08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 40 flytjum við nokkrir þm. Vestfjarða till, til þál. um athugun á úrbótum varðandi flugsamgöngur við Vestfirði. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta athuga nú þegar með hvaða hætti tryggja megi sem bestar og öruggastar flugsamgöngur við Vestfirði.

Athugun þessi skal fyrst og fremst beinast að eftirfarandi:

1. Lýsingu og öryggistækjum vegna aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugvelli.

2. Endurbótum og lengingu á flugbrautinni við Holt í Önundarfirði og flugbrautinni í Bolungarvík með það í huga að þær gegni því hlutverki að vera varavellir fyrir Ísafjarðarflugvöll.

3. Öryggisbúnað og lýsingu á Þingeyrarflugvelli.

4. Lýsingu og öryggistækjum vegna aðflugs og lendingar á Patreksfjarðarflugvelli.

Athugun þessari skal hraðað svo sem frekast er kostur og skulu niðurstöður liggja fyrir það snemma árs 1978, að hægt sé að gera ráð fyrir fjárveitingum til framkvæmda á fjárlögum 1979.“

Á síðasta þingi flutti ég þáltill. sem var í meginatriðum samhljóða þessari þáltill. sem hér er nú til umr., en hún hlaut ekki afgreiðslu Al]l. þá, og því er þessi till. flutt nú. Flm. ásamt mé: eru hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, Sigurlaug Bjarnadóttir og Gunnlaugur Finnsson.

Það hafa átt sér stað hér á Alþ. og viðar á undanförnum árum allmiklar umr. um samgöngumál, ekki einungis um flugsamgöngur, heldu: einnig í sambandi við samgöngur á landi og á sjó. Á vegum samgrn. athugaði nefnd hvernig mál stæðu að því er varðaði flugsamgöngur innanlands, og að því er ég best veit er búin að liggja fyrir niðurstaða n. þessarar varðandi athuganirnar fast að einu ári. Það er ekki ætlan mín að rekja niðurstöður þessarar n., en ég tel rétt að vekja á því athygli, að mér vitanlega hafa ekki sést eða fram komið till. sem gefa til kynna að vænta megi skipulegra úrbóta á næstunni.

Varðandi þessa þáltill. er það að segja, að hún er um það að Vestfirðir verði sérstaklega teknir út úr og þar verði gerð athugun á úrbótum varðandi flugsamgöngur, fyrst og fremst vegna þess að Vestfirðir eru landshluti sem hefur sérstöðu varðandi samgöngumál, ekki einungis með hliðsjón af flugsamgöngum, heldur einnig bæði að því er varðar samgöngur á landi og á sjó. Það er t.d. þannig varðandi samgöngur á landi á Vestfjörðum, að Vestfirðir eru einangraður landshluti vegna samgangna á landi allt frá 7 upp í 9 mánuði á ári hverju. Sömu sögu er að segja að því er varðar samgöngur innan Vestfjarðakjálkans sjálfs. Á sama tíma og þetta er staðreynd líða allt upp í þrjár vikur milli þess sem ríkisskip er á ferðinni á Vestfjarðahafnir. Og í þriðja lagi, þessu tvennu til viðbótar, getur það átt sér stað svo dögum skiptir að engar flugsamgöngur séu við Vestfirði. Það er því ljóst, að í öllum þessum þremur þáttum að því er varðar samgöngur eru Vestfirðir einangraðasti landshlutinn að þessu leyti, og hygg ég að menn deili ekki um það.

Einangrun eins og hér hefur verið lýst er auðvitað óþolandi, og raunar má furðulegt teljast hvað stjórnvöld virðast viljalítil og afskiptalaus að því er varðar úrbætur í þessum hagsmunamálum Vestfirðinga.

Varðandi flugsamgöngur við Vestfirði nú, þá eru þær með þeim hætti að það er um að ræða áætlunarflug á vegum Flugleiða til þriggja staða á Vestfjörðum, þ.e.a.s. Ísafjarðar, Þingeyrar og Patreksfjarðar. Enginn af þessum flugvöllum er þannig útbúinn að hægt sé á honum að lenda eftir að skyggja tekur eða myrkur er komið. Yfir mesta skammdegið er því .einungis þriggja til fjögurra klukkutíma tímabil úr deginum eða sólarhringnum þar sem um er að ræða að flug geti átt sér stað til þessara staða í skammdeginu.

