02.12.1977
Neðri deild: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Hinn 19. des. 1974 voru samþ. lög á Alþingi um hreyt. á lögum um löndun á loðnu til bræðslu. Í þessum lögum voru ákvæði til bráðabirgða um skip það, sem frv. þetta fjallar um, og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 33 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, skal m/s Ísafold, 800 lesta skipi frá Hirtshals í Danmörku, vera heimilt að veiða loðnu í landhelgi og landa henni á svæðinu frá Patreksfirði norður um til Seyðisfjarðar sem íslenskt skip í febrúar og mars 1975, enda hlíti það reglum er sjútvrn. setur, sé rekið af íslenskum aðila og áhöfn þess sé íslensk.“

Bráðabirgðaákvæði þetta var samþ, í Ed. án teljandi umr., en í Nd. urðu miklar umr. um málið og klofnaði sjútvn. d. í afstöðu sinni til málsins. Þau meginatriði, sem um var deilt, voru annars vegar, að hér væri um afmarkað tilfelli að ræða sem ekki veitti neitt fordæmi, en hins vegar það sjónarmið, að um er að ræða málefni, sem snertir fiskveiðilögsöguna og landhelgina, og væri þess vegna varhugavert að samþ. það vegna fordæmis sem það kynni að skána. Sú skoðun varð ofan á, að í þessu væri verið að jafna saman tvennu ólíku, annars vegar milliríkjasamningi um fiskveiðiréttindi til handa þegnum annarra þjóða og hins vegar í þessu umrædda tilfelli undanþágu til einkaaðila um takmarkaðan tíma fyrir eitt skip sem gert er út af íslenskum aðila og skipað er íslenskri áhöfn og snerti ekki á nokkurn hátt okkar landhelgismál.

Fiskifræðingar okkar telja að mikið magn loðnu sé í sjónum, svo að óhætt sé að veiða 1–11/2 millj. lesta árlega af henni. Þetta álit þeirra er ekkert leyndarmál og er þekkt í öllum nágrannalöndum okkar og víðar hjá þjóðum sem áhuga hafa á fiskveiðum í Norður-Atlantshafi. Sóknarmöguleikar íslenskra skipa í dag og á næstu missirum eru ekki svo miklir að stofninn sé í hættu þess vegna. Sú kenning, að hægt sé að geyma þá loðnu í sjónum, sem við sjálfir veiðum ekki, sem nokkurs konar varasjóð til seinni tíma, er ákaflega vafasöm, svo ekki sé meira sagt. Takmarkaðar heimildir þessu eina skipi til handa hafa m.a. þá þýðingu að skapa aukna atvinnu meðal landverkafólks á þeim stöðum sem landað er. En þýðingarmeira er þó, að þær loðnuverksmiðjur, sem fjærst aðalaflasvæðum liggja, fá hráefni til vinnslu sem þær mundu ella ekki fá. Þetta mun að sjálfsögðu bæta hag þeirra og styrkja rekstur þeirra, gera þeim frekar kleift að taka á mótt loðnu um lengri tíma ársins en áður og stuðla þar með að bættri móttöku á lengri loðnuvertíð. En fyrst og fremst verður þetta loðnuveiðisjómönnum í heild til hagsbóta vegna lagaákvæðanna um verðlagningu sjávaraflans. En í þeim lögum segir, að það eigi að taka tillit til hags vinnslufyrirtækjanna auk verðs á erlendum mörkuðum o.fl. Og bættur hagur loðnuverksmiðja þýðir hækkað afurðaverð til sjómanna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa langa tölu í þessu sambandi um hækkandi gjaldeyristekjur af auknum útflutningi sem þetta skip gæti skapað fyrir okkur. Öllum hv. þm. mun vera fullljós sú staðreynd, að það eru aðeins tiltölulega fá skip í íslenska flotanum sem hægt er að leggja á þá hættu, bæði á skip og áhöfn, að fara bæði fyrir Horn og Langanes, þegar þessi tími árs er kominn, með fullfermi af loðnu, hættulegasta farm í fiskiskipi sem hægt er að hafa samhliða síld og þess konar afla. Það er stutt síðan eitt stærsta loðnuveiðiskip okkar í ekki tiltölulega slæmu veðri lá undir áföllum og var hætt komið með loðnufarm við Norðurland. Og ég held að sú stefna hljóti að verða uppi hjá þeim sem stjórna löndun loðnunnar, að þeir hreinlega stöðvi hin minni skip eða vísi þeim á aðrar hafnir heldur en þær, sem hafa hættur í för með sér ef skipin ættu að landa þar, ef þau þyrftu að fara fyrir Horn eða Langanes í tvísýnu veðri, enda tel ég sjálfsagt að það sé haft í huga þegar skipað er á löndunarhafnirnar.

Við atkvgr. um þetta bráðabirgðaákvæði á sínum tíma hér í hv. d. eftir 2. umr. var það samþ. af 21 þm., en 8 þm. voru á móti, og þannig var þetta frv. endanlega samþ. á Alþ. 19. des. 1974. En sú heimild, sem þetta skip og útgerð þess fékk, var þó aldrei notuð og lágu ýmsar ástæður til þess.

Með þessu frv., sem við flytjum nú, ég og samnefndarmenn mínir í hv. sjútvn. Nd., fyrir utan einn þeirra, er breyting gerð frá fyrri ákvæðum á þann veg, að lagt er til að heimildin veitist til ársloka 1978 og að loðnunefnd geti, þegar þörf krefur og ef íslensk skip eru fyrir með afla, beint m/s Ísafold til hafna er liggja fjarri aðalveiðisvæðinu hverju sinni og þannig girt fyrir árekstra milli íslenskra sjómanna um löndunarröð og væntanlega tryggt verksmiðjum fjarri veiðisvæðinu nokkurt hráefni, sem ella væri ekki gert eins og ég hef þegar sagt.

Ég held að með þessu ákvæði og þessari breytingu frá því, sem áður var í þessum bráðabirgðaákvæðum, sé nokkuð komið á móti gagnrýni sumra þeirra loðnuskipstjórnarmanna sem hafa fundið að þessu einstaka, afmarkaða leyfi, þó ekki að öllu leyti. Nú síðast hafa komið frá þingi yfirmannasamtakanna mótmæli gegn því, að þetta yrði gert á Alþ., og með hliðsjón af því tel ég sjálfsagt að hv, n. sjútvn. d., sem ég legg til að málið fari til að lokinni þessari umr., sendi málið til þeirra til umsagnar ásamt Landssambandi ísl. útvegsmanna og Sjómannasambandi Íslands og samtökum mjölframleiðenda, þannig að þessir fjórir aðilar, sem eru beinir hagsmunaaðilar, fyrir utan þjóðina alla, geti komið með umsagnir sinar til okkar hér á Alþ. og n. þá að lokum geti lagt fyrir hv. d. álit sitt, m.a. byggt á því sem fram kemur frá þessum hagsmunaaðilum. Við flytjum frv. að beiðni þeirra íslenskra sjómanna, sem eru á skipi þessu, og hinna íslensku eigenda sem þar eru að baki.

Herra forseti. Ég legg til að þegar umr. er lokið verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.