29.11.1977
Sameinað þing: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

55. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort heimila skuli framleiðslu og sölu áfengs öls

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það þyrfti kannske sérstaka skýringa við að mæla gegn sölu á veiku áfengi í landi þar sem sala á sterku áfengi er leyfð. Það er ósköp eðlilegt að ekki sé auðskilið, hvers vegna nokkrum manni dettur í hug að hættulegt og vafasamt sé að heimila framleiðslu og sölu á áfengum bjór í þessu landi, þar sem við höfum ríkulegt magn af bæði veiku og sterku áfengi. En það er nú svo, að þetta er flókið mál og margir þættir þess erfiðir.

Í fjöldamörgum löndum hefur bjór verið bruggaður öldum saman og drukkinn, og þessi lönd eru mjög misjafnlega á vegi stödd hvað á.hrif áfengis á heilsufar þjóðarinnar snertir. En nýleg dæmi um áhrif áfengs öls höfum við frá þeim þjóðum sem okkur verður oftast að líta til þegar við viljum fá fyrirmyndir, en það eru frændþjóðir okkar á Norðurlöndum. Svíar og Finnar heimiluðu framleiðslu svonefnds „mellanöls“ fyrir nokkrum árum, 10–15 árum, og nú er svo komið að í Svíþjóð er framleiðsla og sala „meilanöls“ þegar bönnuð, og Finnar munu á næstunni gera hið sama. hvers vegna? Engum dettur í hug að það hljóti ekki að vera mjög ríkar og augljósar ástæður fyrir því, að þessar tvær þjóðir haga sér á þennan hátt, því að það er hreint ekkert auðvelt, þegar búið er í við skulum segja 11–12 ár að framkvæma þetta, að fara þá allt í einu að kippa því til baka. En reynsla þessara landa er svo uggvænleg og þeim virðist svo einsýnt að um skaðleg áhrif af þessari framkvæmd sé að ræða, að þeir hafa gripið til þessa ráðs.

Fyrir aldamótin síðustu var það svo, að það, sem olli heilsuleysi og vanda í heilsufari þjóða, voru oftast bakteríusjúkdómar og ýmislegt annað sem erfitt var viðureignar og fólkið sjálft gat ekki á nokkurn hátt ráðið við. En nú er svo komið að þeir skaðvaldar heilsunnar, sem eru mestir og mest áberandi og hafa í raun og veru verst áhrif á heilsufar fólksins, eru þættir sem fólkið ætti sjálft að geta ráðið við. Það eru í fyrsta lagi vímugjafarnir, það er tóbakið, það er ofneysla matar og síðan umferðin. Allt þetta gæti fólkið sjálft haft mikil áhrif á til bóta. En það er ekki auðvelt fyrir 12–14 ára gamla unglinga að gera sér grein fyrir því, að hættulegt sé fyrir þá að súpa á ölflösku sem þeir sjá félaga sína eldri vera að drekka úr allt í kringum sig, enda er nú svo komið að í Svíþjóð, í Danmörku, í Finnlandi og reyndar mjög víða eru 10–12 ára unglingar lagðir inn á spítala með bráða áfengiseitrun vegna bjórdrykkju. Kennslukona nokkur í Danmörku, sem nýlega hélt veislu fyrir nemendur sína sem voru á aldrinum 12–14 ára, vildi gjarnan komast að því, hvaða venjur þessir unglingar hefðu, og var þess vegna ekki að skipta sér af því hvað þeir kæmu með, en þeir áttu sjálfir að leggja til drykkjarföngin. Hún varð fljótlega vör við að það var ekki kók eða sítrón, sem börnin komu með, heldur fyrst og fremst öl. Þegar fór að líða á kvöldið og þau voru orðin allþétt, fór hún að spyrjast fyrir um orsakir þess arna, og af svörum þeirra komst hún að þeirri niðurstöðu, að þau börn þóttu ekki í húsum hæf hjá félögum sínum nema þau tækju upp þessa siði og drykkju öl, þar sem einhver skemmtun var innbyrðis hjá þeim. Hún taldi að á þessu hefði orðið allsnögg breyting á tiltölulega stuttum tíma, en vildi kenna þar um m.a. auknum fjárráðum og síðan því aukna frjálsræði á öllum sviðum sem nú viðgengst í þessum þjóðfélögum.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta. Ég býst við að flestir geri sér ljóst að okkar áfengismenning er nú á viðkvæmu og erfiðu stigi. Flestir gera sér ljóst að a.m.k. milli 90–100% af öllum þeim glæpum, sem framdir eru í þessu landi, eru annað hvort bein eða óbein afleiðing af áfengisdrykkju. Við vitum af reynslu annarra þjóða að framleiðsla og sala á áfengum bjór mundi hér í landi auka áfengisneyslu. Á því er í raun og veru ekki nokkur vafi. Og þar sem svo er hlýt ég að óska eftir því, að þessi till. verði felld.