07.12.1977
Neðri deild: 26. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

21. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir nú menn fara að verða allháfleygir í ræðum sínum og séu komnir raunar nokkuð langt frá því málefni, sem hér er á dagskrá. En það hafa orðið miklar umr. um þetta frv. og mjög skiptar skoðanir að hverju skuli stefna í sambandi við væntanlegar breytingar, bæði á stjórnarskránni og kosningalögunum. Um eitt virðast þó hv. alþm. vera sammála, að einhverra breytinga sé þörf, ekki sist á því atriði sem felst í þessu frv., þ.e.a.s. að með einhverjum hætti sé nauðsynlegt að auka möguleika kjósandans til að hafa meiri áhrif á hverjir komist að á þeim lista sem hann kýs. Um þetta virðast menn vera að mestu leyti sammála. En hvernig skal þessu svo breytt? Þá vandast málið.

Ég held að menn hafi raunar ekki áttað sig nógu vel á því, hvernig stendur á því að þessi umr. fer fram einmitt núna um að breytinga sé þörf, eða a.m.k. hef ég ekki heyrt það af þeim ræðum, sem ég hef hlustað á. Því miður hef ég ekki hlustað á allar þessar ræður. En umr., sem fer fram um þetta mál, er einmitt út af þeim prófkjörum sem hafa farið fram nú að undanförnu, og menn hafa sannfærst um að þarna verði eitthvað að breyta til og útilokað sé að þetta geti farið fram áfram eins og tekist hefur til með sum þessi prófkjör á þessum vetri. Það er auðvitað vel hægt að hugsa sér að setja lög hér á hv. Alþ. sem kveða á um það hvernig prófkjör skuli fara fram. Það er hægt að hugsa sér að setja lög um það, að ef prófkjör fara fram á annað borð skuli þau fara fram hjá öllum þeim flokkum, sem vilja slíkt, í einu. Það eru sögusagnir um það, sem ég veit auðvitað ekki hvort eru sannar, að í ákveðnu þéttbýli á landinu, þar sem fram fór þrisvar sinnum prófkjör á þessu hausti eða þessum vetri, hafi um 90% í hvert skipti eða um það bil tekið þátt í hverju prófkjöri um sig. Þetta sýnir náttúrlega hvað er að marka þessi prófkjör í sjálfu sér í mörgum tilvikum. Og þegar menn standa frammi fyrir þessu fara menn að hugsa um það, hvernig sé hægi að koma málum þannig fyrir að slíkt geti ekki skeð, að í raun og veru séu það allt aðrir í mörgum tilvikum en þeir sem styðja þann flokk, sem í þetta og þetta sinn hefur prófkjör, kannske allt aðrir, sem ráða því, hvernig listinn verður settur fram.

Þegar hv. þm. Jón Skaftason lagði þetta frv. fram ræddi hann um það við mig m.a., að ég yrði meðflm. hans á þessu frv. Ef það hefði verið svolítið á annan veg hefði ég gert það, því að það stefnumið, sem felst í frv., tel ég til bóta. Það er bara þetta atriði, að raða upp eftir stafrófsröð, sem ég get ekki fallist á. Ég tel rétt að flokkarnir, hver og einn, raði upp listanum eins og kjördæmisþing hvers flokks ákveður. Hins vegar vil ég fyrir mitt leyti ekkert hafa með það atkv. að gera sem vill mig ekki og strikar mig út. Ég vil ekki hafa neitt með það að gera. Það kann vel að vera að sumir hv. þm. vilji fljóta inn á slíkum atkv., en ég vil ekkert með það gera. Og ég held að það væri réttmætt, þegar menn eru að tala um frelsi í þessum efnum, að kjósendur séu frjálsir að því hvern þeir kjósa. Það eru mannréttindi. Það eru að mínu mati mannréttindi að menn ráði því, hvern þeir kjósa, en fari ekki að öllu leyti eftir því sem flokkurinn setur upp, — að menn hafi rétt til þess að breyta. Hitt má svo aftur deila um, hvað þetta eigi að vega mikið, því að ég vil ekki 2/3 af því atkvæði sem vill mig ekki, ég vil ekki sjá það. Og ég held að ef menn vilja réttlæti, et menn vilja mannréttindi á annað borð nema bara í orði kveðnu, eigi þeir að fylgja því fram að menn fái þessi réttindi. En ég veit ekki um hvaða mannréttindi menn eru þá að tala. Það þarf að skilgreina það nánar svo að ég skilji það.

