02.12.1977
Neðri deild: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, þó að í raun og veru væri ekki mikið á þeim að græða efnislega.

Hann gefur þá meginskýringu á fylgi sínu við þessa undantekningin, að hér sé um loðnu að ræða og við getum ekki veitt nema liðlega 800 þús. tonn af henni, á sama tíma og óhætt sé að veiða að mati fiskifræðinganna – en ekki er að vísu alltaf farið eftir áliti þeirra — 11/2 millj. tonna, tæplega helmingi meira en við veiðum, þess vegna megi veita leyfi til loðnuveiða skipi í Efnahagsbandalaginu sem er að 1/3 eign Íslendinga og með íslenskri áhöfn. Við getum e.t.v treyst því, að þetta sé svo ómerkilegt og lítið mál að það fréttist ekki. En við skulum vona að fylgi við þetta með þeim röksemdum, sem hæstv. ráðh. flytur, verði ekki skilið sem tilboð til Efnahagsbandalagsins um loðnukvóta.

Varðandi bandaríska markaðinn, þar sem svipað gæti hæglega gerst, en þó í allt öðrum tilgangi, er að sjálfsögðu hárrétt hjá hæstv. ráðh., að við eigum þar voldugar verksmiðjur og Sölumiðstöðin og Sambandið hafa staðið sig með afbrigðum vel, þó að við séum að vísu sá útlendi kapítalisti sem kemur og græðir þar á ódýru, mestmegnis svörtu vinnuafli. En látum það gott heita. Við berjumst um markaðinn með aðferðum sem þarna tíðkast. Hitt er ljóst, að það er til þarna vestra sterkur vilji til að byggja upp fiskveiðar á Atlantshafsströnd Bandaríkjanna. Ég hef lent í því á alþjóðlegum fundum að deila við þm. frá Massachusetts um togaraveiðar og annað slíkt. Það leynir sér ekki að þm. þar er mikið áhugamál að skapa þá aðstöðu að fiskveiðar stóraukist þar, og þá þarf ekki að taka fram að það aflaumagn kæmi þar á land, en færi ekki með verksmiðjuskipum austur fyrir tjald, eins og verið hefur, eða til Japans. Það gæti orðið samkeppnismagn við verksmiðjur okkar og afla. Þess vegna spurði ég hvort menn hefðu íhugað þessi mál vandlega. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegra að gera einhverjar ráðstafanir til að eiga aðild að afla þarna heldur en eiga verksmiðjurnar sem vinna úr aflanum, þó að hvort tveggja færist að vísu fjær því, sem á að vera okkar tilgangur, að byggja á heimaafla og útvega fólkinu hérna megin hafsins sem besta afkomu. En dæmin eru mörg, og það er ekki langt síðan 3 eða 4 bátar, sem þá voru taldir ágæt fiskiskip, sigldu frá Ísafirði vestur til Nýfundnalands. Menn vissu raunar ekki nánar hvað þar var að gerast. En það hefði vel getað verið þróun mála sem stefndi að því að frv. líkum þessu færi fjölgandi.

Ég vil að lokum ítreka það, að ég hef fyllstu vinsemd gagnvart aðilum þessa máls, enda þótt ég veki máls á því og veki athygli á því. Þó að við segjum að þetta sé ekki fordæmi, þá segja menn það venjulega þegar þeir eru að gefa fordæmi. Það er þess virði að íhuga hvaða flækjur gætu skapast í kringum mál eins og þetta, sérstaklega þegar öll fiskveiðiréttindi eru á jafnóvissu stigi og þau eru nú bæði í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.