Þessi till., sem hér er nú til umr., er flutt ekki bara til þess að vekja athygli á þessu vandamáli þessa landsfjórðungs og gera tilraun til þess að opna augu ráðandi manna á hinni sérstöku einangrun sem Vestfirðingar hafa þurft og þurfa við að búa í samgöngumálum, heldur er hún einnig og ekki síður flutt til þess að reyna að koma hreyfingu á málið að því er varðar það, að gerð verði athugun á því, með hvaða hætti sé hægt að ráða bót á þessu mikla samgönguvandamáli þessa landshluta og kanna til hlítar hvaða úrbætur koma hér fyrst og fremst til greina.

Í framsögu fyrir þáltill. á síðasta Alþ. gerði ég allrækilega grein fyrir þessum málum. Ég skal ekki hafa ýkjalangt mál um það nú, en vil þó aðeins drepa á nokkur atriði þess.

Varðandi 1. lið till., sem er um athugun á lýsingu og öryggistækjum vegna aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugvelli, þá er, eins og hér hefur áður komið fram, ekki um það að ræða að á Ísafjarðarflugvöll sé hægt að fljúga nema í dagsbirtu. Auk þess er þar um að ræða sérstakt vandamál vegna misvinda sem þar eiga sér títt stað, en ekki á ég von á því, að stjórnvöldum takist að ráða bót á því vandamáli, heldur verði til annarra ráðstafana að grípa gegn þeim vanda.

Því hefur verið haldið fram varðandi lýsingu til aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugveili að ekki væri um slíkt að ræða, hvorki tæknilega séð né væri slíkt framkvæmanlegt vegna mikils kostnaðar við slíkar framkvæmdir. Nú skal engu um það slegið föstu af mér, hvort þessar fullyrðingar sumra hverra hafa við rök að styðjast. En ég tel nauðsynlegt að það verði gerð á því athugun og það rækileg, hvort hér er um að ræða slíkt vandamál sem með engum hætti er hægt að ráða bót á í nútímaþjóðfélagi.

Það voru uppi um það hugmyndir ekki alls fyrir löngu, að það mætti sameina þarna þrennt varðandi lýsingu á Ísafjarðarflugvelli, þ.e.a.s. lýsingu bæjarins sjálfs, lýsingu til lendingar á flugvellinum og lýsingu til aðflugs. Um þetta voru uppi hugmyndir ekki alls fyrir löngu, og ég hef ekki heyrt mótbárur eða andsvör gegn þessum hugmyndum sem ég tel að hafi við rök að styðjast, allra síst ef lítið er til þeirrar miklu tæknivæðingar sem átt hefur sér stað bæði í þessum efnum svo og öðrum á undanförnum árum. Ég tel því og við flm. nauðsynlegt að gengið sé úr skugga um hvort sé í raun og veru útilokað mál að ráða bót á þessu vandamáli.

Varðandi 2. lið till., um endurbætur á flugbrautinni við Holt í Önundarfirði og flugbrautinni í Bolungarvík, þá er þar um að ræða athugun á því, hvort annar hvor þessara staða eða báðir geta ekki komið til greina sem varavellir fyrir Ísafjarðarflug í þeim tilvikum að ekki er þar hægt að lenda, En þar er, eins og ég áður sagði, um að ræða vandamál vegna misvinda á þeim stað þar sem flugvöllurinn er. Sem leikmaður og raunar eftir viðtali við suma flugstjórnarmenn, sem flogið hafa og að nokkru leyti athugað kannske lauslega aðstæður á þessum stöðum, þá hygg ég að þarna sé um framkvæmanlegt atriði að ræða, spurningin sé einvörðungu sú, hvort stjórnvöld og ráðandi menn þjóðarinnar treysti sér til þess að setja til þess það fjármagn sem þarf til að það geti orðið að veruleika.

En hér er sem sagt um það að ræða að gerð verði athugun á því, hvort ekki geti verið um að ræða úrbætur á öðrum hvorum þessara staða eða báðum sem geti leitt til þess að þjóna sem varaflugvellir vegna Ísafjarðarflugvallar í þeim tilvikum sem ekki er þar lendandi.

Í þriðja lagi er um það að ræða að auka öryggisútbúnað og gera athugun á því, hvort ekki er hægt að koma við lýsingu á Þingeyrarflugvelli. Ég hef ekki um það vitneskju, hvort nein slík lausleg athugun varðandi Þingeyrarflugvöll hefur átt sér stað. En ég tel nauðsynlegt að í þessari athugun sé einnig um það að ræða að athuga í leiðinni hvort kostnaðarsamt er og hvort framkvæmanlegt er þá að koma fyrir lýsingu á Þingeyrarflugvelli.

