30.11.1977
Neðri deild: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

92. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þetta frv. stefnir að því að færa rjúpnaveiðitímann einn mánuð aftur, hann hefjist ekki eins og nú 15. okt. heldur 15. nóv., og standi þá til 22. jan. í staðinn fyrir 22. des. eins og núna.

Það, sem vakir fyrir mér með þessu, er að koma á svolítilli friðun að því er varðar rjúpnastofninn. Með þessari tilfærslu á veiðitímanum mundi styttast sá tími sem skotljóst yrði hvern dag á veiðitímanum.

Þetta er í annað sinn sem ég flyt frv. Ég flutti það líka í fyrra og hv. menntmn. d. fjallaði um það og skilaði áliti, þar sem hún lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstj., en það er að mínum dómi aðferð sem kalla má að rota mál. Þessi till. n. kom hins vegar ekki til atkvgr. Málið fékk ekki endanlega afgreiðslu hér í deildinni.

Í nál. hv. menntmn. er þess getið, að Búnaðarfélag Íslands hafi mælt með samþykkt frv., en Finnur Guðmundsson hins vegar lagst gegn því, og með nál. er birt álit Finns Guðmundssonar og því lýkur á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ég hafði satt að segja gert mér vonir um, að hæstv. Alþ. þyrfti ekki framar að verja miklu af dýrmætum tíma sínum í deilur um rjúpuna, en svo er Jónasi heitnum Hallgrímssyni (og nafna hans Árnasyni) fyrir að þakka, að þær vonir virðast ekki ætla að rætast.“

Já. fuglafræðingurinn vonaðist til þess, að Alþ. þyrfti ekki að verja „dýrmætum tíma“ sínum í að ræða um rjúpu. Mín skoðun er sú, að tími Alþ. sé ekki svo dýrmætur að það sé goðgá að þm. tali um fugla. Við Íslendingar, sem erum af þeirri tegundinni sem nefnist maður, erum ekki einu Íslendingarnir. Íslendingarnir eru fleiri. Það eru fleiri en við sem hafa tekið ástfóstri við þetta land, líður vel í þessu landi að því er virðist, kunna vel við sig hér, þykir gott að eiga heima í þessu góða landi. Og ég tei að okkur Íslendingunum, sem flokkast undir tegundina maður. beri skylda til þess að taka tillit til hinna íbúanna. Ef við sannfærumst um það, að svo hart sé gengið gegn einhverjum þeirra hinna, að tilvera þeirra sé í hættu, þá ber okkur skylda til að vekja máls á þessu hér á hinu háa Alþ. og benda á leiðir til úrbóta.

Ég er ekki í neinum vafa um að rjúpnastofninn er í mikilli hættu. Þetta byggi ég á samtölum við bændur og aðra sem eru í nánum tengslum við náttúruna og fylgjast vel með ástandi rjúpnastofnsins. Raunar byggi ég þetta álit mitt líka að nokkru á eigin reynslu. Ég man þá tíð, að þegar maður gekk úti í náttúrunni á sumrin. þá var það ekki fátítt að maður yrði þeirrar gleði aðnjótandi að sjá rjúpnahreiður eða, seinna á sumri, heilu rjúpnahópana, rjúpnamæður með 8 eða 10 eða kannske 12 unga, og varð af þessu talsvert mikil gleði fyrir mann. Þetta er góður félagsskapur, rjúpan, og mikil náttúruprýði. Nú hins vegar seinni árin eða áratugina er þetta orðið næsta sjaldgæft. Ég fer æðimikið upp um holt og hæðir í Borgarfirði, og það er orðið mjög fátítt að maður fái að njóta þess góða félagsskapar. Að heyra karra ropa, það er orðið sjaldgæf músík í Borgarfirði, jafnvel sjaldgæfari en sinfóníutónleikar í Logalandi.

Með öðrum orðum: Það er sannfæring mín að nauðsynlegt sé að gera hér einhverjar ráðstafanir en helst að alfriða rjúpuna. En eins og segir í grg. með frv., þá sýnist mér það vonlaust, og ástæðan er sú, að Finnur Guðmundsson er mjög andvígur slíku. Ég legg ekki í að stíga stærra skref en þetta í þetta sinn.

Að sjálfsögðu mætti tala langt mál um þær athuganir sem Finnur Guðmundsson hefur unnið að nú um tveggja áratuga skeið, en takmark hans er, eins og kemur fram í áðurnefndu áliti, að sýna fram á það, með leyfi forseta, „að ef Íslendingar veiddu nógu mikið af rjúpu, þá mundu hinar alkunnu stofnsveiflur hverfa, þ.e.a.s. hámörk og lágmörk, sem hingað til hafa skipst á, mundu hverfa, en í stað þess mundi koma jöfn og árviss veiði, sem mundi nægja eftirspurn innanlands.“ Menn taki eftir því, að það er afskaplega mikið um viðtengingarhátt í þessum bollalengingum. Þó að þessi „experiment“ hafi staðið í eina tvo áratugi, þá hefur enn ekki fengist þessi niðurstaða, þ.e.a.s. að alltaf megi ganga út frá því sem vísu, að í landinu sé nógu mikið af rjúpu til þess að það passi í jólamatinn handa okkur. Ég veit ekki hvað mönnum kann að virðast að þessar tilraunir eða athuganir eigi að standa lengi, en mér sýnist að hugsanlegt sé að endanleg niðurstaða fáist ekki fyrr en þessi „experiment“ hafa staðið svo lengi, að þegar búið verði með hámörkin og lágmörkin, þá verði líka búið með rjúpnastofninn.

Eftir að ég lagði frv. fram nú öðru sinni hef ég hitt að máli menn sem láta sig þessi mál varða, og margir þeirra hafa gert þá aths. við þetta frv., að það feli ekki í sér styttingu veiðitímans. Þeir segja: „Þú áttir að leggja til að veiðitíminn yrði styttur um helming“ — m.ö.o. að hann hæfist, eins og lagt er til í frv., 15. nóv., en svo lyki honum 22. des., tekinn af seinni mánuðurinn. Ég tek alveg undir þetta og beini því til þeirrar n., sem fær málið til athugunar, — það er reiðilaust af hálfu flm. frv. að þessi till. sé tekin til greina og veiðitíminn styttur um helming.

Ég vona að menntmn. beri gæfu til þess að mæla með þessu frv. þegar það kemur nú fram í annað sinn. Hún er nú orðin einu árinu eldri, hv. nefnd, og þá væntanlega líka að sama skapi vitrari.