02.12.1977
Neðri deild: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég hef í raun og veru litlu við það að bæta, sem 1. flm, þessa frv. sagði um þetta mál og sömuleiðis hv. 5. þm. Suðurl. En ástæðan fyrir því, að ég bið ekki sjútvn. að flytja þetta frv., er sú, að ég tel að það eigi að vera fyrst og fremst frumkvæði þm. og það úr öllum flokkum, en ekki ríkisstj., hvort eigi að gera undantekningu um atriði eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Mér fannst réttara að áhugamenn í þessu máli leituðu til þm. um það, en ekki til ríkisstj.

Eins og fram hefur komið í ræðum þessara tveggja þm., þá er hér um takmarkað leyfi að ræða til ákveðins tíma. Það hefur auðvitað sína kosti og sína galla. En ég held að það sé ekki verið að skapa neitt alvarlegt fordæmi þó að þetta frv, verði samþ. Hér er um nokkuð sérstætt mál að ræða. Á skipinu er alíslensk áhöfn og Íslendingur er eigandi þess að ég held að 1/3. Það skiptir töluvert miklu máli og sömuleiðis hitt að útgerð þessa skips tekur á sig þær kvaðir að fylla í skörðin hjá verksmiðjum sem eru á hverjum tíma lengst frá veiðisvæði, Hitt er svo aftur galli við þetta mál, það sem hv. 5. þm. Suðurl. tók fram. En ég fyrir mitt leyti persónulega, — ekki fyrir hönd ríkisstj., ég hef ekki rætt málið þar, — ég er samþykkur þessu frv. og get stutt það vegna þess að það er til afmarkaðs tíma og innan mjög þröngra marka og með þeim skilyrðum sem verða til góðs fyrir þá staði sem lengst verða á hverjum tíma frá loðnumiðum.