05.12.1977
Efri deild: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

Umræður utan dagskrár

Forsrh.(Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég held að þessar umr. sýni það ljóslega, að ríkisstj. verður ekki gagnrýnd fyrir að hafa ekki áhuga á að leysa vandamál þeirra Þórshafnarbúa eða fyrir að hafa ekki hugað að atvinnulífi þar á staðnum á umliðnum árum. Það er enginn vafi á því, að af opinberri hálfu hafa verið gerðar mjög margar ráðstafanir einmitt til þess að efla atvinnulíf þar fyrir norðan. En ég kvaddi mér nú hljóðs í lok þessara umr. til þess að mönnum sé ljóst, að ríkisstj. hefur sem slík ekki vald til þess nema með atbeina Alþingis að leysa þessi mál, ef samningaleiðin er ekki farin. Það er úrræði í þessu máli, eins og hér hefur komið fram, að Síldarverksmiðjur ríkisins kaupi þessa verksmiðju. Stjórn Síldarverksmiðjanna er sjálfstæð og ber ábyrgð á rekstri fyrirtækisins sem slíks og er kosin af Alþ. m.a. og hlýtur því að meta stöðuna í þessu máli út frá því sem henni þykir líklegast. Auðvitað ætlast ég til og ríkisstj. í heild, að hún taki tillit til óska og tilmæla af hálfu ríkisstj. Engu að síður er hér um að ræða sjálfstæða stjórn, og við viljum ekki að sjálfstæði stjórnar slíks fyrirtækis eða einkum ábyrgð stjórnar slíks fyrirtækis sé minnkuð með því, að hún geti borið fyrir sig að hún hafi ekki ráðið framvindu mála.

Ég vil þessu til viðbótar segja það, einmitt með tilvísun til þess sem hér hefur komið fram, að Þórshöfn er ákaflega mikilvægur hlekkur í byggðakeðjunni, að þetta hlýtur að vera verkefni sem stjórn Byggðasjóðs, stjórn Framkvæmdastofnunarinnar verður að taka til meðferðar. Það er m.a. þess vegna, sem Byggðasjóði er fengið svo mikið fjármagn til umráða, að hann sé þess megnugur að leysa að einhverju leyti vandamál sem þessi. En þar er einnig um sjálfstæða stjórn að ræða, sjálfstæða þingkjörna stjórn, raunar úr hópi þm., og þeir verða að bera eins og stjórn Síldarverksmiðjanna sjálfstæða ábyrgð á gerðum sínum. Ríkisstj. hefur beint til þeirra tilmælum og óskum og vænst þess, að eftir þeim væri farið. En við skulum segja að hvorug þessara stjórna færi eftir þessum tilmælum og óskum sem fram hafa verið bornar. Þá á ríkisstj. það úrræði eftir að bera mál þetta undir þingheim í heild. — Það gæti t.d. komið til. ef við vildum að Þórshafnarverksmiðjan væri ein af síldarverksmiðjum ríkisins, að breyting þyrfti að eiga sér stað á lögum. Við getum líka hugsað okkur að ef stjórn Byggðasjóðs treystist ekki til að veita fjármagn til lausnar á þessu vandamáli, þá verði ríkisstj. að óska eftir fjárveitingu af hálfu Alþ. til að leysa þetta vandamál.

Ég bendi á þetta til þess að mönnum sé það ljóst, að ríkisstj. skipar ekki fyrir í þessu efni og á ekki að skipa fyrir í þessu efni. Ég vil líka leggja áherslu á það, að hér er um svo mikinn fjárhagsvanda að ræða til viðbótar þeirri fjárfestingu, sem þarna hefur átt sér stað, að nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir að viðbótarfjárfesting leysi vandann og traustur grundvöllur sé lagður fyrir atvinnulíf á staðnum, það verði ekki til ónýtis að veita aukið fjármagn til viðgerðar á togaranum.

Ég legg á það höfuðáherslu við lausn slíkra mála sem þessara, að lagður sé grundvöllur að því að staðarmenn geti rekið fyrirtæki sín með fjárhagslegri ábyrgð sinni, ábyrgðin sé flutt heim í hérað, og unnt sé að ætlast til þess af Þórshafnarbúum að reka atvinnulífið á staðnum á eigin ábyrgð og áhættu. Auðvitað þarf þá að skapa þeim fjárhagslegan grundvöll til þess, og ég vonast til að meðferð þessa máls, sem ríkisstj. hefur unnið að og fulltrúar hennar, leiði til þeirrar niðurstöðu.