06.12.1977
Sameinað þing: 26. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

Umræður utan dagskrár

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð, sem tveir síðustu ræðumenn hafa viðhaft, að mér finnst ræða hæstv. iðnrh. vera ákaflega athyglisverð. Satt best að segja kom upp í huga minn önnur ræða sem ég heyrði þennan sama mann halda árið 1945. Það var 1. des. þegar hingað höfðu borist kröfur frá Bandaríkjastjórn um þrjár herstöðvar á Íslandi í heila öld. Þá flutti hæstv, ráðh, einu ræðuna sem ég hef verið sammála úr hans munni. Hann varaði mjög alvarlega við og með miklum siðferðisþunga, Íslendingar mættu ekki beygja sig undir slíkar kröfur. En það hefur mikið breyst hjá þessum hæstv. ráðh. síðan og þá sögu ætla ég ekki að rifja upp. Við vitum nú fullvel það sem við vissum ekki 1945, að kröfugerð Bandaríkjanna átti sér æðilangan aðdraganda. Það hefur sagnfræðingurinn Þór Whitehead m.a. rakið í ákaflega fróðlegum greinum, og heildarathuganir hans munu birtast í doktorsritgerð nú á þessu ári og mun hún við birtingu leiða margt fleira í ljós. En aðdragandi þessa máls var sá, að ýmsir af forustumönnum þriggja flokka hér á Íslandi, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl, voru á því að innlima Ísland í Bandaríkin. Um þetta eru óhnekkjanleg gögn bæði um viðtöl Vilhjálms Þórs um þetta efni og forustumanna úr Sjálfstfl. og Alþfl., þ. á m. tveggja fyrstu forseta íslenska lýðveldisins. Þetta er ljót saga, og við vitum miklu meira um hana en við vissum þá.

En þessi hugmynd, að Bandaríkin innlimuðu Ísland, á sér raunar æðilangan aðdraganda. Ég rakst á það í dönsku riti sem ég las nýlega um stöðu Grænlands, að þegar Bandaríkin keyptu Alaska af Rússum á síðari hluta 19. aldar voru uppi sterkar raddir um það í Bandaríkjunum að kaupa af Dönum Grænland og Ísland. Þessar rætur eru því æðidjúpar í hugsun bandarískra valdamanna, að líta eigi á Ísland aðeins sem hluta af Bandaríkjunum, Því miður hefur komið í ljós að hér á Íslandi, og það rétt eftir lýðveldisstofnun, voru áhrifamenn sem vildu fallast á þessa leið.

Kröfu Bandaríkjamanna um þrjár herstöðvar, sem þeir báru fram 1945, var hafnað. En bandarísk stjórnarvöld einsettu sér að ná markmiðum sínum í áföngum. Gerður var Keflavíkursamningur 1946 til að tryggja stöðu þeirra á Keflavíkurflugvelli, og það var samið um hernám 1951 af íslenskum stjórnarvöldum. Þá voru ýmsir bæði úr Sjálfstfl. og Framsfl. sem lögðu á það áherslu að seta bandarískra hermanna hér á Íslandi væri ill nauðsyn. Ég veit að sumir þeirra voru í raun þessarar skoðunar, þ. á m. þáv. leiðtogi Sjálfstfl., Bjarni heitinn Benediktsson. Ég veit það beint af viðtali við hann. En Bandaríkin héldu sínu striki.

Ég vil minna menn á hvað gerðist árið eftir að hingað kom bandarískur her 1951. Æðistórum hluta verkfærra manna í landinu var sópað suður á Keflavíkurflugvöll til þess að vinna störf fyrir hernámsliðið, Þrír stjórnmálaflokkar á Íslandi, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., sáu um þessa vinnumiðlun. Þeir létu njósna um skoðanir þess fólks sem vildi fá atvinnu á vellinum. Njósnað var um skoðanir þess og skoðanir aðstandenda þess. Búin var til spjaldskrá um skoðanir Íslendinga til afnota fyrir Bandaríkin á vegum þessara þriggja flokka. Það ástand, sem var komið hér upp á árunum eftir 1951, var ákaflega alvarlegt. Þá stóð til að gera Ísland að miklu stórfelldara hernaðarmóðurskipi en landið er nú. Það stóð til að gera hernaðarflugvöll á Suðurlandi og herskipahöfn einnig á Suðurlandi. Það stóð til að koma upp lægi fyrir kjarnorkukafbáta í Hvalfirði. Og íslenskir aðilar voru á bólakafi í samningagerð og viðræðum um þessi atriði. Þessir þrír flokkar sem ég hef nefnt: Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., skiptu þar á milli sín beinum hagsmunum, beinum fjármálahagsmunum. Og þeir létu sér ekki einu sinni nægja að taka við því fé sem Bandaríkin greiddu af miklu örlæti. Eitt af þeim félögum, sem stofnuð hafa verið fyrir fjármuni íslenskra samvinnumanna, Olíufélagið hf. gerði sig sekt um stórfellda fjármálaglæpi, þ. á m. gjaldeyrisþjófnað, og forustumenn þess voru dæmdir í Hæstarétti — forustumenn þessa félags sem var stofnað fyrir fjármuni samvinnuhreyfingar á Íslandi.

