29.11.1977
Sameinað þing: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

60. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm, undirtektir þeirra, og ég undanskil þar ekki hv. þm. Pál Pétursson. Það var talsvert annar tónn í ræðu hans núna en í fyrra, og því fagna ég. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning milli okkar, líka vegna þess að ég tók ekki til máls þegar till. hans og fleiri hv. þm., till. til þál um uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins, var hér til meðferðar, vil ég taka það skýrt fram, að ég styð þá till. En hún er talsvert annars eðlis, svo sem ég vænti, að menn geri sér grein fyrir. Sú till. gerir ráð fyrir gerð áætlunar, en till. sú, sem nú er til meðferðar, gerir ráð fyrir framkvæmdum, og á þessu er náttúrlega meginmunur. En ég læt í ljós þá von, að þegar gerð hefur verið áætlun um uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins, þá fylgi þeirri áætlun framkvæmdir líka.

Ég held að það sé ekki ástæða fyrir neinn hv. þm. að óttast, ef samþ. yrði þetta verkefni sem við erum nú að ræða um, að það skyggði á uppbyggingu vega í snjóahéruðum. Við hljótum að halda því verkefni áfram líka. Ef meira fé af þeim sköttum, sem greiddir eru í ríkissjóð af bifreiðum og þeirra rekstrarvörum færi í Vegasjóð en nú er, þá væri hægt að halda þeim framkvæmdum áfram líka og það með auknum hraða frá því sem nú er.

Varðandi það, sem hv. þm. Páll Pétursson var hér að tíunda um viðhaldskostnað vega með bundnu slitlagi, þá er það vissulega svo að viðhald þeirra kostar fé. En það vill svo til að á þessu ári, 1977, er óvenjulega mikið um yfirlagnir, mér er kunnugt um það, — yfirlagnir sem hafa ekki verið gerðar nú um allmörg ár á vissa vegarkafla. Ég nefni þar t.d. Sandgerðisveginn svokallaða, en þar var lagt yfir nýtt lag vegna þess að hitt var orðið — ég man því miður ekki hve margra ára gamalt. Ég held 3–4 ár hafi verið liðin frá því að fyrst var lögð þar olíumöl, og þar er um verulega umferð að ræða og þ. á m. þungaumferð. Þar fara fram miklir fiskflutningar t.d. Það kunna að vera áraskipti að því, og slíkt kemur að sjálfsögðu fram í vegáætlun, hversu miklu fé er varið til viðhalds vega með bundnu slitlagi. Eins og hv. þm. tók fram, nefnum við þetta bundið slitlag, en ekki varanlegt slitlag. Sannleikurinn er sá að það má víst fullyrða að ekkert slitlag er varanlegt, ekki heldur það steinsteypta. Það sjáum við mætavel nú á Keflavíkurveginum svonefnda, sem og steinsteyptur, en er nú á köflum mjög illa farinn.

Það er að sjálfsögðu augljóst mál að bíll, sem ekkert fer út fyrir Reykjanes eða höfuðborgarsvæðið, endist lengur en bíllinn norður á Siglufirði eða norður í Húnavatnssýslu, ef þeim er ekið jafnmikið. Og það er einmitt þetta sem þessi till. gerir ráð fyrir, að við bætum þarna um. Með bættu vegakerfi spörum við bíleigendum stórfelldar fjárupphæðir og þjóðinni allri, eins og ég sagði áðan, í betri og lengri endingu bíla.

