05.12.1977
Efri deild: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

Umræður utan dagskrár

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Það er rétt, sem komið hefur fram í þessum umr., að á Þórshöfn er nú við mjög alvarleg vandamál að etja í atvinnulífi staðarins og þá jafnframt í byggðamálum í Þistilfirði öllum. Fyrir nokkrum árum steðjaði mikill vandi sérstaklega að landbúnaði í Þistilfirði vegna stórskemmda af kali á ræktunarlöndum manna ár eftir ár, og þá lá það alveg ljóst fyrir öllum, sem um þau mál hugsuðu, að ef þau vandamál hefðu orðið óyfirstíganleg og menn orðið að hverfa frá búum sinum og bændabýlum í Þistilfirði, þá hlaut sjávarþorpið, sem vissulega stóð ekki of sterkt, að verða fyrir þeim áföllum að óvíst væri um framhald byggðar eftir slíkt. Alveg eins er það nú, að ef varanlegir stórkostlegir örðugleikar verða í atvinnumálum Þórshafnarbúa, þá er vissulega byggðinni í sveitinni hætt. Þessi vandi er stór og hann er bráður vegna þess, eins og hér hefur verið margtekið fram, að tiltölulega mjög stór hluti Þórshafnarbúa er atvinnulaus eins og er. Það er búið að vinna mikið í þessum málum, en þó hefur ekki enn þú fundist niðurstaða sem tryggi að togari Þórshafnarbúa komist fljótt til veiða og afli hráefnis fyrir frystihúsið á Þórshöfn, svo að atvinnulíf geti aftur færst þar í svipað horf og verið hefur að undanförnu.

Það hefur mikið verið unnið í þessum málum, eins ég ég sagði, og ég treysti því fullkomlega að niðurstaða þeirrar vinnu verði sú að takast megi að kom.a frystihúsinu í fulla starfrækslu og þar með atvinnulífinu aftur í gang. Það er mjög slæmt ef þetta dregst nokkuð verulega enn. Og ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það eru margar hliðar á máli sem þessu. Þó að vissulega séu ýmsir formlegir örðugleikar, í sambandi við lausn þess, þá eru geysimiklir örðugleikar, bæði fjárhagslegir og mannlegir örðugleikar, í sambandi við það að svona mál dragist mjög á langinn.

Ég viðurkenni að það hefði verið mjög æskilegt, að það hefði verið hægt að reka verksmiðjuna á Þórshöfn sem síldarverksmiðju og það strax á þessum vetri, en á því mun því miður ekki vera möguleiki. Það hefur ekki fengist fjármagn enn til þess að koma verksmiðjunni í rekstrarhæft ástand. Það er þó hugur í ýmsum þeim, sem athugað hafa þessi mál, að svo megi verða, og mér er kunnugt um að endurbygging eða viðgerð verksmiðjunnar og starfræksla er meðal þeirra kosta sem taldir eru líklegir til þess að auka verðmætasköpun í loðnubræðslu hér á landi. Verksmiðjan er nú til sölu, ef svo viðunandi boð fæst, eftir því sem ég best veit, að kaupverð hennar dugi til þess að koma rekstri togarans vel í gang aftur. Það eru vafalaust misjafnar skoðanir á því, hversu mikils virði slík verksmiðja sem þessi er. En ef verð hennar væri borið saman við verð á nýrri verksmiðju, þ.e.a.s. að svo miklu leyti sem hún er í rekstrarfæru lagi eða að svo miklu leyti sem það kostar að koma henni í fullkomið lag, þá er verðmæti verksmiðjunnar mikið.

Ég vil taka undir það, að það hefði verið æskilegt að Þórshafnarbúar hefðu getað rekið þessa verksmiðju sjálfir. Það er þó í raun og veru aukaatriði. Aðalatriðið er að þessi tvö atvinnutæki staðarins, togarinn annars vegar, og það strax, og verksmiðjan hins vegar, þó seinna verði, komist í gang og megi verða til frambúðar undirstaða að atvinnulífi á Þórshöfn og við Þistilfjörð.

Ég vil endurtaka það, að ég treysti því að þessi mál verði leyst þannig að allir, sem eiga þar hagsmuna að gæta, megi vel við una. En ég vil leggja áherslu á að þarna þarf að vinna bæði fljótt og vel.