Mér er spurn: Er enginn framsóknarmaður hér á þingi sem finnur til blygðunar yfir því að flokkur hans skuli hafa tekið þátt í atburðum af þessu tagi? Þarna hefur verið um óhemjulegt fjármálabrask að ræða, og ég er alveg sannfærður um að þessi þáttur, sem tókst að leiða fram í dagsljósið í sambandi við Olíufélagið hf., er aðeins brot af þeim fjárdrætti sem þarna hefur farið fram.

Við fengum nýlega í fréttum skýrslu um það, að dönsk stjórnarvöld hefðu greint frá því, að Íslendingar ættu á annað hundrað millj. kr. í dönskum bönkum. Ég hugsa að þetta sé æðilítill hluti af þeirri fjárhæð sem íslenskir aðilar eiga t.a.m. í Lundúnum og New York og í Sviss, þar sem fé af þessu tagi er falið og afbrota.menn borga fyrir að fela féð fyrir sig. Það kom í ljós á sínum tíma í sambandi við olíumálið, að fé, sem hafði verið stolið undan af Olíufélaginu, var geymt í Sviss, og það tókst ekki fyrir Hæstarétti að afla neinna upplýsinga um þessa fjármuni.

Það hefur sannarlega farið fram sala í sambandi við bandaríska hersetu á Íslandi. Og eins og kom fram í máli hæstv. iðnrh. er það þessi þáttur sem nú á að leggja vaxandi áherslu á. Þegar bandarískur her kom hingað 1951 o.g samið var um stöðu hans, þá fékk hann ýmis ákaflega einkennileg fríðindi í samanburði við íslenska þegna í landinu, og ég man að þetta var mikið rætt á þingi þá. En þetta var allt saman varið með því, að hersetan ætti aðeins að standa skamma stund, þetta væri ill nauðsyn og það mætti ekki koma málum þannig fyrir að hersetan yrði eðlilegur þáttur í íslensku þjóðlífi. Þannig var þetta rökstutt, En rökstuðningur hæstv. iðnrh, áðan var um það, að hersetan ætti að vera til frambúðar eðlilegur þáttur í íslensku þjóðlífi. Hann vildi gera ráðstafanir til þess, að varnarliðið keypti meira af landbúnaðarvörum Íslendinga, af iðnaðarvörum Íslendinga. Hann vildi að fleiri íslenskir verktakar fengju að vinna á vellinum en verktakar þeir sem eru í Sameinuðum verktökum sem hæstv. forsrh. hafði einu sinni forustu fyrir, en þeim samtökum hefur verið lokað, þannig að ýmsir nýríkir menn hafa ekki aðstöðu til að hagnast í gegnum þau eins og er. Það er greinilega munur á viðhorfum þessara tveggja hæstv. ráðh, um þetta efni. Hæstv. iðnrh. vill að hinir nýríku fái einnig að njóta góðs af hersetunni, en hæstv. forsrh. val að fornvinir hans sitji einir að þessu.

Þetta er leiðin til þess að koma í framkvæmd því sem bandarísk stjórnarvöld hugsuðu sér og forustumenn þriggja íslenskra stjórnmálaflokka töluðu um á síðari stríðsárunum, að gera bandarísk yfirráð yfir Íslandi varanleg. Þannig stóðu sakir eftir hernámið 1951, að meira en fjórðungur af gjaldeyristekjum íslensku þjóðarinnar kom af störfum í þágu hersins.

