06.12.1977
Sameinað þing: 26. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hafa orðið við þeim tilmælum sem ég bar hér fram á þingfundi fyrir nokkrum dögum, en hann var þá Fjarverandi, svo sem hann gat um áðan. Ég vil einnig fagna því, að hæstv. iðnrh. skuli gefa um það yfirlýsingu hér á Alþ. að þau ummæli, sem eftir honum voru höfð í dagblaðinu Vísi og ég gerði hér að umtalsefni, hafi verið rangt heftir honum höfð. Það var ekki síst ástæða til þess fyrir hæstv. iðnrh. að gefa slíka yfirlýsingu hér á hinu háa Alþ., þar sem þessi ummæli, sem dagblaðið Vísir taldi hæstv. ráðh, hafa viðhaft á flokkráðsfundi Sjálfstfl., voru ekki aðeins tilgreind einu sinni í dagblaðinu Vísi, sem hingað til hefur verið talið hliðhollt Sjálfstfl., heldur sá ritstjóri Vísis, Þorsteinn Pálsson, ástæðu til þess að taka sérstaklega fram, að frásögn Vísis af ummælum hæstv. ráðh. á flokksráðsfundi Sjálfstfl. hafi verið í einu og öllu rétt eins og frá henni var skýrt í Vísi. Þetta var tekið fram öðru sinni í dagblaðinu Vísi í tilefni af því að hæstv. ráðh. hafði borið frásögn Vísis til baka í Morgunblaðinu.

Ég tek það fram, að ég vil trúa því að hæstv. ráðh. hafi gefið hér réttar upplýsingar um ummæli sín og dagblaðið Vísir farið þar rangt með, og það er út af fyrir sig gott.

Ég vil ekki fara hér út í að ræða í löngu máli um hin ýmsu atriði sem hæstv. iðnrh, talaði um. Þau voru víst ein átta, þar sem hann taldi að ástæða væri til að gera breytingar af ýmsu tagi í sambandi við fjármálaleg samskipti við bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli. Ég kemst þó ekki hjá því að vekja athygli á einu þessara atriða.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að víðast hvar annarsstaðar í nálægum löndum, sérstaklega mun hann hafa talað þar um Norðurlönd, væru viss tengsl á milli almannavarna í viðkomandi landi og þeirrar starfsemi sem fram færi á vegum hers viðkomandi lands, og ráðh. minntist einnig á að það væri ekki óeðlilegt að hinu svokallaða varnarlið á Keflavíkurflugvelli væri ætlað að verja ekki aðeins landið, heldur líka fólkið. Þetta kann að sýnast hljóma vel. En hæstv. ráðh. talaði um það í þessu sambandi, að hér væri ástand vega og brúa með þeim hætti að erfitt kunni að reynast að flytja fólk í skyndi frá heimahögum sínum og á aðra staði sem kynnu að vera taldir tryggir, ef um hernaðarástand væri að ræða. Ég gat ekki komist hjá því að skilja orð hæstv. iðnrh. á þann veg, að hann væri þarna að tala um það í þessum efnum eða gefa það í skyn, að í raun og veru mætti lita svo á að uppbygging vega- og brúakerfis á Íslandi væri hluti af vörnum landsins. Ég veit ekki hvort þarna er um misskilning að ræða. En ég vildi gjarnan heyra aðeins nánar frá hæstv. iðnrh., hvort hann telur þrátt fyrir allt, þrátt fyrir það að rangt hafi verið eftir honum haft í dagblaðinu Vísi, — þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort hann telji koma til greina að ætla þeim erlenda her, sem dvelur á Keflavíkurflugvelli, að kosta vega- og brúagerð á Íslandi utan þess svæðis, þar sem herinn dvelur, — kosta þessa vega- og brúagerð að meira eða minna leyti.

Ég tel að hæstv. forsrh. hafi í umr. um daginn gefið skýra og afdráttarlausa yfirlýsingu af sinni hálfu í þessum efnum. En mér fannst á orðum hæstv. iðnrh. að afstaða hans væri engan veginn jafnljós. Ekki síst vegna þess að iðnrh. taldi ástæðu til að kveðja sér hljóðs utan dagskrár í tilefni af þeim umr, sem fóru hér fram fyrir fáum dögum, þá vænti ég þess að hann sé mér sammála nm það, að hollast sé að menn dylji sig ekki í þessum efnum á einn eða neinn veg, heldur segi skoðun sína hreint út, ekki síst þegar grunur leikur á að um ágreining sé að ræða innan sjálfrar ríkisstj. og í hópi þingflokka hennar.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, herra forseti, en vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi hér svör við þeirri spurningu sem ég hef borið fram.