjördæmi mínu sem skyldi, því að þá einu viku, sem ég var fjarverandi, fór ég til Rómaborgar og gekk m.a. á fund páfa og fékk auðvitað fyrirgefningu syndanna. En þangað fór ég sem landbrh. og sat fund FAO og taldi mér skylt að mæta, en þar fór sú vika sem ég hafði frí héðan úr þingsölum. Ég var svo mættur hér á mánudag aftur, átti að vísu annríkt dagana á eftir. En ferðir mínar um kjördæmið urðu fyrst og fremst þannig, að ég varð að eyða í þær kvöldstundum og vökunóttum, en tel mig eiga þær stundir sjálfur. En þetta er önnur saga, og skal ég ekki eyða lengri tíma í það.

Það er alveg rétt sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vesturl., að vegakerfi okkar er ekki undir það búið að taka við þeim þungaflutningum sem orðnir eru. Bæði eru bifreiðarnar orðnar geysilega stórar, þeim eru farnir að fylgja tengivagnar, og allt gerir þetta að verkum að jafnvel þó að í viðhald vega sé eytt miklu meira fé en nokkru sinni fyrr og það jafnvel að raunveruleika, þá er það svo að við höfum ekki í fullu tré við þessa miklu þungaflutninga sem um þá fara. Þess vegna er það nú hugsunin að reyna að koma starfsemi Skipaútgerðar ríkisins á þann hátt fyrir að hægt sé að tengja þetta sem best saman og koma þungavöruflutningunum meira út um landsbyggðina meðfram ströndinni, en ekki eins mikið á vegunum og raun ber vitni. Að vísu er skoðun mín að breyting í þá átt muni ganga með takmörkuðum hraða, m.a. vegna þess að bílarnir eru oft daglega á ferðinni og geta því tekið þær vörur, sem fólk þarf að ná til í flýti, og minna er í kringum þetta heldur en útskipun og uppskipun og annað því um líkt. Þess vegna held ég að sú breyting, sem forstjóri Skipaútgerðar ríkisins vill hafa á að sækja og senda vörur, sé afar mikils virði. Eins held ég að það sé afar mikils virði til þess að fá samstarf við þá aðila, sem vöruflutningana annast, þessa flutninga á milli hafna til þess að skip skipaútgerðarinnar komi á færri staði og geti verið fljótari í ferðum.

Ég vona að sú ákvörðun að taka húsnæði á leigu, þar sem Skipaútgerðin hefur athafnasvæði, greiði mjög fyrir og komi þessu leiðakerfi, sem forstjórinn hefur lagt grunn að, nú þegar til framkvæmda.

Ástæðan til þess, að ég fór ekki út í að ræða framtíðarskipulag þessara mála, var nú fyrst og fremst sú, að ég taldi hvorki mig né aðra hafa rætt það mál nógu vel og undirbúningur þess væri með þeim hætti, að ég væri með því kannske að gefa gyllivonir sem ég vildi ekki eiga þátt í. Hins vegar er ekki þannig, að ég meti ekki mikils þessar till. og sjái að þær eru mjög skynsamlegar. Hins vegar megum við ekki gleyma því, að miklar skuldir okkar erlendis eru líka mikið ræddar núna og einnig það, að okkur skortir fé til þess að fjármagna það sem við þurfum á fjári. Það gerir að verkum að þetta mál getur tafist lengur en ástæða væri annars til.

Út af því, sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði, þá tel ég að samstarf á milli flóabátsins Baldurs og Skipaútgerðar ríkisins sé mjög gott. Og það var eitt af því, sem ég greindi frá í ræðu minni áðan, að nota meira flóabátana eða hafa við þá aukið samstarf, og það tel ég mikils virði bæði fyrir samgöngurnar og fjárhagsstöðu þeirra. Sameinað þing, 25. fundur.