05.12.1977
Neðri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

103. mál, gjaldþrotalög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka tveimur hv. ræðumönnum fyrir góðar undirtektir undir þetta frv. Ég hef auðvitað ekki á móti því, að í sambandi við þetta mál og þetta frv. sé athugað það málefni sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vék að. En ég held þó að menn muni komast að þeirri niðurstöðu, þegar það mál er athugað, að það eigi betur heima í sérstökum og sjálfstæðum lögum, eins og gert hefur verið. Það efni, sem þar er fjallað um, er talsvert annars eðlis en það sem fjallað er um í gjaldþrotaskiptalögum. Það er félagslegs og tryggingalegs eðlis, enda hygg ég, þó að ég muni það ekki alveg, að þessi lög um heina ábyrgð á greiðslu kaupgjalds úr gjaldþrotabúi hafi verið undirrituð af félmrh., þannig að ég skal ekkert segja á þessu stigi um þær efnislegu aths. sem hv. þm. kom fram með í sambandi við þá lagasetningu og þau lög, Það má vei vera að þær séu á rökum reistar. Það má vel vera að það þurfi að gera breytingar á þeim lögum í samræmi við þær breytingar sem hér hafa orðið á ýmsum sviðum. En þá held é g að þær breytingar eigi heima í sambandi við þau lög, en ekki gjaldþrotalögin, þó að ég, eins og ég sagði, hafi auðvitað ekki á móti því að þetta málefni sé hugleitt og athugað í sambandi við gjaldþrotameðferðina.

Hitt var svo það, sem kom fram í hans máli og er ákaflega athyglisvert og mikið áhyggjuefni, bæði mitt og annarra sem koma nálægt þessum málum, og það er sá dráttur sem verður á ýmsum greiðslum, m.a. til byggingarmanna t.d. og annarra. Hafa vaknað jafnvel grunsemdir um það, að menn reyndu að draga á langinn greiðslur sem mest þeir mega og færu fyrir dómstóla með slíkar kröfur, jafnvel alla leið upp í hæstarétt, þó að í raun og veru sé engin vörn í málinu, aðeins til þess að draga greiðsluna. Og þannig hefur verið háttað dómum í þessum efnum, að dómstólar hafa verið heldur aðgætnir í ákvörðun vaxa, þannig að það er kannske ekki fjarri sanni að menn hafi getað talið sér hagnað í því að þvælast fyrir og greiða ekki réttmætar kröfur fyrr en eftir dúk og disk, þegar fenginn hefur verið lokadómur um þetta. Og þegar málin ganga ekki fljótar fyrir sig hjá okkur en raun ber vitni, þá getur verið að það sé hægt að draga þetta æðimikið á langinn. Það er þessi þáttur í máli hv. þm, sem ég tel sérstaklega athyglisverðan, og það er málefni sem ekki verður komist hjá að gefa alveg sérstakar gætur á næstunni og reyna að mæta með einhverjum ráðum.