Hv, þm. Jón G. Sólnes lagði áherslu á það atriði till. sem fjallar um að slitlagið verði lagt á vegina eins og þeir eru. Þetta er annað meginefni till, eins og ég tók fram í framsögu, að slitlagið verði lagt á vegina eins og þeir eru. Það var fyrst á s.l. sumri sem gerð var veruleg tilraun í þessa áttina. Þannig var slitlag lagt á kafla Þingvallavegar frá Vesturlandsvegi og upp fyrir Gljúfrastein nú í sumar, og þannig var einnig með veginn frá Keflavíkurvegi og niður í Voga og veginn frá Keflavíkurvegi og niður í Njarðvík. Þetta eru fyrstu kaflarnir, sem hægt er að kalla svo, sem gerð er tilraun með í þessa áttina, — tilraun sem ég er ekki í nokkrum vafa um að muni takast og muni sýna okkur að þannig sé hægt að standa að þessum framkvæmdum.

Varðandi þá heiðavegi, sem hér hafa verið nefndir og eru vissulega hættulegir í hálku, og þarf ekki einu sinni að leggja á þá slitlag til, þá er það augljóst mál að við byrjum ekki að leggja slitlag á þjóðvegina á þeim stöðum. Þeir mæta eflaust afgangi, og ekki er nokkur vafi á því, að það verður að gera þar ákveðnar aðgerðir til þess að fyllsta öryggis sé gætt. Þ. á m. kann víða að vera, eins og reyndar er þegar gert, nauðsyn á að setja upp öryggisgrindur sem kosta að vísu mikið fé. Í fyrra fékk ég uppgefnar tölur um það, hvað km í slíkum öryggisgrindum kostar, og ég held ég fari rétt með þegar ég segi að kostnaður hafi verið 7 millj., þ.e.a.s. jafnmikill og við slitlagið. En við verðum að sjálfsögðu að taka tillit til öryggissjónarmiða, þó að þau kosti mikið fé.

Aðalatriðið er að við hefjumst handa. Ég skal nefna eitt dæmi um nauðsynina á því að hefjast handa við að leggja slitlag á vegi sem þegar hafa verið endurbyggðir. Sannleikurinn er sá, að það er nær því ógerlegt fyrir Vegagerð ríkisins að halda hinum nýgerðu og breiðu vegum við. Þeir fletjast út og halda í sér vatni. Þess vegna var það nauðvörn Vegagerðarinnar á þessu sumri að verja 25 millj. kr. til þess að mjókka Þrengslaveginn. Það þurfti að mjókka hann og kosta til 26 millj, kr., til þess að það væri gerlegt að halda honum við. Sýnu skynsamlegra hefði nú verið, sýnist mér, að leggja slitlag á veginn, þó að umferðin sé ekki orðin það mikil enn að hún gefi beint tilefni til þess. En slæmt er til þess að vita, að svona þurfi að standa að verki. Ef við ætlum ekki að halda áfram að leggja slitlag á hina fjölfarnari vegi, sem hafa verið endurbyggðir, og ég tek þá sem dæmi veginn héðan upp í Hvalfjörð og í Hvalfirði, og það má nefna líka vegi norður í Húnavatnssýslu, eins og í Ásunum, á Blönduósi og í Langadal, þá eyðileggjast þessir vegir ósköp einfaldlega, þeir eyðileggjast, og ég vona að við þurfum ekki að horfa upp á það að farið verða að verja milljónatugum á allra næstu árum til þess að mjókka þessa nýgerðu vegi.

Vegna þess, sem fram kom í ræðu hv, þm. Jóns Árm. Héðinssonar, bendi ég á að till. gerir beinlínis ráð fyrir að unnið skuli að þessum framkvæmdum í öllum landshlutum hvert ár eftir því sem áætlun segir, og á það leggjum við áherslu. Við erum ekki að tala um það, sem stundum hefur áður skeð, að allt miðist við höfuðborgarsvæðið og þaðan höldum við út um land og mætumst svo einhvers staðar á norðausturhorninu. Við leggjum áherslu á að það verði unnið að þessum framkvæmdum sem viðast um land ár hvert.

Að lokum legg ég einnig áherslu á það, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson nefndi, að það sé hinn pólitíski vilji, sem þurfi að fá fram til þess að ráðist verði í framkvæmdirnar með þeim hætti sem till. gerir ráð fyrir.