Það er talað um það hér að tekist sé á um stefnur. Auðvitað er tekist á um stefnur. En einstaklingar takast alltaf á um stefnur, og það er þess vegna ekki alveg sama fyrir kjósendur hvaða einstaklingar það eru sem þeir kjósa, sem þeir fela að takast á um þessar stefnur. Ég held að þetta geti farið saman, að flokkarnir raði upp listunum, ef menn vilja í sjálfu sér breyta einhverju. Menn eru kannske að verða svo íhaldssamir að þeir vilji engu breyta, ekki neinu, þó að menn horfi á það opnum augum að ástandið, sem ríkir í þessum málum, er ekki hægt að þola. Ég skal taka þátt í því að flytja frv. um að það verði að fara eftir ákveðnum reglum í sambandi við prófkjör, þannig að það sé komið í veg fyrir að hópar manna í öðrum flokkum geti skipulagt hverjir verði á listum andstæðinganna, eins og nú virðist vera. Ef þessu er ekki breytt verður líka að auka rétt kjósandans til þess að geta haft áhrif á það, hverjir komast inn af listum sem eru svona raðaðir. En ég get tekið undir hitt, að ég felli mig ekki við þá leið að raða þessu í stafrófsröð, enda hefur hv. þm. Jón Skaftason tekið það fram, að þó að hann setti þetta upp þannig, væri hann tilbúinn að ræða um breytingar á því fyrirkomulagi á ýmsa vegu. Hann gerir þetta svona til þess að fá umr, og umfjöllun þm. um málið yfirleitt, ef ég hef skilið orð hans rétt.

Menn tala um réttlæti, menn telja réttlætið það, að óeðlilegt sé að Vestfirðingar hafi mörgum, sinnum meiri rétt til þess að kjósa sér fulltrúa á Alþ. en t.d. Reykjanes hefur. Það hafa verið lagðar fram tölur í því sambandi sem eru að mínu mati ákaflega villandi. Ég hef haft samband við námsmenn í tveimur löndum undanfarin þrjú ár. Það var mikil lífsreynsla fyrir mig. Ég hef talað inn á segulbandsspólur og þeir hafa haldið fundi og svarað þessu og spurt mig. Einn þessara manna sagði að hann væri ekki pólitískur, en hann mundi þó fylgja helst Framsfl. að málum vegna þess hvaða skoðanir framsóknarmenn hefðu á þessum málum, og hann tók Vestfirði sem dæmi. Hann sagði: „Það er allt annað fyrir þm. á Vestfjörðum að ná til kjósendanna. Það verður líka að taka tillit til svæðanna, til hinna dreifðu byggða. Það er allt annað fyrir þm. Vestf. eða Austurl. eða Norðurl. e. að ná til fólks heldur en t.d. á Vesturlandi eða Suðurlandi.“ Ég hélt að þetta væri Vestfirðingur, en þegar ég fór að grennslast eftir því síðar, hvaðan þessi ungi maður væri, kom í ljós að þetta var Reykvíkingur, og það voru fleiri ungmenni einmitt af þessu svæði, sem voru þarna erlendis, sem hugsuðu á sama hátt og þessi ungi maður.

Það hefur komið fram í þessum umr. að formenn allra stjórnmálaflokkanna eru hlynntir því að gera einhverjar breytingar að þessu leyti. En ef maður svo hlustar á umr. hér á hv. Alþ., þá er í raun og veru verið að tala um allt annað og drepa málinu á dreif. Það er greinilegt af ræðum margra hv. þm. að hugur fylgir alls ekki máli.

Ég skal svo ekki vera að ræða þetta í lengra máli. Ég legg áherslu á að málið komist í n. Ég legg áherslu á að það sé kannað hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi um að breyta þarna til. Ég álít að reynslan af prófkjörunum í vetur ætti að hafa kennt okkur að setja verði lög eða fastar reglur um prófkjör, og ég held að ef menn hafa meint eitthvað með því sem þeir hafa sagt á undanförnum árum, að þeir vilji styðja rétt kjósandans til þess að hafa áhrif á það hverjir nái kjöri á framboðslistum, þá eigi þeir að manna sig upp og reyna að ná samkomulagi til þess að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem nú er.