Það er rétt að það komi fram í sambandi við Þingeyrarflugvöll, að það hefur gerst í nokkrum tilvikum að Þingeyrarflugvöllur hefur verið notaður sem lendingarstaður þegar ekki hefur verið hægt að lenda á Ísafjarðarflugveili. Þetta er og hefur verið framkvæmt að sumarlagi til þegar samgöngur eru tiltölulega greiðar. En frá Ísafirði til Þingeyrarflugvallar undir eðlilegum og miðað við okkar kringumstæður góðum akstursskilyrðum er um að ræða 11/2–2 klukkutíma akstur milli þessara staða.

Ég held, þó að gert væri ráð fyrir að þarna væri fært á milli mestan hluta ársins eða allt árið, þá sé ekki um það að ræða að nota Þingeyrarflugvöll sem varaflugvöll fyrir Ísafjörð vegna þessarar vegalengdar. Og svo kemur hið stóra mál þar til viðbótar, að mikinn hluta úr árinu er þessi leið lokuð vegna snjóa. Það eitt út af fyrir sig kemur í veg fyrir að um það verði að ræða að Þingeyrarflugvöllur verði notaður nema þá tiltölulega lítinn hluta úr árinu sem varaflugvöllur fyrir Ísafjörð.

Í fjórða lagi er svo gert ráð fyrir því, að athugað verði, hvort ekki megi koma fyrir lýsinga á Patreksfjarðarflugvelli, og einnig verði athugað með hvaða hætti best verði ráðin bót varðandi öryggisútbúnað á þeim velli. Nú held ég að það sé talið mjög vel framkvæmanlegt að koma upp lýsingu á Patreksfjarðarflugvelli. Það er hins vegar spurningin um vilja og fjármagn til þess að ráðast í framkvæmdir af því tagi.

Eins og áður kom fram, þá gerir till. ráð fyrir að þessari athugun verði hraðað svo sem frekast er kostur, a.m.k. þannig að niðurstöður geti legið fyrir svo snemma á næsta ári að hægt verði að gera til þess ráðstafanir — því skal við bætt enn einu sinni: verði fyrir því vilji hjá stjórnvöldum að ráða hér bót á, þannig að hægt sé að gera till. um fjárveitingar á fjárlögum ársins 1979.

Ég hef áður tekið það fram og raunar oft, en hygg að það verði aldrei nógsamlega undirstrikað, hversu Vestfirðir eru í raun og veru einangraðir og afskekktir í samgöngulegu tilliti. Það er auðvitað margt sem kemur til. En það er enginn vafi á því, að þar er hægt að breyta mjög verulega til hins betra sé fyrir því vilji af hálfu ráðandi manna í þjóðfélaginu.

Það er skoðun okkar flm. þessarar þáltill., að við lítum svo til að ekkert sé í raun og veru sem ætti að geta komið í veg fyrir að þessi athugun eigi sér stað. Það skal undirstrikað að hér er einungis um það að ræða að athuga þetta mál. Hér er ekki um það að ræða að gera till. um að fara í framkvæmdir, heldur að þessi athugun verði sett af stað og hún framkvæmd, þannig að niðurstöður fáist varðandi hugsanlegar framkvæmdir til úrbóta.

Ég vil að lokum leggja á það mikla áherslu, að þar sem hér er einungis um athugun að ræða, — athugun sem leiði af sér niðurstöður svo tímanlega á næsta ári að hægt sé að gera ráð fyrir fjárveitingum, þá legg ég á það þunga áherslu að þetta mál fáist afgreitt áður en þing lýkur störfum og helst nokkuð tímanlega á þingi eftir að það kemur saman úr jólaleyfi, væntanlega síðari hluta janúarmánaðar. Ég held að það geti vart nokkuð komið fram sem mæli gegn því að athugun af þessu tagi fari fram, þannig að menn fái sem skýrasta mynd af þeim vandamálum sem við er að glíma, bæði því, hvernig í raun og veru Vestfirðingar eru settir varðandi samgöngur, og svo hinu, með hvaða hætti er hægt að bæta það vandræðaástand sem þar hefur verið og er um að ræða. á þetta leggjum við þunga áherslu, og ég vænti þess að sú n., sem málið fær til umfjöllunar og skoðunar, hraði störfum sínum að því er það varðar. Og ég vænti þess ekki síður að hv. Alþ. sjái sér fært að afgreiða þessa þáltill. tiltölulega snemma eftir áramót.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta öllu lengra mál. Ég vísa til framsögu fyrir sams konar till. á síðasta Alþ. og vil svo leggja til að umr. verði frestað og málinu verði vísað til hv. allshn. til umfjöllunar.