Eins og ég minntist á áðan var mönnum sópað á völlinn hvarvetna að af landinu. Það var skipulagt atvinnuleysi til þess að flæma menn suður á völl. Og málum var svo komið að við urðum að leita til vina okkar Færeyinga til að manna skipin, vegna þess að íslenskir sjómenn höfðu verið ráðnir í störf á Keflavíkurflugvelli. Þessu tókst sem betur fer að snúa við í tíð fyrri vinstri stjórnar á Íslandi. Tekjurnar af hersetunni duttu niður fyrir 6% af þjóðartekjum og urðu ekkert vandamál. En ef farið verður inn á þessa braut, að flækja fleiri og fleiri aðilum: iðnrekendum, bændum, inn í hersetuna, þannig að þeir eigi tekjur sínar undir því að erlendi herinn kaupi sem allra mest af afurðum þeirra, er verið að reyna að festa hernámið í sessi. Við þekkjum dæmi um þetta utan úr heimi. Möltubúar sitja enn þá uppi með mjög stórfelldar breskar herstöðvar. Þeir hafa lengi viljað losna við þessar herstöðvar og samþykkt það margsinnis í þjóðþingi sinu. En þeir hafa ekki getað það, vegna þess að efnahagsafkoma þessarar eyjar var orðin algjörlega háð störfum í þágu hins erlenda hers og ef herinn hefði farið hefði þjóðin staðið uppi verkefnalítil. Forsrh, Möltubúa hefur verið að reyna að finna úrræði til þess að losna við þessar erlendu herstöðvar, en hann hefur ekki fundið þessi úrræði. Það, sem felst í málflutningi hæstv. iðnrh., er að reyna að koma hliðstæðri hnappeldu á Íslendinga, að Íslendingar geti ekki af efnahagsástæðum losað sig við þennan erlenda her. Það er verið að reyna að framkvæma áformin um að innlima Ísland í Bandaríkin — þessi áform sem voru rædd af bandarískum og íslenskum ráðamönnum fyrir meira en 30 árum.

Þetta er það alvarlega í sambandi við þetta mál, að hér er verið að reyna að gera Íslendinga háða erlendri hersetu, þannig að við losnum aldrei framar við hinn erlenda her, þannig að mál þróist smátt og smátt svo að við verðum innlimuð í Bandaríkin, eins og talað var um opinskátt á síðari árum heimsstyrjaldarinnar.

Hæstv. iðnrh, sagði ýmislegt fleira sem vert væri að minnast á. Ég skal ljúka máli mínu, hæstv. forseti, ef ég fæ eina eða tvær mínútur í viðbót. (Forseti: Ég vildi aðeins grennslast eftir því, hvort hv. þm. ætti mikið eftir af ræðu sinni.) Ég get átt mikið eftir, en ég get líka stytt mál mitt. (Forseti: Það væri gott ef hv. þm. vildi gera það, því að þingfundi verður slitið nú innan tíðar.) Það var margt í ræðu hæstv. ráðh. sem ég vil gjarnan gera athugasemdir við. Hann var t.a.m. að tala um það, að ef til hernaðarátaka kæmi væru borgararnir varnarlausir, og minntist á vegi og brýr í því sambandi og að slíkt hefði ekki verið athugað. Þetta var athugað á sínum tíma. Íslenskur vísindamaður, Ágúst Valfells, gerði skýrslu um það, hvað gerast mundi, ef kjarnorkusprengju yrði varpað á Keflavíkurflugvöll, og hvernig ætti að bregðast við hér í Reykjavík einkanlega við geislavirku úrfelli. Muna menn hver niðurstaða hans var? Hún var sú, að æðihá prósenttala af Reykvíkingum mundu farast þegar í stað og eina leiðin til að bjarga lífinu væri að fara ofan í sem dýpsta kjallara — ekki að flytja sig eftir vegum eða brúm, heldur að grafa sig niður í jörðina, hafa þar matvælabirgðir og reyna að hafast þar við sem lengstan tíma. Þarna var vandinn, og ég hygg að þetta sé algjörlega raunsætt mat. Ef kæmi til hernaðar, þá yrði beitt aðferðum sem svokallaðar almennavarnir mundu lítið ráða við.

En alvarlega atriðið í þessu er það, að sú stefna virðist vera komin upp innan Sjálfstfl. að taka aftur upp þau gömlu viðhorf, að við eigum að afsala okkur sjálfstæði, vera undir bandarískri stjórn um alla framtíð, fyrst sem leppríki eða hvað á að kalla það og síðan sem hluti af Bandaríkjunum. Það er þetta sem kom fram í ræðu hæstv, iðnrh.